Ég opnaði ísskápinn í hádeginu til að gá hvort ég sæi ekki eitthvað sem ég gæti eldað því að ég nennti ekki út í búð og rak augun í kúrbít sem ég hafði keypt til að nota í einhvern rétt en hætti svo við. Mér fannst alveg upplagt að nota hann; var fyrst að hugsa um að nota hann í lummur, kannski með maís og vorlauk og mögulega einhverjum kryddjurtum, en svo átti ég engar kryddjurtir og datt þá í hug að gera frekar kúrbítsvöfflur og borða þær með áleggi.
Það er nefnilega hægt að nota vöfflujárnið í svo ótalmargt annað en bara hefðbundnar vöfflur með sultu og rjóma (eða Nutella/súkkulaðisósu og ís, eins og honum Úlfi þykir svo gott) og vöpplurnar þurfa ekkert að vera sætar. Ég hef áður verið með uppskrift að vöfflum með kryddjurtum og hráskinku og svo eru ósætar vöfflur í nýju bókinni minni. En þá var það sem ég setti út í meira til bragðbætis, núna ákvað ég að nota heilan kúrbít út í deigið.
Ég byrjaði á að taka kúrbítinn – sem var um 350 grömm – og rífa hann á meðalgrófu rifjárni.
Svo braut ég tvö egg í skál og hrærði 250 ml af hreini jógúrt saman við.
Svo hrærði ég 150 g af heilhveiti, 1 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1/2 tsk af salti saman við. Og af því að kúrbíturinn er nú ekki bragðmikill, þá ákvað ég að krydda þetta ögn – ætlaði fyrst að nota smátt saxaðan vorlauk og ögn af cayennepipar og það hefði örugglega verið fínt en datt svo allt í einu í hug að gera eitthvað allt annað og setti ögn af vanillu (kannski 1/5-1/4 úr teskeið) og kanel á hnífsoddi út í. Hljómar undarlega, ég veit – og má alls ekki vera of mikið af þessu. Bara rétt smákeimur.
Svo bræddi ég 50 g af smjöri og hrærði saman við …
… og að lokum blandaði ég rifna kúrbítnum saman við með sleikju. Soppan á að vera frekar þykk en ef hún er allt of þykk má þynna hana ögn með vatni eða mjólk.
Ég hitaði vöfflujárnið (ég notaði belgíska vöfflujárnið mitt en það má alveg eins nota venjulegt), setti dálítið af soppunni í það og sléttaði aðeins úr með sleikju því soppan er það þykk að hún flaut ekki sjálfkrafa út. Ég steikti svo vöfflurnar við meðalhita í svona 4-5 mínútur.
Vöfflurnar eru ágætis meðlæti með súpu eða salati, en svo má líka smyrja þær með smjöri, hummus, tómatmauki eða einhverju öðru og borða þær eintómar eða með einhverju áleggi – ég setti til dæmis sneiðar af harðsoðnu landnámshænueggi ofan á.
Auðvitað eru þær bestar nýsteiktar en það er líka upplagt að hita þær upp með því að stinga þeim í brauðristina.
*
Kúrbítsvöfflur
350 g kúrbítur
2 egg
250 g hrein jógúrt (eða súrmjólk)
150 g heilhveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
bragðefni, t.d. vanilla, kanell, cayennepipar, saxaðar kryddjurtir eða annað sem manni dettur í hug
50 g bráðið smjör