Létt og hollt

Gleðilegt nýtt ár, öllsömul, og þakka ykkur fyrir samskiptin á liðnum árum. Ég átti indælis jól í ár í Valletta á Möltu – gott veður, fallegt og notalegt umhverfi, þægilegheit og rólegheit, góður matur – ekki hægt að biðja um það betra. Ég kom svo heim daginn fyrir gamlársdag og átti indælis áramót með fjölskyldunni – reyndar með smávegis áhrifum frá Möltu því að einn af réttunum sem ég eldaði fyrir þau á nýársdag var kanínulæri að maltverskum hætti; kanínur eru vinsæll matur þar.

En nú er komið nýtt ár, jólin eiginlega búin og jólamaturinn allavega frá. Kannski einhverjar leifar enn til að elda úr – ég borðaði til dæmis áðan kássu úr skoskum rjúpum – en svo tekur hversdagsmaturinn við og nú eru náttúrlega flestir komnir í einhvers konar átak eða eitthvað og farnir að borða hollt, er það ekki? Og leita að hollum uppskriftum.

Þess vegna langar mig til að benda á að seinna í þessum mánuði kemur út ný bók sem ég hef tekið saman og er svona heldur í hollari kantinum. Ekki heilsubók og þaðan af síður megrunarbók, kannski núvitundarleg hollustubók án chiafræja … Alltsvo, þetta er matur af því tagi sem ég hef verið að borða (meira og minna) síðasta árið; í léttari kantinum, mikið grænmeti, fiskur, dálítið af kjúklingi og kjöti, enginn sykur náttúrlega. Einfaldar uppskriftir, fyrst og fremst gamalkunnugt og venjulegt hráefni sem fæst í flestum búðum, tiltölulega ódýrt …  Já, og fyrst og fremst góður matur, vonandi óþarfi að taka það fram.

Og hér er hún, ætti að koma í búðir undir mánaðamótin ef þið hafið áhuga:

Screen Shot 2016-01-03 at 7.55.23 PM

Uppskriftin sem hér kemur er samt ekki úr bókinni (en fáeinar uppskriftir sem í henni eru hafa áður birst hér). Hún er þó alveg í stíl við bókina, nema að því leyti að það er kínóa í henni – eins og ég sagði hér rétt fyrir ofan held ég mig að mestu við gamalkunnugt og venjulegt hráefni. Kínóa er svosem ekki mjög exótískt lengur en það er nú samt ekki í nýju bókinni. Ekki frekar en chiafræ.

Ég nota samt stundum kínóa og finnst það að ýmsu leyti skemmtilegt hráefni. Hér gerði ég úr því salat með kjúklingabaunum, hnetum og rúsínum. Ég hafði það sem aðalrétt en það getur líka verið meðlæti, t.d. með kjúklingi.

_MG_4142

Ég byrjaði á að setja 200 g af kínóa í fínt sigti og skola það vel undir kalda krananum.

_MG_4147.JPG

Svo hitaði ég saltvatn í potti og sauð kínóað í um 12 mínútur. Hellti því þá aftur í sigti og lét renna af því. Síðan setti ég bökunarpappír á plötu og dreifði úr kínóanu til að láta það kólna.

_MG_4149

Á meðan hitaði ég 1 msk af ólífuolíu á pönnu. Saxaði svo 1 rauðlauk smátt og lét hann krauma við meðalhita í 4-5 mínútur. Bætti þá 4-5 msk af rúsínum (ég notaði blöndu af venjulegum og gullnum en það hefur reyndar verið erfitt að finna þessar gullnu að undanförnu) og 30-40 g af grófmuldum valhnetum á pönnuna.

_MG_4152

Síðan opnaði ég eina dós af niðursoðnum kjúklingabaunum, hellti leginum af þeim og settu þær líka á pönnuna. Steikti í 3-4 mínútur en lét þetta svo kólna dálítið.

_MG_4154

Ég notaði tvær appelsínur og eina sítrónu í þetta salat og byrjaði á að taka aðra appelsínuna, skera börkinn utan af henni (þannig að ég skar hvítu himnuna frá) og skar appelsínuna svo í bita.

_MG_4157

Þá var komið að salatsósunni. Ég kreisti safann úr hinni appelsínunni og sítrónunni í stóra skál, þeytti 3 msk af ólífuolíu saman við og kryddaði með pipar og salti.

_MG_4163

Svo setti ég kínóað og baunablönduna út í  …

_MG_4166

… og síðan appelsínubitana og væna lúkufylli af blönduðum salatblöðum. Blandaði þessu vel saman.

_MG_4175

Svo setti ég ögn af steinselju yfir líka af því að ég átti hana en því má alveg sleppa.

_MG_4185

Kínóasalat með kjúklingabaunum, hnetum og rúsínum

200 g kínóa

salt

4 msk ólífuolía

1 rauðlaukur

4 msk rúsínur

30-40 g valhnetur

1 dós kjúklingabaunir

2 appelsínur

1 sítróna

pipar

væn lúkufylli af salatblöðum (blönduðum eða klettasalati)

e.t.v. steinselja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s