Létt og … jújú, litríkt

Ég var að senda frá mér nýja bók. Sóvottelsisnjú, þetta er víst sú átjánda eða eitthvað, ég er eiginlega búin að týna tölunni á þeim. Nóg komið? já, kannski, en á meðan Forlagið vill gefa þær út og þið viljið kaupa þær – ja, þá er þetta það skemmtilegasta sem ég geri. Og þess vegna er ég að þessu en ekki vegna þess að ég græði svo mikið á því …

Sjálfsagt heldur hann Ásmundur og ýmsir aðrir að ég svoleiðis vaði í peningum af því að rithöfundar hafa svo góðar tekjur af bókunum sínum og þurfa ekkert þessi listamannalaun … jæja, ég þarf þau ekkert en það er vegna þess að ég vinn fulla vinnu. Eða kannski svona 120% vinnu ef ég tel aukastörfin (önnur en bókaskrif og þýðingar).

Þetta er þrettánda bókin mín á tíu árum (ellefu matreiðslubækur og tvær aðrar) og við það bætast svo allamargar þýðingar og fleira og bækurnar hafa allar selst ágætlega og sumar mjög vel. Og jújú, ég fæ eitthvað fyrir þetta. En ég gæti alls ekki lifað af ritlaununum, það er á hreinu. Langt frá því. Samt fæ ég áreiðanlega hærri upphæð en flestir skáldsagnahöfundar. Að ekki sé nú talað um ljóðskáld. Svo að það gladdi mig nú töluvert að sjá að meirihluti Íslendinga er fylgjandil listamannalaunum og að stuðningur við þau hefur aukist. Án þeirra væri íslensk menning umtalsvert fátækari.

En nóg um það. Þetta er allavega bókin. Hún fæst víða, til dæmis í stærstu bókabúð landsins á Fiskislóðinni, og þar kostar hún 3990 krónur:

Screen Shot 2016-01-03 at 7.55.23 PM

Uppskriftin sem hér kemur er reyndar ekki úr bókinni en hún gæti verið þaðan – þ.e. hún er í takt við þær sem eru þar. En ég gerði hana reyndar fyrir jólablað MAN þar sem þemað var grænmeti á jólaborðið. Þesar flögur eiga þó við allan ársins hring.

Flögur með ídýfu þurfa ekki að vera kartöfluflögur og þær þurfa ekki að vera djúpsteiktar. Þessar bökuðu rauðrófuflögur eru fallegar á borði og sérlega ljúffengar.

_MG_1509

Ég byrjaði á að hita ofninn í 160°C. Svo tók ég 250 g af litlum rauðrófum (þær mega alveg vera stærri ef litlar fást ekki en ef þær eru mjög stórar getur verið gott að skera hverja sneið í 2-4 hluta). Ég skar þær í mjög þunnar sneiðar. Ég notaði mandólín og það er langþægilegast ef maður á svoleiðis en annars má nota beittan hníf, það er bara mun seinlegra og hætt við að sneiðarnar verði dálítið misþykkar. Gott er að hafa bökunarpappírsörk undir til að fá ekki lit á skurðarbrettið eða vinnuborðið.

_MG_1510

Svo strauk ég nálarnar af 2-3 rósmaríngreinum, saxaði þær smátt og settu í skál ásamt 3 msk af ólífuolíu og dálitlum nýmöluðum pipar.

_MG_1511.JPG

Ég setti svo rauðrófusneiðarnar út í og velti þeim vel upp úr olíunni.

_MG_1516

Ég raðaði sneiðunum svo á pappírsklædda bökunarplötu eða -plötur. Þær mega vera þétt og jafnvel skarast svolítið því þær eiga eftir að skreppa mikið saman. Svo stráði ég dálitlu flögusalti (eða venjulegu salti) yfir.

_MG_1517

Ég bakaði flögurnar í miðjum ofni í um 25-30 mínútur, eða þar til þær eru þurrar og stökkar en ekki farnar að brenna. Þessar á myndinni eru svolítið blautar enn, áttu eftir nokkrar mínútur.

_MG_1518

Það þarf að fylgjast vel með þeim þegar líður á bökunartímann og taka plötuna e.t.v. út á nokkurra mínútna fresti og tína frá þær sneiðar sem eru tilbúnar. Þarna uppi í hægra horninu eru tvær eða þrjár sem eru kannski orðnar aðeins of dökkar.

_MG_1669

Ég lét sneiðarnar kólna alveg. Svo má bara borða þær eins og þær eru eða bera þær fram með ídýfu, t.d. graskersfræjaídýfunni sem uppskrift er að hér fyrir neðan. Eða einhverri annarri …

_MG_1660

Ofnbakaðar rauðrófuflögur

250 g litlar rauðrófur

3 msk ólífuolía

2-3 rósmaríngreinar

nýmalaður pipar

flögusalt

*

Graskersfræjaídýfa

100 ml sýrður rjómi

100 ml majónes (eða bara meiri sýrður rjómi)

2-3 msk graskersfræ

nálar af 1 rósmaríngrein

3-4 msk söxuð steinselja

cayennepipar á hnífsoddi

pipar

salt

Ég setti sýrðan rjóma, majónes, mestöll graskersfræin, rósmarínið og steinseljuna í matvinnsluvél eða blandara og lét ganga þar til allt var vel maukað saman. Bragðbætti með cayennepipar, pipar og salt eftir smekk. Svo setti ég ídýfuna í skál og stráði nokkrum graskersfræjum yfir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s