Ég er búin að ákveða að febrúar verður fiskmánuður. Ekki þó að það verði ekkert nema fiskur í matinn hjá mér en allavega fimm daga í viku (í staðinn fyrir kannski þrisvar venjulega, jafnvel fjórum sinnum. Sem þýðir að það gæti komið dálítið af fiskuppskriftum hér. You be warned.
Nú orðið eru ótal veitingahús hér í Reykjavík sem bjóða upp á mjög góða fiskrétti og fiskur dagsins í hádeginu er yfirleitt mjög vinsæll. Samt er eins og fólk og borði sífellt minna af fiski heima hjá sér. Ég skil satt að segja ekki af hverju því að fiskur er:
a) góður (eða sko, ýsa er ekkert spes þótt hún geti svosem verið ágæt, það eru allar hinar tegundirnar …)
b) hollur
c) ekki dýr (eða mér finnst það allavega ekki)
d) fljóteldaður
e) einfaldur og auðveldur í matreiðslu (eða getur allavega verið það)
f) ótrúlega fjölbreytilegur
g) var ég búin að segja góður?
En margir elda aldrei fisk, nema helst þann sem þeir kaupa í einhverri sósu og baka svo bara, sem getur verið ágætt en er kannski ekki það besta sem hægt er að gera við fiskinn. Eða allavega ekki það eina. En ég þykist hafa orðið vör við – og aðrir bloggarar hafa sagt það sama – að þegar ég er með fiskuppskriftir hafa þær ekki verið sérlega vinsælar. En ég er nú ekki að þessu vinsældanna vegna svo mér er sama. Og það getur verið að þið fáið töluvert af fiskuppskriftum á næstunni. Það verður þá að hafa það ef enginn hefur áhuga.
Og hér er sú fyrsta. Ég átti rauðsprettuflak, svona 380 grömm – hæfilegt fyrir tvo. Meðlætið var reyndar afgangur sem upphaflega hafði verið með kalkúnaleggjum daginn áður (ég er ekki mikið fyrir matarsóun), kartöflustappa með basilíku og ofnbakaðar sætkartöflusneiðar. Ef ég hefði ekki átt það hefði ég kannski soðið hrísgrjón eða bygg og haft með ásamt salati. Eða einhverju öðru.
En ég byrjaði á að taka lúkufylli af hafragrjónum og setja á djúpan disk og kryddaði þetta svo með pipar og salti og blandaði vel.
Ég braut svo egg á annan djúpan disk, velti rauðsprettuflakinu upp úr því og síðan upp úr höfrunum. Þrýsti því vel niður til að láta sem mest af þeim loða við fiskinn – reyndar sat eiginlega ekkert eftir á diskinum þegar ég tók flakið upp.
Ég hitaði svo 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu. Setti rauðsprettuna á hana (með roðhliðina upp) og steikti við ríflega meðalhita í um 2 mínútur.
Rauðsprettuflakið var það lítið að ég steikti það heilt, enda á ég þennan forláta stóra og breiða spaða til að snúa því með, en það er vissulega meðfærilegra ef maður sker það í tvennt áður en það fer á pönnuna.
Ég steikti rauðsprettuna svo í um 2 mínútur á hinni hliðinni. Þegar ég var búin að snúa flakinu raðaði ég sætkartöflusneiðunum sem ég átti í kring til að hita þær (sneri þeim einu sinni). Kartöflustöppuna hitaði ég aftur á móti í potti, þynnta með örlitlu vatni (eða mjólk).
Þegar grænmetið var orðið gegnheitt setti ég allt saman á disk með salati (eða reyndar bara rúmlega helminginn, ég þurfti að eiga eitthvað í nestið daginn eftir).
Hafraþekjan á fiskinum kom mjög vel út, stökk og fín – var reyndar enn svolítið stökk upphituð daginn eftir.
Flóknara var það nú ekki.
*
Hafraþakin rauðspretta
1 rauðsprettuflak, 350-400 g (fyrir 2)
lófafylli af hafragrjónum
pipar
salt
1 egg, slegið
1 msk olía
1 msk smjör
[…] Annars er það bara fiskur af ýmsu tagi – reykt ýsa með beikoni og hvítri sósu, hafrahjúpuð rauðspretta, tómatfiskisúpa með baunum, steinbítur með nípumauki og gljáðum rauðlauk, eggjakaka með […]