Rautt með rauðu

Ætli ég haldi ekki aðeins áfram með jólauppskriftir – ég meina, hvenær notar maður jólauppskriftir sem eru til á lager nema fyrir jólin? Það er ekki mjög líklegt að ég eigi eftir að gera fleiri jólamatreiðslubækur – búin að gera tvær þegar allt kemur til alls. Önnur þeirra er meira að segja enn fáanleg og þar sem markaðsdeild Forlagsins auglýsti um daginn að ég bjargaði jólunum – eða nei, reyndar líklega bara jólamatnum – þá getið þið bara keypt hana ef þið eruð í miklum vandræðum.

Screen Shot 2015-12-16 at 10.39.05 PM

En semsagt, jólaleg uppskrift. Og rauðkál er nú bara töluvert jólalegt. Það eru trönuber líka, það er að segja í Ameríkunni, og nú fást fersk trönuber í mörgum búðum, svo að hér er uppskrift með rauðkáli og trönuberjum. Og af því að hún er fyrir mig notaði ég sultu án viðbætts sykurs – soðið rauðkál þarf að vera bæði súrt og sætt – n það má líka nota venjulega sultu, saft (t.d. sólberjasaft) eða púðursykur. Það má nota þurrkuð trönuber í stað ferskra en þá þarf mun minna af þeim.

_MG_1520

Ég byrjaði á að taka frekar lítinn rauðkálshaus. Skar hann í fernt, skar stöngulinn úr kálinu og skar það svo í fremur stutta, mjóa strimla eða í litla bita.

_MG_1522

Svo tók ég einn lítinn rauðlauk og saxaði hann smátt. Hitaði svo 2 msk af ólífuolíu í potti og steikti rauðlaukinn smástund við fremur vægan hita, hann á ekki að brúnast.

_MG_1524

Svo tók ég eitt grænt epli, flysjaði það og kjarnhreinsaði og skar í frekar litla bita. Setti svo rauðkálið og eplið út í pottinn, lét krauma í nokkrar mínútur og hrærði oft á meðan. Síðan setti ég 1 kanelstöng, 1/4 tsk af engiferdufti, 1/8 tsk af negul og ögn af pipar og salti út í og hrærði.

_MG_1526

Svo hrærði ég 150 g af sultu (berjasultu frá Dalfour) saman við ásamt 2 1/2 msk af balsamedik. Setti lok á pottinn og lét malla rólega í um 45 mínútur, eða þar til kálið var nærri meyrt. Hrærði nokkrum sinnum og bætti við svolitlu vatni undir lokin (ekki víst að þess þurfi).

_MG_1533

Svo setti ég 100 g af ferskum trönuberjum út í og lét malla í um 10 mínútur í viðbót. Smakkaði og bragðbætti með meiri sultu (eða púðursykri), ediki, pipar og salti eftir smekk.

_MG_1617

Það má bera kálið fram strax eða setja það í krukku og láta kólna. Það geymist í a.m.k. viku í kæli en svo má líka frysta það.

Soðið rauðkál með trönuberjum

500-600 g rauðkál

1 lítill rauðlaukur

1 epli, grænt

2 msk ólífuolía

1 kanelstöng

1/4 tsk engiferduft

1/8 tsk negull

pipar

salt

150 ml sulta

2 1/2 msk balsamedik

e.t.v. svolítið vatn

100 g fersk trönuber

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s