Veganúar, já. Ég get alveg hugsað mér grænmetismánuði og ég hef sagt það áður að það er ekkert útilokað að ég gerist grænmetisæta einhvern tíma, hver veit. En ekki vegan. Ég get vel hugsað mér að sneiða hjá kjöti og kjúklingum (en mundi eiga afskaplega bágt með fisklaust líf) en sé enga ástæðu til að sleppa eggjum og mjólkurvörum, til dæmis.
Grænmeti er hins vegar stöðugt stærri þáttur í fæðunni og þótt ég sé ekki með í veganúar hef ég haft grænmetisrétti í matinn sjö daga af þessum tíu sem liðnir eru frá áramótum. Og þrífst bara ágætlega með það. Súpan sem hér kemur uppskrift að var reyndar ekki á boðstólum núna, þetta er uppskrift sem ég gerði fyrir MAN í haust, en hún er vegan og mundi smellpassa núna. Nærandi, heit og góð.
Ribollita er ítölsk sveitasúpa frá Toskana, matarmikil og þykk, eiginlega hálfgerður pottréttur. Þetta er upphaflega afgangasúpa og er því til í ótal tilbrigðum, fólk notaði það sem til var, en súpan inniheldur þó alltaf brauðafganga og cannellinibaunir, svo og grænmeti á borð við lauk, gulrætur og grænkál.
Uppskriftin er þess vegna meira bara til hliðsjónar, maður notar það sem til er hverju sinni. Ekta naglasúpa nema það vantar naglann. En hann var náttúrlega veiddur upp úr naglasúpunni í þjóðsögunni og ekki borðaður …
Ég byrjaði á að taka tvo laka og saxa þá fremur gróft og saxaði svo tvo hvítlauksgeira smátt. Hitaði 2 msk af ólífuolíu í þykkbotna potti og lét lauk og hvítlauk krauma í henni við meðalhita í nokkar mínútur. Á meðan skar ég 200 g af gulrótum og tvo sellerístilka í fremur þunnar sneiðar og setti það svo í pottinn.
Ég kryddaði þetta svo með 1 tsk af þurrkuðu timjani, 1 tsk af óreganói, smáklípu af chiliflögum, pipar og salti og lét krauma í 5 mínútur; hrærði oft á meðan.
Ég opnaði svo eina dós af söxuðum tómötum og hellti innihaldinu út í ásamt 700 ml af vatni. Hitaði að suðu og lét malla í hálfopnum potti í um 20 mínútur.
Ég tók svo 150 g af grænkáli, skar stönglana úr blöðunum og saxaði þau gróft. Settu þau í pottinn og lét þetta malla í um 8 mínútur.
Svo opnaði ég dós af cannellinibaunum (það mætti líka nota einhverjar aðrar hvítar baunir) í sigti og lét renna af þeim. Setti þær síðan út í súpuna og lét malla í 3-4 mínútur.
Á meðan tók ég nokkrar sneiðar af góðu brauði (eða ég var reyndar með baguettebrauð) og reif það í bita. Tók svo pottinn af hellunni, setti brauðið út í, hrærði í og bar súpuna fram.
Ribollita
2 laukar
2 hvítlauksgeirar
2 msk ólífuolía
200 g gulrætur
2 sellerístilkar
1 tsk þurrkað timjan
1 tsk óreganó
smáklípa af chiliflögum eða skvetta af tabascosósu
pipar
salt
1 dós tómatar
700 ml vatn
150 g grænkál
1 dós cannellinibaunir
nokkrar sneiðar af góðu brauði