Þegar liturinn ræður ferðinni

Þið eruð kannski öll orðin leið á sykurlausum kökum. Ekki ég. Ekki vinnufélagar mínir heldur, eða það held ég bara. Og þess vegna er hér ein í viðbót.

Eiginlega ætlaði ég alls ekki að baka köku, ég ætlaði að gera allt annað með þessar nektarínur sem ég hafði keypt. Og bananarnir voru á leið í frysti – þetta var afgangur sem ég átti síðan á sunnudag en þeir dökknuðu og linuðust óvenju hratt og voru satt að segja komnir í hálfgert vökvaform. Líklega hefðu flestir hent þeim. Ekki ég en það stóð semsagt til að henda þeim í frysti.

En svo skar ég aðra nektarínuna  í tvennt – þetta voru stórar, bústnar, vel rauðar nektarínur – og liturinn á aldinkjötinu var ekki réttur. Ekki fyrir myndina sem ég ætlaði að taka, ég vildi hafa það fagurgult en þessar voru of dökkar og dauflitar – ekkert að þeim samt, bragðið mjög fínt bara. En ég hætti við myndatökuna, rak svo augun í bananana og hugsaði ,,æ, ég geri bara köku“.

Og það gerði ég. Geri svo hinn réttinn þegar ég fæ nektarínur af réttum lit.

Byrjaði á að stilla ofninn á 170°C og á meðan hann hitnaði tók ég steinana úr nektarínunum, skar þær í báta og svo í bita, svona 1 1/2 cm á kant, sirkabát. Var ekkert að afhýða þær.

_MG_7705

Svo setti ég þessa mjööög vel þroskuðu banana í matvinnsluvélina, ásamt 2 eggjum, 100 ml af matarolíu og 125 ml af hreinni jógúrt og lét vélina ganga þar til allt var orðið að sléttu mauki. Þá blandaði ég 350 g af heilhveiti saman við 2 tsk af lyftidufti,1/2 tsk af matarsóda og 1/2 tsk af salti  og þeytti þessu saman við ásamt 2 tsk af vanilluessens. Ef deigið virkar fullþunnt (sjá þykktina á þarnæstu mynd) má alveg bæta við 25-50 g af heilhveiti.

Það má alveg nota hvítt hveiti, auðvitað. Ég er bara farin að nota heilhveiti í flest bakkelsi núna þótt hvítt hveiti sé ekki á neinum bannlista, það eru einfaldlega uppskriftir þar sem það hentar betur, annaðhvort eitt sér eða blandað með heilhveiti eða öðru mjöli. En yfirleitt finnst mér heilhveiti bara betra núorðið, fyrir utan að það er hollara náttúrlega. Það getur vel verið að það megi nota eitthvert annað mjöl í kökuna en ég er bara ekki í glútenlausa gírnum svo ég hef ekki prófað.

_MG_7706

Svo vigtaði ég 100 g af pekanhnetum, setit þær út í og lét vélina ganga mjög stutt (notaði púlshnappinn) – bara til að blanda hnetunum saman við og byrja aðeins að mala þær en bara mjög gróft. Að síðustu blandaði ég niðurskornum nektarínunum saman við með sleikju.

_MG_7708

Ég setti deigið svo í smelluform (klæddi botninn með bökunarpappír) og bakaði kökuna á neðstu rim í ofninum í 45 mínútur (eða þar til prjónn sem stungið var í hana kom hreinn út).

_MG_7775

Ég lét kökuna kólna í forminu smástund og losaði hana svo úr því og setti á disk.

_MG_7808

Þetta var bara alveg ágæt kaka.

_MG_7795

Nektarínu- og pekanhnetukaka

3 mjög vel þroskaðir bananar

2 egg

125 ml hrein jógúrt (eða súrmjólk)

100 ml matarolía

2 tsk vanilluessens

350 g heilhveiti eða hveiti (meira ef þarf)

2 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

100 g pekanhnetur

3 nekarínur (2 ef þær eru stórar)

170°C í um 45 mínútur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s