Hálkuraunir og ragú

 

Ég var sko alveg harðákveðin í því að ég ætlaði ekki að vera ein af þeim mörgu sem hafa dottið og brákað sig eða brotið í dag og þar sem ég hafði heyrt mikið talað um hálku í grennd við vinnustaðinn fór ég sérlega varlega þegar ég var að fara heim og fetaði niður Bræðraborgarstíginn og yfir Vesturgötuna áleiðis niður á strætóstoppistöðina á Mýrargötu. Ég fór svo hægt og varlega að ég missti af strætó – hefði kannski náð honum ef ég hefði hlaupið en það gerir maður nú ekki í hálku. Svo að ég þurfti að labba niður á Lækjartorg til að taka vagn þar og var svo fúl af því að ég hafði misst af strætó að ég gleymdi að fara varlega.

Neinei, ég datt ekki neitt. En ég labbaði framhjá Hjálpræðishersbúðinni í Garðastræti og þar er 50% afsláttur þessa dagana og ég leit inn um gluggann og rak augun í lítið, laglegt hringborð sem ég varð voða skotin í og það kostaði voða lítið  svo að ég keypti það og maðurinn sem var að afgreiða stakk því ofan í stóran Ikeapoka (það er samt 50 cm í þvermál) og svo rölti ég af stað með borð í poka. Borð með glerplötu. Og það var fljúgandi hálka svo þetta var ekki mjög gáfulegt. Það hefur verið sjón að sjá mig kjaga niður Fischerssundið með fyrirferðarmikinn Ikeapoka sem borðfætur stóðu upp úr og vísuðu í þrjár áttir. Og ég hafði gleymt vettlingum og var að drepast úr kulda.

Viðbót: Ég var beðin um mynd af borðinu. Hún kemur hér, borðið reyndar á réttum kili og án Ikeapoka.

_MG_7686

En þetta hafðist nú allt saman og borðið komst óbrotið heim og ég líka. Mig langaði sannarlega ekki aftur út í kuldann og hálkuna að kaupa eitthvað til að elda og þurfti þess til allrar hamingju ekki, átti eitthvað til. En mikið hefði ég verið til í að elda mér einhvern góðan og vetrarlegan pottrétt eða kássu, til dæmis eins og þennan hér.

Þetta  er reyndar nokkuð stór uppskrift, gæti verið fyrir svona 8 manns, en það er enginn vandi að helminga hana. Þegar ég eldaði þennan rétt var það nefnilega sérstaklega fyrir dótturson minn, sem kom í mat með fjölskyldunni og hafði beðið mig um að elda fyrir sig ragú sem mamma hans gæti svo fryst í litlum skömmtum sem hann gæti hitað sér þegar hann kemur  svangur heim úr skólanum. Þannig að hann fékk allan afganginn með sér heim.

_MG_8217

Ég var semsagt með svínabóg, svona eitt og hálft kíló eða rúmlega það, en það má alveg nota annað kjöt – lamb eða naut, til dæmis. Ég notaði heilt stykki sem ég skar sjálf í  bita. 3-5 cm á kant. Það er hægt að kaupa niðurskorið gúllas en mér finnst betra að hafa bitana frekar stóra.

Ég hitaði ofninn í 170°C og svo hitaði ég 2 msk af olíu í þykkbotna potti (eða á pönnu) og brúnaði kjötið vel á öllum hliðum. Ekki allt í einu, betra að gera þetta í nokkrum skömmtum því að ef of mikið er sett á pönnuna í einu nær kjötið ekki að brúnast almennilega, gufusýður bara í eigin safa.

_MG_8220

Ég kryddaði kjötið með pipar og salti og tók það svo upp úr með gataspaða jafnóðum og það brúnaðist. Ef ég hefði ætlað að nota þennan pott fyrir alla eldamennskuna hefði ég bara sett það á disk en þetta var það mikið að ég ákvað að nota stærri pott og setti kjötið beint í hann (hann er úr leir og hentar ekki til brúnunar en ég var búin að hita hann í ofninum). Svo hélt ég áfram að brúna kjötið þar til það var uppurið.

_MG_8222

Ég var búin að skera niður 2 blaðlauka. 4-5 hvítlauksgeira. 400 g af gulrótum og 5-6 sellerístöngla. Þegar ég var búin að brúna kjötið bætti ég 1 msk af olíu í pottinn, setti allt grænmetið út í og lét það krauma í nokkrar mínútur.

_MG_8229

Ég blandaði svo grænmetinu saman við kjötið í ofnpottinum og bætti við l4 árviðarlaufum og 1 msk af þurrkuðu timjani, ásamt meiri pipar og salti.

_MG_8293

Svo opnaði ég 2 dósir af niðursoðnum tómötum, setti í pottinn sem ég hafði brúnað kjötið í ásamt 500 ml af tómatpassata (eða maukuðum tómötum) og 500 ml af vatni, og hitaði að suðu. Hellti þessu svo yfir kjötið og grænmetið, ásamt 2 msk af balsamediki.

(Ef maður notar sama pottinn til að brúna og elda í ofninum er tómötunum og vatninu auðvitað bara hellt beint yfir og hitað að suðu.)

_MG_8324

Svo setti ég lokið á pottinn, setti hann í ofninn og lét malla í 2-2 1/2 klst. Mér finnst þessi hái, franski leirpottur alveg ídeal fyrir svona en það má nota steypujárnspott eða aðra þykka potta með þéttu loki, eða bara eldfast mót, annaðhvort með þéttu loki eða breiða álpappír vel yfir.

_MG_8342

Ekki ætti að þurfa að hræra í pottinum en gott að athuga, þegar líður á eldunartímann, hvort uppgufun sé of mikil og bæta þá við (heitu) vatni svo að ekki brenni við. Þarna var ragúið búið að malla í svona 2 tíma og ég bætti við smávegis vatni en þó ekki miklu, vökvinn er meiri en hann sýnist í fyrstu. Setti þetta svo aftur í ofninn og lét malla áfram.

_MG_8364

Og þarna er það tilbúið og bara eftir að veiða lárviðarlaufin upp úr, smakka og bragðbæta með pipar og salti eftir þörfum.

Það fórst fyrir að taka mynd af þessu á diski (enda var sársvöng fjölskyldan komin í heimsókn) en það er tilvalið að bera þetta fram með pasta eða kartöflustöppu og svo brauði.

Og afganginum var svo skipt niður í hæfilega skammta handa hungruðum Úlfi.

*

Grísaragú

1,5 kg svínabógur (eða annað kjöt)

3 msk olía

pipar

salt

2 blaðlaukar

4-5 hvítlauksgeirar

400 g gulrætur

5-6 sellerístönglar

4 lárviðarlauf

1 msk timjan, þurrkað

2 dósir saxaðir tómatar

500 ml tómatpassata eða maukaðir tómatar

2 msk balsamedik

500 ml vatn

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s