Það er spáð súpuveðri. Ja, eða veðri fyrir súpur, pottrétti, kássur … eitthvað rjúkandi heitt sem gefur yl ofan í tær og fram í fingurgóma, er nærandi og gott, ekkert allt of fyrirhafnarmikið, gjarna borið fram í pottinum og borðað í rólegheitum á meðan vindurinn hvín úti og snjórinn fýkur saman í skafla og það er ekkert vit í að vera á ferli nema maður þurfi þess nauðsynlega. Mjög nauðsynlega.
Og þá er til dæmis súpa eins og þessi blómkálssúpa sem ég ætla hér að gefa uppskrift að alveg tilvalin. Þessi hér er pínulítið grísk, það er að segja reyndar ekki súpan sjálf en ég bar fram með henni grillaðar samlokur fylltar með spínati og fetaosti og það er nú grískt, minnir á spanakoppita. En það má líka hafa bara gott brauð með.
Súpan er frekar af hollara taginu, aðalhráefnið er náttúrlega blómkál og svo blaðlaukur líka. Vissulega er smjör og mjólk í henni en hún er ekki rjómalöguð eða hveitijöfnuð þótt hún líti dálítið út fyrir það. Það er alveg hægt að gera þykka, mjúka og bragðmikla blómkálssúpu án þess.
Ég byrjaði á að taka einn nokkuð vænan blaðlauk og hreinsa hann. Notaði ekki dökkgrænu blöðin en skar hvíta og ljósgræna hluta blaðanna frekar smátt. Saxaði svo tvo hvítlauka smátt. Síðan bræddi ég 50 g af smjöri í potti og lét blaðlauk og hvítlauk krauma við fremur vægan hita í 8-10 mínútur.
Á meðan laukurinn kraumaði í smjörinu losaði ég blöðin af einum meðalstórum blómkálshaus, skar úr honum miðjustilkinn og skar kálið svo í bita.
Ég setti svo blómkálið í pottinn með lauknum, ásamt einu lárviðarlaufi, 500 ml af mjólk og 400 ml af vatni. Hitaði að suðu, kryddaði með salti og nokkuð miklum pipar, og lét malla rólega undir loki í 15-20 mínútur, eða þar til blómkálið var orðið vel meyrt.
Á meðan gerði ég samlokufyllinguna: Saxaði tvo vorlauka smátt og einn hvítlauksgeira mjög smátt. Hitaði 1 msk af ólífuolíu á pönnu og lét vorlauk og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur. Bætti þá 100 g af spínati á pönnuna og hrærði í 1 mínútu. Svo muldi ég 75 g af fetaosti yfir, lét krauma í 1-2 mínútur í viðbót og tók af hitanum.
Ég hitaði svo grillpönnu (eða samlokugrill, en ég á það ekki til). Tók átta brauðsneiðar og smurði þær allar á annarri hliðinni. Lagði fjórar þeirra á bretti með smjörhliðina niður og skipti spínat-fetablöndunni jafnt á þær. Setti svo ost ofan á – ég notaði cheddarost og skar bara þykkar sneiðar af honum en annars má nota hvaða ost sem er.
Þar ofan á setti ég nokkur basilíkublöð og lagði svo hinar sneiðarnar þar ofan á með smjörhliðina upp.
Ég setti sneiðarnar svo á vel heita grillpönnu (eða í samlokugrill) og hafði farg ofan á (ég notaði aðra pönnu) …
… og grillaði þær í 1-2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til osturinn var bráðinn og komin falleg grillför á sneiðarnar.
Kálið var orðið vel meyrt og ég hellti öllu sem var í pottinum í matvinnsluvél (í 2-3 skömmtum ef vélin er ekki þeim mun stærri) og maukaði mjög vel. Setti súpuna svo aftur í pottinn og hitaði hana. Hún á að vera þykk en það má þynna hana dálítið með mjólk eða vatni og grænmetiskrafti ef hún er of þykk.
Svo er bara að bera súpuna fram með spínat-ostasamlokunum. Nú, eða góðu brauði ef maður nennir ekki að gera samlokurnar eða langar ekki í þær. Súpan er jafngóð fyrir því.
*
Blómkálssúpa með spínat-ostasamlokum
1 blaðlaukur, hvíti og ljósgræni hlutinn
2 hvítlauksgeirar
50 g smjör
1 meðalstór blómkálshaus
1 lárviðarlauf
500 ml mjólk
400 ml vatn
salt
hvítur pipar
*
Spínat-ostasamlokur
2 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
1 msk ólífuolía
100 g spínat
75 g fetaostur
8 brauðsneiðar
smjör, lint
4 sneiðar ostur (eða eftir smekk)
nokkur basilíkublöð