Ég fór að hugsa um hvort ég ætti ekki að velja eitthvað reykt til að hafa uppskrift að núna – það ætti svo vel við hér á Grettisgötunni, þar sem reykjarstybban liggur enn í loftinu eftir eldsvoðann í gærkvöldi (reyndar ekki inni hjá mér því ég var fljót að loka gluggunum). En svo fannst mér það kannski einum of og er heldur ekkert í mjög reyktu skapi núna; best að velja eitthvað ögn léttara og litríkara.
Ég borðaði reyndar fisk í kvöldmatinn (sörpræs!), túrmerikkryddaðan ofnsteiktan þorsk með gulrótum, nípum og sellerírót. Hann hefði svosem passað fyrir þetta konsept en ég ætla aðeins að dreifa fiskuppskriftunum svo að ég ákvað að geyma hann. Ofnsteiktu sviðin með rótargrænmeti og byggsalati með granateplafræjum sem ég eldaði í gær fá líka að bíða.
Ég var hins vegar með indverskt þema í febrúarblaði MAN og þar var meðal annars uppskrift að kjúklingarétti sem er – jæja, svona alveg sæmilega léttur en allavega nokkuð litríkur.
Þessi kjúklingaréttur er í Balti-stíl. Balti-matargerð reynsar er ættuð frá Pakistan fremur en Indlandi en varð þekkt á Vesturlöndum gegnum indversk/pakistönsk veitingahús í Bretlandi. Það sem einkennir hana er fremur snögg eldun við nokkuð háan hita, yfirleitt í nokkurs konar wokpönnu. Sósurnar innihalda nær alltaf lauk, hvítlauk, túrmerik og garam masala.
Uppskriftin er gerð fyrir fjóra. Ég notaði tvær vænar bringur en ef ykkur finnst of lítið af kjúklingi má alveg bæta við eins og einni bringu. Ég vil frekar minna af kjöti og meira af sósu og grjónum. Ég skar bringurnar í bita (u.þ.b. munnbita), setti þær í skál ásamt einu söxuðu chilialdini, 2-3 söxuðum hvítlauksgeirum og safanum úr einni límónu og lét standa á meðan ég bjó til sósuna.
Ég hitaði 3 msk af olíu á pönnu, saxaði tvo lauka og setti á pönnuna og stráði svo 1 tsk af túrmeriki, 1 tsk af garam masala, svörtum pipar og dálitlu salti yfir. Lét krauma í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var farinn að mýkjast.
Bættu þá kjúklingnum ásamt maríneringunni og 50 g af kasjúhnetum á pönnuna og steikti í nokkrar mínútur við góðan hita; hrærði oft á meðan.
Svo skar ég eina papriku i litla bita (eða ég var reyndar með tvær hálfar, sína af hvorum lit, en það er ekkert nauðsynlegt), fræhreinsaði hana, setti á pönnuna og lét krauma aðeins.
Svo hellti ég 350 ml af tómatpassata (eða bara maukuðum niðursoðnum tómötum) á pönnuna, hrærði og lét malla í um 5 mínútur.
Að lokum bætti ég 2-3 vel þroskuðum tómötum, skornum í bita, og vænni lúkufylli af spínati á pönnuna og lét malla í 2-3 mínútur í viðbót.
Ég smakkaði svo sósuna og bragðbætti eftir þörfum. Stráði kóríanderlaufi yfir (ekki bráðnauðsynlegt ef maður á það ekki til).
Svo bar ég þetta fram með hrísgrjónum.
Kjúklingur með tómötum og kasjúhnetum
400–500 g kjúklingabringur
1 chilialdin, fræhreinsað og saxað
2–3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 límóna
3 msk olía
2 laukar, saxaðir
1 tsk túrmerik
1 tsk kummin
1 tsk garam masala
pipar
salt
50 g kasjúhnetur
1 paprika, fræhreinsuð og söxuð
2–3 tómatar, saxaðir
350 ml tómatpassata eða maukaðir tómatar
væn lúkufylli af spínati
kóríanderlauf