Gamlir jólamatseðlar

Ég er búin að vera að skoða aðeins gamla íslenska jólamatseðla að undanförnu – ekki af veitingahúsum, heldur matseðla sem birst hafa í blöðum og tímaritum, tillögur að jólamat og oftast með einhverjum uppskriftum. Það er skemmtileg stúdía.

(en ef þið hafið bara áhuga á súkkulaðibúðingnum er hann hér neðar)

Sá elsti sem ég hef enn fundið er 117 ára gamall því hann birtist í Kvennablaðinu 1898. Hann er svona (ég lagaði aðeins stafsetningu og eina villu sem var leiðrétt í næsta blaði):

Aðfangadagur: Rísgrjónagrautur með þunnum rjóma út á og steyttum sykri og kanel, steiktar rjúpur og „brúnaðar“ kartöflur. Kaffi.

Jóladagur: Kalt hangikjöt og „stúfaðar“ kartöflur, rauðgrautur með rjóma eða rommbýtingur með saftsósu eða rjómafroðu.

Gamlársdagur: Flauelsgrautur með rauðvínsblöndu, messuvíni eða saftblöndu út á. Heitt hangikjöt með „stúfuðum“ kartöflum, eða karry með rísgrjónum.

Nýársdagur: Rauð sagósúpa eða sagóvellingur, kálfskjötssteik með „brúnuðum“ kartöflum.

Hér er nú ýmislegt sem kemur á óvart, annað ekki. Til dæmis hefur oft verið fullyrt að rjúpur hafi almennt ekki verið hafðar í jólamatinn fyrr en um 1920 eða svo, nema hjá þeim sem ekki höfðu efni á öðru; þær hafi verið ,,fátækramatur“. En þetta er enginn fátæklingamatseðill, enda má sjá á öðru að þær hafa oft verið veislumatur. Maturinn á aðfangadag og jóladag er reyndar býsna hefðbundinn og gæti alveg verið á borðum í dag – grjónagrautur með kanelsykri og rjóma, rjúpur með brúnuðum kartöflum, og á jóladag kalt hangikjöt með uppstúfi og búðingur.

Það gegnir kannski öðru máli með áramótamatinn. Flauelsgraut með saft (hvað þá rauðvíni eða messuvíni) þekkja fæstir lengur (mér finnst hann reyndar góður en börn og barnabörn eru ekki spennt fyrir hugmyndinni). Sama er að segja um sagóvellinginn. Heitt hangikjöt með uppstúfi var örugglega algengt um áramótin áður (gott ef það var ekki stundum í matinn hjá mömmu þegar ég var lítil) en er trúlega sjaldséð á þeim degi núna. Þó ekki eins sjaldséð og kjöt í karríi.

Ef stokkið er fram um 40 ár og litið í Vikuna 1938 er þar þessi matseðill:

Aðfangadagskvöld: Hrísgrjónagrautur með möndlum og málsháttum. Rjúpur með rauðkáli og brúnuðum kartöflum, eplahringir. Hnetur, rúsínur og konfekt.

Jóladagur: Kraftsúpa með fuglahreiðrum, tómatar með ítölsku salati, hamborgarhryggur með bourgognesósu, rjómarönd með grænum tómötum.

Annar jóladagur: Hangikjöt með kartöflujafningi, grænum baunum og gulrótum, rabarbara-triflé.

Þarna er í rauninni sami matur á aðfangadag þótt möndlur og málshættir hafi bæst við grjónagrautinn og rauðkál og epli við rjúpurnar. Á jóladaginn er aftur á móti kominn fansí matur – súpa með fuglahreiðrum (nei, ekki alvöru), tómatar og ítalskt salat, og þarna er hamborgarhryggurinn farinn að láta á sér kræla. Og það eru grænir tómatar með rjómabúðingnum. Þeir eru þá sultaðir og hafðir sem sætmeti.

