Lúðó?

Stundum komast orð í tísku og eru ofnotuð – eða allavega mikið notuð. Og ég skil aldrei af hverju fólk er að ergja sig yfir því, þessi orð detta úr tísku aftur. Til dæmis man ég að þegar ég var unglingur eða í menntaskóla var ansi margt sem manni fannst lúðó. Ég held ég hafi ekki heyrt það orð í mörg mörg ár núna, kannski áratugi. Það væri ferlega lúðó að tala um að eitthvað væri lúðó. Og líklegt að sama muni gilda um tískuorðin í dag eftir nokkur ár eða áratugi.

En vonandi ekki um lúðuna. Hún er ofveidd en ekki ofnotuð.

Ég fékk son og tengdadóttur í mat í gær og með þeim kom breskur kunningi þeirra sem er staddur á landinu. Og auðvitað gaf ég þeim fisk. Auðvitað, vegna þess að tengdadóttirin fær aldrei almennilegan fisk í Cambridge, þar sem hún er í doktorsnámi og mér finnst auk þess varla hægt að gefa útlendum gestum neitt betra og íslenskara en fisk. (Og enginn að hugsa um soninn, sem finnst fiskur ágætur en er samt meira fyrir kjöt.)

En jæja, forrétturinn var reyndar hrátt taðreykt hangikjöt frá Eiríki frænda mínum í Djúpadal, sem ekki náði á Forláksmessuborðið fyrir jólin en er bara  hreint ekkert verra núna á nýju ári. Og allir sáttir við það.

Fiskurinn sem ég eldaði handa þeim var annars vegar blálanga með steiktum tómötum og sítrónubragðbættu perlubyggi og hins vegar rauðspretta með ólífum og spergilkáli. Og smjörsteiktar kartöflur og salat með radísuspírum. Alveg ljómandi gott og allir sáttir. En uppskriftirnar hér eru reyndar ekki að því, ég tók engar myndir og var ekkert að setja allt of nákvæmlega á mig hvað ég gerði. Aftur á móti kemur hér uppskrift að lúðu sem ég steikti handa sjálfri mér fyrir nokkru síðan. Hún var alveg hreint ágæt.

Með lúðunni var ekta vetrargrænmeti, rósakál og grænkál. Rósakál er einmitt upp á sitt besta núna. Svona fyrir þá sem kunna að meta það.

Ég var að elda bara fyrir mig og uppskriftin er fyrir einn en það er ekkert mál að tvö- eða margfalda hana.

_MG_2666

Ég var með þverskornar lúðusneið, svona 3-4 cm þykka og 200-250 g á þyngd.

_MG_2677

Svo var ég með rósakál, svona 150 grömm, sem ég snyrti og forsauð í léttsöltuðu vatni í 3-4 mínútur en hellti svo vatninu af því, lét það kólna aðeins og skar svo hvern haus í tvennt. Ég tók líka nokkur grænkálsblöð, skar úr þeim stilkana og grófsaxaði þau og svo tók ég til 3-4 msk af fræblöndu – ég notaði salatblöndu sem ég keypti tilbúna en það má nota t.d. graskersfræ, sólblómafræ, furuhnetur og fleira, í hvaða hlutföllum sem er.

_MG_2674

Ég blandaði saman 2 msk af heilhveiti, pipar og salti og velti lúðunni vel upp úr þessu á öllum hliðum. Hitaði svo 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu og steikti lúðuna við meðalhita …

_MG_2683

… fyrst í 2 1/2-3 mínútur á hvorri hlið …

_MG_2693

… og svo velti ég stykkinu yfir á roðhliðina og setti um leið rósakálið og grænkálið á pönnuna. Steikti við ríflega meðalhita í 1 1/2 mínútu og hrærði nokkrum sinnum í grænmetinu. Svo sneri ég lúðunni yfir á hina roðhliðina, stráði fræjunum yfir grænmetið og steikti áfram í 1 1/2 mínútu. Þá var lúðan tilbúin og ég tók hana af pönnunni en steikti grænmetið í svona mínútu í viðbót.

_MG_2706

Svo bar ég lúðuna fram með grænmetinu og sítrónubátum.

_MG_2722

Auðvitað má líka hafa kartöflur eða annað með en mér fannst þess ekki þurfa.

*

Lúða með rósakáli og spergilkáli

1 þverskorin lúðusneið, 200-250 g

150 g rósakál

salt

nokkur grænkálsblöð

3 msk blönduð fræ

2 msk heilhveiti

pipar

1 msk olía

1 msk smjör

sítrónubátar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s