Þorrinn er byrjaður og ég ætti kannski að henda inn uppskrift að óhefðbundnum útgáfum af þorramat – kannski geri ég það við tækifæri en ekki núna. Enda á ég ekkert í skápnum þessa stundina sem gæti talist til þorramatar, nema reyndar magálsbita sem ég gæti reyndar vel hugsað mér að gera eitt og annað við sem ekki telst kannski alveg hefðbundið …
Nei, veðrið eins og það hefur verið núna seinniparinn kallar líka á annað. Eitthvað heitt og vel kryddað og framandlegt, ekki kalt og kæst eða súrt eða reykt. Og þá datt mér í hug þessi indverski kjúklingaréttur sem ég gerði fyrir MAN í haust. Þetta er frekar einfaldur karríréttur sem fær sérstakan keim af því að í hann er notuð blanda af karrídufti og garam masala – og reyndar öðru kryddi líka. Ég notaði rjóma í þetta skipti en það má líka nota kókosmjólk.
Ég var með þrjár kjúklingabringur (uppskriftin er miðuð við fjóra) og skar þær í munnbitastærð. Svo blandaði ég saman 1 msk af karrídufti, 1 msk af garam masala, 1 tsk af túrmerkiki og dálitlu salti á diski …
… og velti kjúklingabitunum upp úr blöndunni. Það má líka setja allt saman í poka og hrista hann til að þekja kjúklinginn með kryddinu. Það var dálítill afgangur af karríblöndunni sem ekki hafði fest á kjúklingabitunum og ég geymdi hann.
Svo hitaði ég 2 msk af olíu á djúpri pönnu (eða í víðum potti), setti kjúklinginn á hana og brúnaði hann á öllum hliðum við nokkuð góðan hita. Tók hann svo upp með gataspaða, setti á disk og geymdi.
Ég var búin að saxa 1 lauk, 2-3 vorlauka og 2 hvítlauksgeira og setti þá nú á pönnuna (nema ég tók grænu blöðin af vorlauknum til hliðar. Bætti við örlítilli olíu og stráði afganginum af karríblöndunni yfir. Lét þetta krauma í 6-8 mínútur við fremur vægan hita og hrærði oft á meðan.
Ég skar svo tvær gulrætur og eina papriku í bita, setti út í og lét krauma smástund.
Þá bætti ég 200 g af söxuðum sveppum og 3-4 söxuðum tómötum út í ásamt 2 ttsk af kummini, 1 1/2 tsk af kóríanderdufti og ögn meira salti. Hrærði og lét krauma í 3-4 mínútur en hellti þá3 50 ml af vatni yfir og lét malla við fremur vægan hita þar til grænmetið var meyrt og lítill vökvi eftir.
Þá setti ég kjúklinginn aftur á pönnuna, helltu 250 ml af rjóma (eða kókosmjólk) yfir og lét malla í nokkrar mínútur, þar til kjúklingurinn var eldaður í gegn og karrísósan farin að þykkna.
Svo stráði ég grænu blöðunum af vorlauknum yfir og bar þetta fram með soðnum hrísgrjónum.
Kjúklingakarrí með sveppum
3 kjúklingabringur
1 msk karríduft
1 msk garam masala
1 tsk túrmerik
salt
2 msk olía (meira ef þarf)
1 laukur
2-3 vorlaukar
2 hvítlauksgeirar
2 gulrætur
1 rauð paprika
200 g sveppir
3-4 tómatar, vel þroskaðir
2 tsk kummin
1 1/2 tsk kóríanderduft
350 ml vatn
250 ml rjómi eða kókosmjólk