Í von um að sumarið sé ekki alveg fyrir bí …

Kannski er sumarið bara búið. Lítið var, lokið er, eins og sagt er. En það er reyndar spáð hlýindum um helgina – fyrir norðan allavega, og ekki veitir þeim nú af, það hefur ekki sést svo mikið af sumri þar víðast hvar. Kannski verður samt ekki alveg veður fyrir þessa uppskrift – en einhverntíma kemur nú sól og sumarylur aftur og svo má líka gæða sér á þessu innandyra.

Ég fékk eitthvað svipað í Róm í vor, reyndar ekki með vodka (fylgdarsveinninn minn var jú ekki nema þrettán ára og við vorum ekkert í neinu svalli, þótt fyrir kæmi að hann fengi sér ís og ég þá hvítvínsglas eða eitthvað á meðan, og bæði ánægð með sitt. Og við eitthvert slíkt tækifæri fékk ég mér einmitt ávaxtasalat í melónu. Án vodka semsagt, og þótt hann sé hér með  má auðvitað alveg sleppa honum. Svo að gjörið svo vel, coppa di melone con frutta.

_MG_8258

Ég notaði ferns konar melónur, vatnsmelónur, galia, hunangsmelónu og kantalópu, kirsiber og hindber, en það er hægt að nota alls konar sumarlega ávexti. Eða ósumarlega, ef því er að skipta.

_MG_8274

Ég tók mnnstu melónuna frá (það var kantalópan í þessu tilviki) og setti hana í kæli. Síðan stakk ég kúlur úr hinum melónunum með kúlujárni. Það má líka bara skera þær í bita.

_MG_8276

Ég var svo með dálítið af hindberjum og kirsiberjum – þetta var í vor en nú er kirsiberjatíminn löngu búinn svo það má nota eitthvað annað. Ef maður er með stærri ávexti má bara skera þá í bita, álíka stóra og melónukúlurnar.

_MG_8279

Ég setti alla ávextina í skál ásamt svona 10 mintulaufum, grófsöxuðum. Kreisti svo safann úr hálfri sítrónu, hrærði svona 1 msk af vodka saman við (en honum má alltsvo sleppa), hellti þessu yfir berin, blandaði vel og kældi  í a.m.k. 1 klst. Hrærði öðru hverju. Það má líka setja ögn af hunangi út í ef maður vill hafa þetta svolítið sætara. Ég geri það ekki.

_MG_8315

Svo tók ég kantalópuna sem ég hafði geymt og skar hana í tvennt. Ef melónan/melónurnar sem nota á í skálarnar eru of stórar má bara skera af þeim endana og nota þá (og nota svo afganginn af melónunum í annað).

_MG_8317

Ég skóf svo fræin og dálítið af aldinkjötinu úr kantalópuhelmingunum með skeið til að gera skálar. Skar reyndar líka örþunna sneið neðan af hvorum melónuhelmingi svo að skálarnar væru stöðugar.

_MG_8338

Svo er bara að setja skálarnar á diska, hrúga ávöxtum í þær og hella leginum (maríneringunni yfir). Skreyta þetta með mintulaufi og bera fram. Inni …

_MG_8498

… eða þá úti, ef skyldi nú viðra til þess.

*

Melónuskálar með ávöxtum

Coppa di melone con frutta

1 lítil melóna, t.d. kantalópur eða galia

melónur og aðrir ávextir og ber eftir smekk

safi úr 1/2 sítrónu

1 msk vodka (má sleppa)

10 mintulauf, skorin í ræmur, og meira til skreytingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s