Einhverjar eftirminnilegustu eldhústilraunir mínar á yngri árum voru jaðikökurnar. Ég hef verið svona tólf ára og hafði rekist á uppskrift í dönsku blaði – Feminu örugglega, það var blaðið sem mamma keypti – að smákökum sem freistuðu mín alveg óstjórnlega. Þær hétu jadekager og voru fagurgrænar að lit. Græni liturinn hefur alltaf verið uppáhaldið mitt og mig langaði svo mikið í þessar kökur.
Svo að ég fann til það sem þurfti, þar á meðal grænan matarlit auðvitað, gerði deigið og bakaði kökurnar. En þær urðu grjótharðir hnullungar. Ég gerði annan skammt af deiginu og til að það yrði nú ekki of þykkt ákvað ég að bæta við dálítilli mjólk. En þá runnu þær auðvitað út í allar áttir og brunnu meira og minna því þær voru svo þunnar. Ég gerði þriðju tilraunina -líklega var nú ekki dýrt hráefni í þessum kökum fyrst mamma lét mig komast upp með það – og man ekki alveg hvað fór úrskeiðis en kökurnar voru allavega óætar. Svo að ég gafst upp og hef aldrei reynt að baka jaðikökur aftur. Þótt mig dreymi stundum um þær.
It ain’t easy being green.
En hér er samt fagurgrænt bakkelsi, eða þannig. Ekki smákökur reyndar – en allavega vel heppnað og alveg ágætt. Og bráðhollt náttúrlega. Ósætt og með spínati og heilhveiti og svona.
Ég byrjaði á að setja tvö egg, 100 ml af mjólk og svona 100 g af kotasælu í matvinnsluvélina og þeyta saman.
Svo setti ég svona 60 g af spínati og 10-12 basilíkublöð út í og lét vélina ganga þar til blöðin voru alveg komin í mauk og þetta var bara grænn vökvi. Eða grænt sull, væri kannski betri lýsing.
Svo vigaði ég 100 g af heilhveiti og setti út í, ásamt 3/4 tsk af lyftidufti, og þeytti þetta saman við. Ég lét svo soppuna standa í 20-30 mínútur; það var reyndar aðallega af því að ég þurfti að sinna öðru en hún hefur bara gott af því.
Svo bræddi ég 50 g af smjöri, hrærði saman við soppuna og hellti henni í skál. Soppan á að vera frekar þunn en ef hún er of þunn má bæta við svolítið meira heilhveiti.
Svo bræddi ég meira smjör á pönnu, setti soppuna á hana með sósuskeið og steikti lummurnar við meðalhita þar til yfirborðið var farið að þorna.
Þá sneri ég þeim við og steikti snöggvast á hinni hliðinni. Tók þær svo af pönnunni, bætti við aðeins meira smjöri og steikti næsta skammt. Þetta urðu 15-16 lummur alls.
Mér finnst þessar lummur bestar með góðum osti en það má hafa ýmiss konar álegg. Þær eru líka góðar t.d. með súpu eða salati.
Spínatlummur
2 egg
100 ml mjólk
100 g kotasæla
60 g spínat
10-12 basilíkublöð
pipar
salt
100 g heilhveiti
3/4 tsk lyftiduft
50 g smjör, og meira til steikingar