Skáldlegur plokkfiskur

Núna ætla ég aldrei þessu vant að plögga nýja matreiðslubók  – hún kom út í dag – sem er bara alls ekki eftir mig, þótt ég komi reyndar aðeins við sögu í henni. Þetta er lítil bók og gæti við fyrstu sýn virst býsna sérhæfð því hún er um plokkfisk. Bara plokkfisk. Eða eiginlega bara plokkfisk. En plokkfiskur leynir á sér og er miklu margbrotnara og fjöbreyttara og merkilegra fyrirbæri en maður gæti haldið og það er svo sannarlega hægt að finna ýmsa fleti á plokkfiski. Og elda hann á ýmsan hátt.

Bókin heitir einfaldlega Plokkfiskbókin og er eftir Eirík Örn Norðdahl og gefur skáldlegt og alþjóðlegt sjónarhorn á rétt/fyrirbæri sem flestir halda kannski að sé hversdagslegt og alíslenkst. Óekkí. Ég mæli eindregið með henni, hvort sem maður ætlar að elda plokkfisk, gefa skemmtilega smágjöf (hún er ódýr) eða bara njóta þess að lesa skemmtilegan texta. Og þetta segi ég ekki bara af því að mín er getið nokkrum sinnum í bókinni …

Ég á líka eina gestauppskrit í henni og ég ætla að birta hana hér til að gefa sýnishorn. Af uppskrift en ekki texta því við Eiríkur Örn höfum ekki alveg sama ritstílinn. Og hér er uppskriftin með myndum, sem ekki eru í bókinni. En skoðið Plokkfiskbókina endilega ef hún verður á vegi ykkar. Þið munuð sjá plokkfisk í nýju ljósi.

Þetta er semsagt saltfiskplokkfiskur með spínati og eggjum.

_MG_7957.JPG

Ég tók um 500 g af vel afvötnuðum saltfiski (ef maður er ekki viss er gott að láta hann liggja í hálftíma eða lengur í köldu vatni til að afvatna hann aðeins betur og skar hann  í stykki. Flysjaði svo tvær meðalstórar bökunarkartöflur, skar þær í bita og sauð þær þar til þær voru meyrar. Svo setti ég 250 ml af mjólk, hálfan saxaðan lauk, tvo smátt saxaða hvítlauksgeira, timjangrein eða tvær og nokkru piparkorn í pott og hitaði, setti saltfiskinn út í (mjólkin þarf ekki að fljóta yfir) og lét malla mjög rólega í nokkrar mínútur, þar til fiskurinn var rétt gegnsoðinn.

_MG_7960

Þá tók ég  fiskinn upp úr og setti hann á disk en síaði soðið (mjólkina) yfir í könnu.

_MG_7962.JPG

Ég roðfletti svo fiskinn, setti hann aftur í pottinn ásamt kartöflunum og stappaði með kartöflustappara – ef hann er ekki til má hræra vel með sleif.

_MG_7967

Ég átti svolitla rjómaskvettu og hrærði henni saman við og síðan 2 msk af ólífuolíu. Svo hrærði ég heitri mjólkinni saman við smátt og smátt, þar til plokkfiskurinn var hæfilega þykkur (notaði ekki alla mjólkina). Kryddaði vel með pipar, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.

Á meðan hafði ég sett egg í pott og soðið þau í 5 mínútur. Kældi þau svo og fletti skurninni gætilega af.

_MG_7968

Þá var það spínatið: Ég hitaðu ½ msk af ólífuolíu í potti, setti 2-3 msk af rúsínum og 2-3 msk af fræblöndu (salatblöndu) út í …

_MG_7971

… og síðan 300 g af spínati, steikti í 1-2 mínútur og hrærði oft á meðan. Hrærði svolitlu hvítvínsediki og sinnepi saman við.

_MG_7991.JPG

Svo setti ég spínatið á fat eða diska, setti plokkfiskinn ofan á (það má líka bera hann fram sér í skál) …

_MG_7998

… og setti eggin ofan á hann. Eitt á hvern disk.

Ekki slæmt.

*

 

Saltfiskplokkfiskur með spínati og eggjum

500 g saltfiskur, vel afvatnaður

2 bökunarkartöflur, meðalstórar

250 ml mjólk, eða eftir þörfum

½ laukur, saxaður smátt

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

1-2 timjangreinar eða svolítið þurrkað timjan

nokkur piparkorn

50 ml rjómi (má sleppa)

2 msk ólífuolía

hvítur pipar

4 egg

Spínatið:

300 g spínat

½ msk ólífuolía

2-3 msk rúsínur

2-3 msk fræblanda (salatblanda) eða graskersfræ

1 tsk dijonsinnep

½ msk hvítvínsedik

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s