Sætt og … nei, alls ekki sykurlaust

Best að segja það strax svo enginn velkist nú í vafa um það: nei, þessir pekan-karamellubitar eru ekki sykurlausir. Hreint ekki. En eru þeir góðir? Tja – ég hef ekki smakkað þá. En hann Úlfur dóttursonur minn fullyrti, þegar ég bakaði þá í sumar og gaf honum, að þeir væru mjööög góðir. Og Úlfur er traustur piltur, allavega þegar bakkelsi er annars vegar …

Ég sagði það, þegar ég hætti sjálf að borða sykur, að ég væri ekkert endilega hætt algjörlega að nota sykur þegar ég er að gera eitthvað fyrir aðra. Ég er nefnilega, eins og ég hef oft sagt, alls ekki þeirrar skoðunar að sykur sé eitur og mér dettur ekki í hug að ætlast til þess að aðrir hætti að borða sykur þótt ég geri það. Almennt borðar fólk of mikinn sykur en fyrir fæsta er ástæða til að hætta því alveg. Það gegnir kannski öðru máli um þéttvaxnar konur á sextugsaldri með hækkaðan blóðsykur og ýmis forstigseinkenni sykursýki (sem ég held ég sé laus við núna) …

Fyrir mig var langeinfaldast að hætta bara alveg. En ég á enn sykur í eldhússkápnum þótt ég noti hann afar sjaldan (og aldrei þegar ég er að gera eitthvað fyrir mig). Það sem meira er, á náttborðinu hjá mér er poki með ýmiss konar nammimolum sem söfnuðust að mér þegar ég var í Portúgal á dögunum. Portúgalir eru mikið fyrir að gefa manni nammi – fararstjórinn sem ég fór með í skoðunarferð um Dourodalinn gaf mér nokkra nammimola að skilnaði, þegar ég keypti sólgleraugu í búð stakk afgreiðslustúlkan nokkrum molum með í pokann og svo framvegis. Ég safnaði þessu öllu í lítinn poka til að gefa einhverjum þegar heim kæmi og svo gleymi ég því alltaf. Pokinn er búinn að liggja opinn á náttborðinu í hálfan mánuð og hefur ekki freistað mín í eitt einasta skipti. Og það er ekki vegna þess að portúgalskt nammi sé eitthvað ógirnilegt, öðru nær. Merkilegt.

En allavega, hér eru pekan-karamellubitarnir sem ég gerði fyrir pikknikkþáttinn í MAN í sumar. Úlfur mælir með þeim.

_MG_0846

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á175°C. Svo tók ég til 250 g af pekanhnetum, saxaði þær mjög gróft og dreifði þeim á pappírsklædda bökunarplötu. Ég ristaði þær í ofninum í 7-8 mínútur, eða þar til þær eru rétt aðeins byrjaðar að taka lit, en það þarf að gæta þess vel að þær brenni ekki. Svo tók ég þær svo út og lét kólna.

_MG_0849

Ég tók svo ferkantað mót 20-22 cm á kant (það má líka nota lítið, eldfast mót), klæddi þa innan með álpappír og lét hann ná a.m.k. 4-5 cm upp eftir köntunum. Penslaði það með svolitlu bræddu smjöri.

_MG_0854

Svo vigtaði ég 275 g af heilhveiti (má líka vera hveiti) og 125 g af sykri, og skar 150 g af köldu smjöri í teninga. Ég setti þetta allt í matvinnsluvél og lét hana ganga ganga þar til komin var fíngerð mylsna. Bætti við svolitlu ísköldu vatni smátt og smátt, þar til auðvelt var að hnoða deigið saman en það var ekki blautt eða klesst.

_MG_0863

Þá hellti ég deigmylsnunni í formið og þrýsti henni niður á botninn og um 3 cm upp eftir hliðunum.

_MG_0886

Ég bakaði svo deigskelina í 15-20 mínútur, eða þar til hún var aðeins farin að taka lit. Tók hana þá út og lét hana kólna alveg.

_MG_0885

Á meðan setti ég 100 g af púðursykri, 100 ml af hunangi, 125 g af smjöri og 100 ml af rjóma í pott, hitaði að suðu og lét malla …

_MG_0888

… þar til karamellann var farin að freyða vel. Þá tók ég pottinn af hitanum.

_MG_0890

Ég setti svo pekanhneturnar í bökuskelina og dreifði úr þeim. Hellti karamellunni jafnt yfir.

_MG_0903

Ég setti bökuna svo í ofninn (áfram við 175°C) og bakaði hana  í um hálftíma. Tók hana þá út og lét hana kólna í a.m.k. 1 klst.

_MG_0907

Svo skar ég bökuna í 16 jafnstóra bita.

_MG_1249

Ef á að geyma bitana eitthvað er best að setja þá í kökubox og hafa bökunarpappír á milli laga. En ég hef núi grun um að þeir muni ekki geymast lengi …

_MG_1268

Pekan-karamellubitar

250 g pekanhnetur

275 g heilhveiti eða hveiti

125 g sykur

150 g smjör, kalt

ískalt vatn eftir þörfum

100 g púðursykur

100 ml hunang

125 g smjör

100 ml rjómi

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s