Á morgun er mín árlega jólaveisla – áður Þorláksmessuboð, nú Forláksmessuboð – og ég er eiginlega búin að útbúa allt nema það sem ég þarf að gera í fyrramálið, salöt og svoleiðis.
Kökunum hefur farið fækkandi með árunum og núna bakaði ég til dæmis bara eina smákökusort – samkvæmt ósk dóttursonarins, hann langaði í súkkulaðikornflexkökur og við gerðum þær saman núna í dag. En uppskriftin að þeim hefur semsagt komið áður og hér er hún líka á ensku ef einhverjum þykir það betra.
Svo verður gamaldags vínarterta með krydduðu sveskjumauki, litlar viskíbleyttar ávaxtakökur og jóladrumbur og þá eru kökurnar upptaldar. Ávaxtakökurnar eru þær einu sem eru sykurlausar – eða án viðbætts sykurs en þær eru auðvitað stappfullar af ávaxtasykri. En til að hafa eitthvað aðeins meira sætmeti, sem ég get sjálf borðað, ætla ég á eftir eða í fyrramálið að gera ávaxtarúllur til að hafa með ostunum. Það verður nefnilega gott úrval af ostum, þótt ég sé ekki enn búin að ákveða hvort ég set Stiltonostinn sem ég fann í ísskápnum í gær og var merktur ,,Best before 11.11″. Hann er alveg rooosalega góður en kannski bara fyrir hörðustu Stiltonaðdáendur svo að ég er að hugsa um að hafa hann bara í eldhúsinu fyrir þá sem þora.
En allavega: Ég gerði þessar rúllur fyrir nóvemberblað MAN. Ég veit ekki hvort ég nota alveg sömu blöndu af ávöxtum núna, man ekki fyrir víst hvað ég á, en það er ekki svo nauið – það má t.d. nota rúsínur og þurrkuð epli ásamt öðrum ávöxtum. Og svo nota ég örugglega Calvados í þær. Þær eru fínar með ostum og kexi eða snittubrauði.
Ég var semsagt með 125 g af gráfíkjum, 125 g af apríkósum, 75 g af þurrkuðum perum (en það má nota ýmsa aðra ávexti), 100 g af pekanhnetum, 75 g af brasilíuhnetum (má líka nota möndlur) og 1 msk af koníaki (eða Calvados). Eða það má líka sleppa koníakinu og nota 2 tsk af hunangi.
Ég byrjaði á að skera stilkana af gráfíkjunum (stundum þarf þess ekki) og grófsaxaði svo alla ávextina og hneturnar. Setti helminginn af ávöxtunum (en ekki hnetunum) í matvinnsluvél …
… og lét hana ganga þar til allt var smátt saxað og vel blandað saman. Blandaði svo koníaki eða hunangi saman við.
Svo setti ég afganginn af ávöxtunum og allar hneturnar út í og grófsaxaði saman við (gott að nota púlshnappinn). Auðvitað má líka fínsaxa allt saman í mauk en mér finnst betra að hafa þetta dálítið gróft.
Ég skipti svo blöndunni í tvennt og setti hvorn helming um sig á bökunarpappírs- eða álpappírsbút eða plastfilmu.
Ég mótaði lengju úr blöndunni, rúllaði pappírnum eða filmunni þétt utan um og sneri upp á endana. Kældi vel.
Svo er bara að bera þetta fram með góðum ostum og kannski vínglasi.
Það er líka hægt að móta kúlur úr blöndunni og bera þær fram sem sælgæti með kaffinu eða eftir matinn.
*
Ávaxta- og hneturúlla
2 rúllur, 20–25 cm hvor
125 g gráfíkjur
125 g þurrkaðar apríkósur
75 g þurrkaðar perur (eða aðrir ávextir)
100 g pekanhnetur
75 g brasilíuhnetur eða möndlur
1 msk koníak (eða 2 tsk hunang)