Gamall og góður eftirréttur

 

Nú hef ég held ég ekki verið með neina sætmetisuppskrift – hvorki með né án sykurs – síðan einhverntíma fyrir jól svo að það er alveg kominn tími á eina eftir grænmetið og hollustuna og vetrarpottréttina að undanförnu. En hún er vissulega úr hollari kantinum, þetta er uppskrift úr bókinni minni Sætmeti án sykurs og sætuefna, sem kom út í fyrra, og þar af leiðandi án viðbætts sykurs.

Þetta er eftirréttur en af hversdagslegra taginu, ekkert fínerí – bara góður, ódýr og einfaldur. Tilbrigði við gamlan og góðan rétt, þ.e. ofnbökuð epli fyllt með hnetum, rúsínum og kanel. Oftast er púðursykur eða hunang í fyllingunni en þessi útgáfa er semsé sykurlaus. Og ekki verri fyrir það.

_MG_9538

Það er best að nota frekar sæt epli, ekki of stór, og ég var með Pink Lady-epli, keypt í Bónus, en fleiri tegundir koma vel til greina.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 190°C. Svo skar ég væna sneið ofan af hverju epli og kjarnhreinsaði þau melónujárni (kúlujárni), það er langþægilegast, en ef það er ekki til má líka nota teskeið eða bara hníf. Ég gerði djúpa og nokkuð víða holu.

_MG_9539

Svo grófsaxaði ég 2-3 msk af pekanhnetum og blandaði þeim saman við 2 msk af dökkum rúsínum og 2 msk af gullnum eða ljósum rúsínum (eða bara dökkum, ég átti í erfiðleikum núna fyrir jólin með að finna ljósar rúsínur, en svo má líka nota aðra þurrkaða ávexti, smátt skorna).

_MG_9542

 

Svo hrærði ég saman við þettra 1/2 tsk af kanel og 1 msk af ósætu möndlusmjöri. Það mætti líka nota hnetusmjör eða sleppa því bara alveg.

 

_MG_9544

Ég smurði svo lítið, eldfast mót með dálitlu smjöri og settu eplin í það. Ef þau eru skökk eða óstöðug má skera örþunna sneið neðan af þeim. Svo fyllti ég eplin með hnetu- og rúsínublöndunni.

_MG_9547

Svo tók ég svona 30-40 g af smjöri, skar í fjóra bita og setti einn bita ofan á hvert epli. Tók svo álpappírsbút, breiddi hann lauslega yfir og bakaði eplin á næstneðstu rim í 25-30 mínútur, eða þar til hýðið á eplunum var farið að hrukkast. En ég fjarlægði álpappírinn eftir svona 20 mínútur.

_MG_9672

Eplin má bera fram heit eða volg, t.d. með vanillusósu, sýrðum rjóma (36%), mascarponeosti …

_MG_9676

… eða grískri jógúrt, og stráð svo e.t.v. örlitlum kanel yfir.

*

Bökuð epli

4 epli, ekki mjög stór, t.d. Pink Lady

40 g smjör

2-3 msk pekanhnetur, grófsaxaðar

2 msk dökkar rúsínur

2 msk gullnar eða ljósar rúsínur

1 msk möndlusmjör, ósætt (má sleppa)

½ tsk kanell

 

25-30 mínútur við 190°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s