Grófur en góður biti

Ég er farin að halda að ég sé ansi vel staðsett í höfuðborginni, svona matarlega séð. Mér hefur reyndar ekki fundist það hingað til en nú er í bígerð að koma upp matarmarkaði á Hlemmi, í þriggja mínútna göngufjarlægð, og vonandi verður nú eitthvað úr því – en svo er ég að vinna á Bræðraborgarstígnum (og er búin að vera að vinna á þeim slóðum í 29 ár, með tæplega tveggja ára hléi þó) og þar í grenndinni er að koma upp mikið matarhverfi, með veitingahúsum og sælkerabúðum.

Ég fór áðan út á Granda í Matarbúrið, nýopnaða kjötbúð þeirra á Hálsi, og keypti eitt og annað – tri-tip og bratwurst og short ribs og kanínulæri – og svo keypti ég tvo bita af flankasteik, samtals 330 grömm. Ófrosið, því þetta átti að vera kvöldmaturinn. Og var það líka en ég sá í hendi mér þegar heim kom að þetta væri of mikið fyrir mig eina svo að ég eldaði bara annan bitann.

Flankasteik hefur sjálfsagt eitthvert annað íslenskt heiti en ég man það þá allavega ekki; þetta er vöðvi af kviðnum á nautinu, grófur og með áberandi vöðvaþráðum og getur verið ólseigur ef hann er ekki rétt meðhöndlaður en þetta er einhver bragðbesti bitinn af skepnunni, finnst mér.

Það er hægt að hægelda hann lengi lengi við vægan, rakan hita. Í þónokkra klukkutíma. En ég var svöng núna (eða sko áðan) en ekki seint í kvöld og auk þess finnst mér flankasteik best snöggelduð. Svo að ég ákvað að gera mér steikarsalat. Þetta er líka upplagður biti til að nota í fajitas og þess háttar. Kannski nota ég hinn bitann sem ég á eftir í eitthvað svoleiðis um helgina.

Það er bara tvennt mjög mikilvægt sem þarf að gæta að. Meira um það hér á eftir.

_MG_8101

Ég byrjaði á að gera maríneringu. Flankasteik tekur mjög vel við maríneringu, hún er svo opin af því að vöðvaþræðirnir eru grófir og maríneringin gengur vel inn á milli þeirra. Hún er samt bara til að gefa bragð, ekki til að gera kjötið meyrara – það þyrfti nú öllu meira til þess, ekki síst af því að ég læt kjötið liggja bara stutta stund í maríneringunni.

En ég allavega setti matskeið af dijonsinnepi (ekki sléttfulla en ekki alveg kúfaða heldur) í skál ásamt 1 msk af olíu og 2 tsk af sojasósu og hrærði þetta vel saman.

_MG_8104

Ég tók svo flankasteikina, setti hana í maríneringuna ..

_MG_8106

… og smurði henni vel inn í kjötið. Lét það liggja í 15-20 mínútur.

_MG_8112

Svo hitaði ég litla, þykkbotna pönnu mjög vel og hellti svona 1 tsk af olíu á hana – hún á næstum að rjúka. Strauk eins mikið af maríneringunni af kjötinu og ég gat, saltaði það ögn og setti það svo á pönnuna. Steikti það við háan hita í 3 mínútur á hvorri hlið – þetta var þunnur biti.

_MG_8115

Svo tók ég kjötið af pönnunni og nú kemur Mjög Mikilvægt nr. 1: Að láta kjötið bíða í að minnsta kosti tíu mínútur. Ef ég hefði ætlað að bera það fram heitt hefði ég haft það á hlýjum stað og breitt yfir það en þetta átti að fara í volgt steikarsalat svo ég setti það bara á bretti. En alls ekki skera í það. Þá streymir safinn bara úr því eins og skrúfað hafi verið frá krana.

_MG_8118

Á meðan kjötið beið ákvað ég að gera sósu – mér fannst upplagt að nota maríneringuna af kjötinu. Ég lækkaði hitann undir pönnunni, setti maríneringuna á hana og hrærði svo 100 ml af rjóma og smáskvettu af vatni (2-3 msk) saman við. Lét malla aðeins og slökkti svo undir pönnunni.

_MG_8137

Og nú kemur Mjög Mikilvægt nr. 2: Þegar 10 mínútur voru liðnar tók ég kjötbitann og beittan hníf og skar kjötið í þunnar sneiðar þvert á vöðvaþræðina. Alls ekki skera það eins og þeir liggja og það er um að gera að hafa sneiðarnar eins þunnar og mögulegt er. Ef það er skorið í bita eða þykkar sneiðar eða skorið eins og vöðvaþræðirnir liggja er það nefnilega seigt. Ólseigt jafnvel. En ekki ef þetta er ert svona.

_MG_8120

Ég setti svo lófafylli af salatblöðum (t.d. klettasalatsblöndu) á fat, skar þennan huggulega tómat sem ég keypti á dögunum í Ljómalind í Borgarnesi í báta og dreifði yfir og dreifði svo steikarsneiðunum þar yfir.

_MG_8141

Svo dreypti ég dálitlu af sinnepssósunni yfir …

_MG_8144

… og bar afganginn fram með.

Ekki slæmt.

*

Flankasteikarsalat

150-200 g flankasteik

1 msk dijonsinnep

1 msk + 1 tsk olía

2 tsk sojasósa

flögusalt

100 ml rjómi

svolítið vatn

væn lófafylli af salatblöðum

1 stór, vel þroskaður tómatur eða 2 minni

3 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s