Haustið er komið

Neinei, ég var nú ekkert búin að gleyma blogginu alveg. Það hefur bara verið dálítið mikið að gera hjá mér, eiginlega í allt sumar og alveg sérstaklega síðustu tvo mánuðina eða svo og ég hef látið ýmislegt sitja á hakanum. Svona dót eins og tiltekt og blogg, til dæmis … Svo fór ég í haustfrí til Porto (sem var æðislegt) og síðan ég kom heim hef ég annaðhvort ekki mátt vera að því að elda eða ég hef verið að elda eitthvað sem hefur verið of líkt einhverju sem ég hef gert áður svo að ég er ekkert að mynda það eða skrifa nuiður eða ég hef verið með matarboð, sem ég er þá ekkert endilega að mynda því eins og ég hef sagt áður, þegar ég er með gesti í mat skiptir það mig meira máli að þeir fái matinn á réttum tíma en að ég nái góðum myndum af honum …

Svo fór ég að hugsa um að ég ætti nú alveg slatta af uppskriftum og myndum á lager sem ég gæti alveg sett hér inn þótt ég væri ekki að gera neitt nýtt. En þegar ég fór að að skoða fannst mér allt í einu að þetta væri allt svo sumarlegt og passaði eiginlega ekki  – í kvöld dró ég fyrir stofugluggana í fyrsta skipti síðan í vor og á morgun fer ég í flensusprautu, jújú, haustið er komið …

En svo mundi ég eftir uppskrift að kjúklingaböku sem er ekkert sumarleg, eiginlega bara frekar mikið haustleg, finnst mér, þótt hún hafi upphaflega verið gerð fyrir bökuþátt sem ég var með í MAN snemma í vor. Svo að hún er hér. Þetta er frekar einföld baka, ekki í bökuskel, þ.e. það er ekkert deig undir fyllingunni, bara ofan á. Í þessa böku má nota foreldaðan kjúkling eða afganga eða sjóða kjúkling sérstaklega. Svo má alveg sleppa kryddjurtunum í deiginu ef maður vill.

_MG_3292

En ég byrjaði á deiginu: setti 250 g af hveiti (eða heilhveiti), lófafylli af grófsaxaðri steinselju og nálar af einni rósmaríngrein (það má nota aðrar kryddjurtir etir smekk eða eftir því hvað maður á til) í matvinnsluvél og fínsaxaði kryddjurtirnar saman við hveitið.

_MG_3297

Ég blandaði svo 30 g af rifnum parmesanosti og 1/2 tsk af salti saman við og síðan skar ég 125 g af köldu smjöri í litla bita, setti það út í og lét vélina ganga þar til komin var fíngerð mylsna. Ég bætti svo ísköldu vatni út í smátt og smátt (1-2 matskeiðum alls), þar til auðvelt var að hnoða mylsnuna saman en hún var þó ekki blaut eða klesst. Mótaði deigið í kúlu, pakkaði henni í plastfiimu og kældií a.m.k. hálftíma.

_MG_3290

Ég kveikti svo á ofninum og stillti hann á 200°C og fór að gera fyllinguna. Fyrst flysjaði ég 200 g af gulrótum og skar þær í bita. Saxaði hálfan lauk og setti í pott ásamt 500-600 g af kjúklingi (ég var með beinlaus læri) kryddaði með pipar og salti og lét malla í um 20 mínútur. En svo má líka nota afganga eða foreldað kjúklingakjöt og þá sýður maður bara gulrætur og lauk í mjólkinni, nema síðustu mínúturnar.

_MG_3296

Þegar svon 5 mínútur voru eftir af suðutímanum setti ég 150 g af strengjabaunum út í en það mætti líka nota t.d. frosnar grænar baunir (og ef ég hefði verið með foreldaðan kjúkling hefði ég sett hann út í um leið til að hita hann í gegn). Þegar allt var soðið setti ég sigti yfir skál, hellti öllu í sigtið og skolaði svo pottinn og setti hann aftur á helluna.

_MG_3300

Ég bræddi 2 msk af smjöri í pottinum, hrærði 2 msk af hveiti  saman við og hellti svo mjólkursoðinu saman við smátt og smátt, hrærði vel á meðan og bakaði upp jafning. Bragðbætti með 1 msk af kjúklingakrafti og skvettu af tabascosósu og lét malla í nokkrar mínútur.

_MG_3310

Ég tók svo kjúklinginn úr sigtinu, skar hann í minni bita og setti út í jafninginn, ásamt grænmetinu. Smurði svo bökuform (eða eldfast mót) með smjöri og hellti fyllingunni í það.

_MG_3303

Ég tók svo deigið úr kæli og flatti það út á bökunarpappírsörk í hringlaga plötu, nokkru stærri en formið sem ég hafði sett fytllinguna í.

_MG_3312

Svo hvolfdi ég deiginu yfir formið, snyrto kantana og þrýstu þeim að brúnum formsins til að loka fyllinguna inni. Skar 2-3  rifur í lokið til að hleypa út gufu.

_MG_3315

Ég penslaði að síðustu deiglokið með sleginni eggjarauðu. Setti formið á bökunarplötu (gott að hafa hana undir ef eitthvað af fyllingunni lekur úr forminu) og bakaði bökuna neðarlega í ofni í um 20 mínútur.

_MG_3334

Eða þangað til deiglokið var orðið fallega gullinbrúnt. Bar svo bökuna fram heita.

_MG_3363

Er þetta ekki bara dálítið haustlegt?

*

Kjúklingabaka

Bökuskelin

250 g hveiti

lófafylli af steinselju

nálar af 1 rósmaríngrein (eða aðrar kryddjurtir eftir smekk)

30 g parmesanostur, rifinn

1/2 tsk salt

125 g smjör, kalt

1−2 msk ískalt vatn, eða eftir þörfum

Kjúklingafyllingin

1/2 l mjólk

200 g gulrætur

1/2 laukur

600 g kjúklingur, t.d. beinlaus læri

pipar

salt

150 g strengjabaunir eða grænar baunir, frosnar

2 msk smjör, og meira til að smyrja formið

2 msk hveiti

1 msk kjúklingakraftur

skvetta af tabascosósu eða svolítill cayennepipar

1 eggjarauða

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s