Ég er nú ekkert sérlega mikið fyrir jólakonfekt og var það heldur ekki á meðan ég borðaði enn nammi (með sykri alltsvo). Satt að segja hefur mér alltaf fundist að það sé varla á sætmetið bætandi um jólin, nóg er nú af kökum og smákökum og desertum og þess háttar.
En jújú, það hefur komið fyrir að ég geri eitthvað af jólasælgæti og þá reyni ég yfirleitt að gera eitthvað einfalt en úr góðu hráefni, frekar en annaðhvort eitthvað flókið sem er vesen að gera eða hrúgur af einhverju misgóðu dóti úr ódýru hráefni.
Ég birti reyndar uppskrift að einföldum súkkulaðidoppum hér fyrir nokkrum árum (vá, ég er búin að blogga hérna það lengi að ég get farið að segja „fyrir nokkrum árum“), þegar ég var nýbúin að fjárfesta í sílíkonmottunni sem ég notaði og sést hér á eftir – bara súkkulaði og einhverju stráð ofan á – það var alveg ágætt. Hér er súkkulaðið aftur á móti kryddað og hnetum og ávöxtum blandað saman við. Það er nú alveg ágætt líka. Ég get alveg vottað það þar sem ég gerði þetta fyrir MAN í fyrra, áður en ég hætti sykuráti (það er kannski hægt að segja að það sé enginn viðbættur sykur í þessu en súkkulaðið er jú sætt og trönuberin líka). Reyndar gæti ég líklega alveg gert sykurlausa útgáfu ef því væri að skipta …
Mottan sem ég var með er ætluð til að baka makónukökur en ég notaði hana til að fá doppurnar jafnstórar og reglulega lagaðar. Ég pantaði þessa mottu erlendis frá á sínum tíma en ég held að svona mottur fáist hérna núna. Mín er með hringjum á báðum hliðum, misstórum, og ég notaði í þetta skipti minni hringina og fékk um 60 doppur úr skammtinum.
Hægt er að nota aðrar tegundir af hnetum og smátt skornum þurrkuðum ávöxtum í doppurnar.
Ég byrjaði á að taka súkkulaðipottinn minn, sem er tvöfaldur, og setja dálítið vatn í neðri hlutann. Anars má bara setja skál yfir pott með heitu vatni. Ég tók svo 300 g af suðusúkkulaði braut það í bita og setti í efri pottinn (eða skálina) ásamt ½ tsk af kanel, ¼ tsk af engiferdufti, 1/8 tsk af negul, 1/8 tsk af cayennepipar og smáklípu af salti. Ég hitaði þetta svo rólega þar til súkkulaðið var bráðið; hrærði öðru hverju á meðan til að flýta fyrir.
Ég tók svo 30 g af möndlum, 30 g af pistasíuhnetum, 30 g af kasjúhnetum og 30 g af þurruðum trönuberjum – en það má semsagt nota aðrar hnetur og önnur þurrkuð ber eða ávexti, bara það sem maður á til eða langar að nota.
Ég saxaði hneturnar og trönuberin frekar gróft og tók svo nokkrar matskeiðar frá.
Svo blandaði ég hinu saman við súkkulaðið þegar það var bráðið og tók pottinn af hitanum.
Ég tók svo mottuna, setti hana á bökunarplötu (þarf ekki, það var bara til að eiga auðveldara með að færa hana) og setti súkkulaðiblönduna í hringina með teskeið. Það má líka setja þetta bara á bökunarpappír og reyna að hafa doppurnar álika stórar og nokkurn veginn kringlóttar.
Ég stráði svolitlu flögusalti á sumar doppurnar áður en súkkulaðið harðnaði og stráði svo hnetu- og berjablöndunni sem ég hafði tekið frá á hinar.
Svo kældi ég doppurnar þar til súkkulaðið var storknað. Tók þær þá af mottunni. Það er best að geyma þær á svölum stað en ekki í ísskáp.
Kryddaðar súkkulaðidoppur með hnetum og ávöxtum
300 g suðusúkkulaði
½ tsk kanell
¼ tsk engiferduft
1/8 tsk negull
1/8 tsk cayennepipar
flögusalt
30 g möndlur
30 g pistasíuhnetur
30 g kasjúhnetur
30 g þurrkuð trönuber
Þetta ætla ég að prófa