Hangikjötinu hefur þarna verið ýtt yfir á annan í jólum (það var þó sjaldgæft) og með því eru grænar baunir (þær komu reyndar mjög snemma til) og gulrætur auk uppstúfsins. Og rabarbaratriffli á eftir. Áramótamatur er ekki með á þessum seðli.

Tuttugu og einu ári seinna, 1959, var þessi matseðill í Morgunblaðinu:

Aðfangadagskvöld: Spergilsúpa, svínakjöt með sveskjum og eplum, jólagrautur (hrísgrjónabúðingur með appelsínum).

Jóladagur: Kalt borð – tartalettur, humar í hlaupi og remolaðisósa. Soðið hangikjöt með grænum baunum, gulrófum og hrærðum kartöflum. Laufabrauð, smjör, ostur og kex. Marengshringur með ávöxtum.

Þarna er komin aspassúpa í forrétt, pörusteik og ris a l’amande á eftir á aðfangadag. Og tartalettur, humar og marens.

Ég læt staðar numið hér en á örugglega eftir að segja frá fleiri jólamatseðlum á næstunni – mér finnst gaman að skoða þetta og velta fyrir mér breytingum og matarvenjum.

Ég tók reyndar eftir því, sem mér fannst svolítið merkilegt, að súkkulaði kemur sjaldan við sögu í þessum matseðlum. Ég hafði einhvernveginn ímyndað mér að súkkulaðibúðingar af ýmsu tagi hefðu verið algengir sparidesertar. En kannski ekki.

Allavega, þá er hér frekar gömul uppskrift að súkkulaðibúðingi sem mundi nú passa ágætlega um jólin. Hún er úr bókinni minni Ömmumatur Nönnu. Hann er líka býsna einfaldur – það þarf ekki að bræða neitt í vatnsbaði, hér er ekkert matarlím, engin sjaldgæf eða torfengin hráefni – en samt er hann svo einstaklega góður. Ég nota gjarna skyndikaffiduft en það má sleppa því eða nota önnur bragðefni í staðinn, til dæmis vanillu eða líkjör.

_MG_4167

Ég byrjaði á að taka 100 g af suðusúkkulaði og brjóta það í bita. Setti svo 50 ml af rjóma í pott ásamt 1 tsk af skyndikaffidufti (eða öðru bragðefni, sjá hér ofar).

_MG_4169

Ég hitaði þetta rólega og hrærði þar til súkkulaðið var bráðið en tók þá pottinn strax af hitanum og lét kólna dálítið.

_MG_4171.JPG

Svo tók ég þrjú egg og aðskildi þau. Stífþeytti eggjahvíturnar og setti til hliðar og þeytti svo rauðurnar og púðursykurinn mjög vel og hrærði svo súkkulaðiblöndunni saman við. Ef maður vill  hafa búðinginn dekkri og með meira súkkulaðibragði má bæta við dálitlu kakódufti.

_MG_4180

Svo blandaði ég stífþeyttum eggjahvítunum gætilega saman við með sleikju …

_MG_4182

… og stífþeytti loks afganginn af rjómanum (150 ml) og blandaði varlega saman við.

_MG_4186

Ég hellti svo búðingnum í 4-6 litlar skálar (má líka fara í eina stóra) og setti í kæli í nokkrar klukkustundir.

_MG_4205

Og þá er bara eftir að skreyta búðinginn, t.d. með þeyttum rjóma og berjum.

_MG_4215

Súkkulaðibúðingur

100 g suðusúkkulaði

200 ml rjómi

1 tsk skyndikaffiduft (eða önnur bragðefni)

3 egg, aðskilin

2½ msk púðursykur

1 msk kakóduft (má sleppa)

e.t.v. ber og rjómi til skreytingar

 

 

2 comments

  1. Sagógrjónagrautur! Hvernig gerir maður hann? Fékk oft svoleiðis hjá ömmu þegar ég var lítil, örugglega komin hátt í 20 ár síðan ég fékk hann síðast, úff nostalgía…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s