Vetrarsúpa í stað lakkrístilrauna

Ég var hálfpartinn búin að ákveða að gera einhverjar tilraunir með lakkrísmatreiðslu í dag og setja hér inn, ég var nefnilega í lakkrískvöldverði á Kolabrautinni í gær – sjö réttir samtals og allir bragðbættir með lakkrís frá Dananum Johan Bülow, sem var sjálfur á staðnum. Allt afskaplega gott (þótt ég léti eftirréttina eiginlega alveg eiga sig) og nýstárlegt og ég fékk fullt af hugmyndum sem ég á örugglega eftir að prófa, sumar allavega.

En svo var veðrið þannig í dag að ég nennti ekki út í búð þótt það sé ekki langur spölur og átti ekki hráefni sem mig langaði að nota í lakkrístilraunir. Svo að ég eldaði bara oní fjölskylduna úr því sem til var í frysti og ísskáp (nautakinnar og nautabringa með tómat-grænmetissósu og spaghettíi) og gaf þeim lakkrískúlur frá Johan Bülow á eftir. Hitt bíður betri tíma. Og á meðan má benda á lakkrísuppskriftir sem ég hef áður verið með, til dæmis lakkríssmákökur og lakkrístrufflur og lakkríssúkkulaðiköku. En lakkríshugmyndirnar sem ég er með í kollinum snúast um eitthvað ósætt.

En semsagt, uppskriftin núna er ekki með lakkrís og reyndar heldur ekki nautakinnum og nautabringu, þótt það væri nú alveg ljómandi gott. Hún tekur hins vegar mið af veðrinu og eins og það er núna myndi ég ekkert vera að skera chili-ið sérstaklega við nögl. Þetta er semsagt paprikusúpa (eða strangt til tekið papriku- og tómatsúpa). Uppskriftin var gerð fyrir janúarblað MAN og líklega má segja að það sé dálítill janúar í henni.

_MG_3364

Allavega, ég byrjaði á að kveikja á grillinu í ofninum og svo tók ég 5-6 paprikur sem ég átti. Rauðar og gular en þær mættu líka vera appelsínugular (eða bara rauðar eða bara gular). Bara ekki grænar. Ég hef aldrei skilið hvað fólk sér við grænar paprikur. Eða hvers vegna er verið að selja þær yfirhöfuð, satt að segja … En ég tók semsagt paprikurnar, skar hverja um sig í fernt og hreinsaði burt stilka og fræ og skar rifin innan úr þeim.

_MG_3368

Svo raðaði ég paprikufjórðungunum á grind og lét hýðið snúa upp. Penslaði þær með 1 msk af olíu og setti grindina á næstefstu rim í ofninum. Svo setti ég álpappírsklædda ofnskúffu undir til að taka við safanum sem lekur úr paprikunum (og reyndar líka paprikubitu sem kunna að detta af grindinni).

_MG_3370.JPG

Ég grillaði paprikurnar í 15-20 mínútur, eða þar til mestallt hýðið var orðið svart eða allavega svartflekkótt og paprikurnar mjúkar. Vissara er að fylgjast með þeim, snúa þeim eftir þörfum og taka þær út eða færa þær niður í ofnskúffuna ef þær eru orðnar svartar. Þegar þær voru svo tilbúnar setti ég þær í skál, breiddi plastfilmu yfir og lét standa í 10 mínútur.

_MG_3372

Á meðan paprikurnar voru í ofninum skar ég 4-5 vel þroskaða tómata í fernt, tvo rauðlauka (má nota venjulega) í geira og 3 hvítlauksgeira í nokkra bita hvern. Þegar ég tók paprikurnar út slökkti á á grillinu en stillti ofninn á 200°C. Setti tómata, rauðlauk og hvítlauk í ofnskúffuna, bætti við nokkrum timjangreinum (eða 1 tsk af þurrkuðu timjani), dreypti 3 msk af ólífuolíu yfir og kryddaði með pipar og salti. Setti þetta í ofninn og bakaði í um 20 mínútur.

_MG_3377

Á meðan tók ég hýðið af paprikunum – það ætti að vera auðvelt þegar þær eru búnar að bíða undir plastinu smástund – setti þær í matvinnsluvél og maukaði þær.

_MG_3378

Ég tók svo tómatana og laukinn úr ofninum þgar það var tilbúið, fjarlægði timjangreinarnar.saman við og setti þetta svo í matvinnsluvélina með paprikunum.

_MG_3399

Ég lét vélina ganga þar til maukið var orðið slétt og hellti því þá  í pott, bætti við 400 ml af  vatni og 1 1/2 tsk af grænmetiskrafti (mætti líka vera kjúklingakraftur), kryddaði með klípu af chiliflögum og ögn meiri pipar og salti og lét malla í nokkrar mínútur.

_MG_3411

Og þá er súpan bara tilbúin. Afskaplega hentug á köldum vetrardegi. Líka þótt kominn sé miður mars.

_MG_3463

Svo má lífga aðeins upp á súpuna með því að strá t.d. steinselju yfir þegar hún er borin fram. En það er nú ekkert nauðsynlegt.

*

Paprikusúpa

5-6 paprikur

4 msk ólífuolía

4-5 tómatar, vel þroskaðir

2 rauðlaukar (eða venjulegir)

3 hvítlauksgeirar

nokkrar timjangreinar eða 1 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

400 ml vatn

1 1/2 tsk kjúklinga- eða grænmetiskraftur

smáklípa af chiliflögum eða cayennepipar á hnífsoddi

e.t.v steinselja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s