Það er frekar svona súpuveður þessa dagana … Kannski ekki samt fyrir mjög þungar súpur. Frekar fyrir eitthvað eins og – ja, til dæmis austurlenska kjúklingasúpu með núðlum. Ekkert allt of sterkt kryddaða, ekki eitthvað sem rífur oní tær, en samt með chili og hvítlauk og engifer og einhverju sem aðeins rífur í. Og kókosmjólk og hnetum og hnetusmjöri. Ég notaði salthnetur en það má líka nota ósaltaðar hnetur. Eða t.d. kasjúhnetur ef maður vill þær frekar en jarðhnetur.
Ég var með tvær kjúklingabringur sem ég skar í munnbitastærð og kryddaði með pipar og salti. Hitaði svo 1 msk af olíu á pönnu, setti kjúklingabitana á hana og steikti þær í nokkrar mínútur, eða þar til þær voru rétt steiktar í gegn. Hrærði oft á meðan. Svo tók ég þær af pönnunni með gataspaða og setti til hliðar.
Líklega væri nú einfaldara að steikja bringurnar bara í sama potti og súpan er svo soðin í. En ég gerði það auðvitað ekki, ég r ekkert alltaf að fara auðveldari leiðina …
Allavega, ég setti 1 msk af olíu í pottinn. Saxaðu hvita og ljósgræna hlutann a 3-4 vorlaukum (það mætti svosem líka nota lítinn blaðlauk) og setti út í, ásamt 2 smátt söxuðum hvítlauksgeirum, 3 cm bita af engifer (söxuðum) og einu chilialdini, fræhreinsuðu og skornu í þunnar sneiðar. Lét þetta krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Kryddaði með 1 tsk af kummini, 1 tsk af túrmeriki, pipar og salti og hrærði vel. Svo setti ég 200 g af hnetusmjöri og 1 dós (400 ml) af kókosmjólk út í ásamt 300 ml af vatni, hrærði vel, reif börkinn af leinni límónu fínt út í og lét malla í um 10 mínútur.
Þá setti ég kjúklinginn út í ásamt 150 g af hrísgrjónanúðlum og lófafylli af söxuðu kóríanderlaufi, hrærði og lét malla í 3-4 mínútur, eða þar til núðlurnar eru soðnar og kjúklingurinn heitur í gegn. Það getur samt verið vissara að athuga á umbúðunum hver suðutíminn á núðlunum er, hann getur verið misjafn eftir tegundum.
Ég smakkaði svo súpuna og bragðbætti með límónusafa, pipar og salt. Stráði dálitlu af jarðhnetunum yfir, ásamt kórianderlaufi og grænu blöðunum af vorlauknum, og bar fram með meiri jarðhnetum.
Jarðhnetu-kjúklinganúðlusúpa
2 kjúklingabringur
pipar
salt
2 msk olía
3-4 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
3 cm biti af engifer
1 chilialdin
1 tsk kummin
1 tsk túrmerik
200 g hnetusmjör
1 dós kókosmjólk
300 ml vatn
1 límóna
150 g hrísgrjónanúðlur
150 g jarðhnetur
kóríanderlauf