Það mætti ætla að ég gengi jafnan í fötum með óskaplega víðum og miklum ermum, miðað við hvað ég er dugleg að lofa uppí þær. Venjulega reddast þetta nú en akkúrat núna er ég að ösla yfir síðustu kvíslarnar úr jólabókaflóðinu (það skellur mun fyrr á inni á bókaforlögunum en úti á markaðnum, auðvitað) svo að tíminn hefur ekki verið mikill upp á síðkastið. En þetta fer nú að sjatna svo ég get farið (vonandi) að efna nokkur loforð sem standa uppá mig …
Ég hef heldur ekkei eldað neitt sérlega mikið að undanförnu, ekki fyrir sjálfa mig allavega. Í gær kom ég seint heim úr vinnuni og var þreytt og nennti eiginlega ekki að elda og mundi heldur ekki eftir að ég ætti neitt spennandi svo að ég brá mér inn á veitingastað á Laugaveginum og spurði hvort það væri til borð fyrir einn. Það voru nokkur borð laus en ekkert þeirra fyrir einn, eða svo var mér sagt. Ég var að hugsa um að labba áfram og gá hvort ég gæti haft uppi á stað sem væri til í að afgreiða eina einmana konu jafnvel þótt það þyrfti að láta hana sitja við borð fyrir tvo eða jafnvel fjóra. En nennti samt eiginlega ekki slíkri leit.
En þegar ég kom út á gangstéttina rifjaðist upp fyrir mér að ég átti heima hjá mér talgiatelle og basilíku og smjör og svolítinn afgang af portúgalskri skinku alveg fjandi góðri, minnti mig hálfpartinn á gott taðreykt hangikjöt og það er nú hrós. svo að ég fór heim og setti vatn í pott og sauð tagilatelle og bræddi smjörið og lét hvítlauk og basilíku krauma aðeins í því og bætti við nýmöluðum svörtum pipar og örlítilli rjómaskvettu og skar svo ögn af skinkunni í þunnar flísar og þegar pastað var soðið blandaði ég öllu saman og reif slatta af parmesan yfir. Og þetta var tilbúið líklega á sama tíma og ég hefði fengið diskinn minn á veitingahúsinu ef hann hefði verið til í að afgreiða eina kerlingu og var náttúrlega miklu betra en nokkur máltíð þar hefði verið.
Að ekki sé nú talað um ódýrara.
Þetta leit svona út og var semsagt alveg ljómandi ágætt. Uppskrift dagsins er líka að einföldum pastarétti, samt ekki þessum. Þegar pasta er annars vegar finnst mér einfalt yfirleitt vera best en margir hafa tilhneigingu til að setja allt of mikið saman við pastað og drekkja því svo í sósu. Mig rámar í pastaréttasamkeppni fyrir mörgum árum þar sem vinningsuppskriftin var með löööngum hráefnislista – hátt í tuttugu atriði, held ég – og einhversstaðar neðst komu svo 150 grömm af pasta. Þetta var kannski ágætis réttur en mér finnst svoleiðis varla vera pastaréttur.
Pasta hefur svolítið dottið út af kortinu hjá mörgum á síðustu árum, það á víst að vera svo óhollt og fitandi eða eitthvað (en hvernig stendur þá á því að Ítalir eru ekki allir akfeitir og heilsulausir?) en það er bara með pasta eins og annað, hóf er best í hverjum hlut og ekkert að því að fá sér pasta öðru hverju. Þetta er réttur sem ég gerði reyndar fyrir pikknikkþátt í MAN í sumar og þá sem kalt pastasalat en þetta er auðvitað ekki síður gott sjóðheitt.
Það er chorizopylsa í þessum rétti. Þeir sem vilja sneiða hjá svínakjöti þessa dagana (og mikið skil ég það vel) geta bara notað meira krydd, t.d. chiliflögur, ögn af paprikudufti, nýmalaðan pipar og fleira. Kannski þunnt sneiddan kjúkling eða lambakjöt ef maður vill hafa eitthvert kjöt. Og aðeins meiri olíu. Ég notaði spænska chorizopylsu, ég veit svosem ekki hvernig Spánverjar fara með svínin sín en vona allavega að þeir fari eftir reglugerðum. Svo má nota ýmislegt grænmeti í staðinn fyrir sveppina eða með þeim.
Ég byrjaði á að hita saltvatn að suðu í potti og sauð svo 250 g af penne samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum þar til það var rétt tæplega meyrt.
Á meðan pastað sauð skar ég 125 g af sveppum í sneiðar (ég var með kastaníusveppi, finnst þeir betri, en það má auðvitað nota venjulega) og 100 g af chorizopylsu í þunnar sneiðar eða teninga. Tók svo tvo vorlauka og saxaði þá smátt – það má líka nota hálfan lítinn lauk. Hitaði svo 2-3 msk af ólífuolíu á pönnu, setti sveppi, chorizopylsu, vorlauk og nokkrar timjangreinar (eða svona 1/2 tsk af þurruðu timjani) á hana og lét krauma í nokkrar mínútur, þar til sveppirnir höfðu tekið góðan lit og chorizobitarnir voru farnir að verða stökkir. Taktu af hitanum og fjarlægði timjangreinarnar.
Það ætti ekki að þurfa neitt annað krydd en chorizopylsuna, sé hún notuð, en svo má líka bæta við pipar og salti ef manni finnst þess þurfa.
Pastað var akkúrat tilbúið og ég hellti því í sigti og lét renna vel af því. Ef ég ætla að búa til pastasalata skola ég það rétt snöggvast undir kalda krananum en ekki ef á að borða pastað heitt. Svo hellti ég pastanu á pönnuna.
Ég blandaði öllu vel saman og hellti svo öllu saman í skál. Auðvitað má líka hella pastanu beint í skál og hella svo öllu af pönnunni yfir og blanda, ef það hentar betur.
Ég reif svo niður nokkur basilíkublöð og blandaði saman við.
Þessi mynd er tekin uppi á Hólmsheiði í sumar og þarna er þetta náttúrlega kalt pastasalat en pastað er ekki síður gott rjúkandi heitt og þá kannski með nýrifnum parmesanosti.
*
Pasta með sveppum og chorizo
250 g pasta, t.d. penne
salt
125 g sveppir, gjarna kastaníusveppir
100 g chorizopylsa
2-3 msk ólífuolía
2 vorlaukar
nokkrar timjangreinar (eða 1/2 tsk þurrkað timjan)
e.t.v. pipar og salt
nokkur basilíkublöð