Eitt af því sem ég var með á Forláksmessuborðinu mínu fyrir jólin var taramasalata, grísk/tyrknesk/balkönsk ídýfa úr söltuðum eða reyktum hrognum. Mér þykir hún nokkuð góð en verkuð hrogn eru ekki alltaf auðfáanleg. En ég hafði keypt reykt þorskhrogn á matarsýningunni í Hörpunni fyrr í vetur og ég held að það sé hægt að panta þau hjá Sólskerjum ef þau eru hvergi til í búðum.
Mér skilst að Grikkir borði gjarna taramasalata á bolludaginn (sem heitir augljóslega ekki bolludagur þar en ég held að hann heiti ekki taramasalatadagur heldur).
Nafnið taramasalata eða taramosalata er held ég komið úr tyrknesku (tarama, fiskhrogn) plús salat. Þetta er yfirleitt hluti af meze eða smáréttahlaðborði og er haft sem ídýfa með brauði eða grænmeti. Aðalhráefnið er semsagt hrogn; í Grikklandi oftast söltuð en í Bretlandi, þar sem ídýfan er vinsæl, eru þau oftar reykt. Reyndar eru þau líka oft lituð skærbleik en þessi voru það nú ekki, voru bara svona ljósbleik. Þorskhrogn eru algengust en aðrar tegundir eru líka notaðar.
Hrognin eru hrærð saman við brauð (algengast), kartöflur eða malaðar möndlur og ólífuolíu og þetta er svo bragðbætt, gjarna með lauk, hvítlauk og sítrónusafa.
(Myndirnar af undirbúningnum eru ekki góðar, biðst afsökunar á því.)
Ég byrjaði á að taka svona 250 g af reyktum þorskhrognum og taka himnurnar utan af þeim. Svo tók ég 75 g af skorpulausu brauði, reif það niður og setti á djúpan disk. Hellti köldu vatni yfir og tók svo brauðið strax upp úr og kreisti úr því vatnið.
Ég setti svo brauðið í matvinnsluvélina, saxaði 1/2 lítinn lauk smátt og setti út í og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að mauki. Þá setti ég meiripartinn af hrognunum út í …
… og svo hellti ég 200 ml af góðri ólífuolíu smátt og smátt saman við og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að frekar sléttu mauki. Kryddaði með pipar og salti (ekki miklu, hrognin eru sölt) og bragðbætti með sítrónusafa.
Ég vildi hafa örlitið grófa áferð á ídýfunni og þess vegna endaði ég á að setja þann hluta hrognanna sem ég hafði tekið frá út í og hræra saman við (ég notaði púlshnappinn á matvinnsluvélinni). En það má líka hafa ídýfuna fína og sleppa því að taka eitthvað frá.
Svo er bara að setja taramasalatað (eða taramasalötuna?) í skál, skreyta t.d. með sítrónubát og steinselju og bera fram með brauði eða grænmeti.
Ídýfan geymist alveg í nokkra daga í ísskáp.
*
Taramasalata
um 250 g reykt þorskhrogn
½ lítill laukur
75 g skorpulaust brauð
kalt vatn
pipar
e.t.v. salt
200 ml ólífuolía
safi úr ½ sítrónu, eða eftir smekk
Takk fyrir þessa uppskrift. (Ταραμοσαλάτα ætti kannski að heita hrognasalat því orðið ταραμάσ merkir söltuð hrogn.) Mér vitanlega er aðeins eitt fyrirtæki á Íslandi sem selur söltuð og reykt þroskhrogn og það er Vignir G. Jónsson á Akranesi sem ég hygg sé nú í eigu HB Granda. Það er synd og skömm ef þessi varningur fæst ekki í verslunum hér á landi.