Rómarstemmning úr dós

_MG_8799Aldrei þessu vant held ég að ég sé bara með eitt áríðandi verkefni sem ég ætlaði að vera búin að ljúka við fyrir nokkru. Ja, ef maður sleppir því að telja ósvöruð bréf og tölvupósta með … Svo að það er tími fyrir blogg, held ég.

Eins og svo margir aðrir kynntist ég túnfiski – og reyndar túnfisksalati – fyrst sem majónesjukki sem sett var á samlokur eða notað sem ídýfa með Ritzkexi. Þessi salöt voru sviplík, stundum með harðsoðnum eggjum, smátt skornum lauk eða einhverju öðru en samt meira og minna eins. Oft frekar bragðlitil nema kannski ef sá sem gerði salatið hafði sett skvettu af tabascosósu eða dálítinn cayennepipar út í, það lífgaði að minnsta kosti ögn upp á þau. Ekki sérlega spennandi satt að segja.

Svo komst ég að því að til voru öðruvísi túnfisksalöt. Sum meira að segja majóneslaus með öllu. Og sum voru þannig að túnfiskurinn var ekki allur hrærður í einsleita, nærri kekkjalausa stöppu, heldur látinn halda sér í flögum eða bitum. Og það var allt önnur upplifun. Ekki síst þegar ég fékk í fyrsta sinn túnfisk sem var soðinn niður í góðri ólífuolíu.

Ég skal játa á mig vissa fordóma gagnvart túnfiski í vatni. Mér finnst hann bara alls ekki eins góður og túnfiskur í olíu (ég veit að það eru ekki allir á sama máli). Jú, það eru fleiri hitaeiningar í túnfiski í olíu, þó ekki svo margar ef maður hellir olíunni vel af honum en þá fer líka eitthvað af næringarefnunum og omega-3-olíum úr fiskinum sjálfum með af því að það hefur blandast olíunni. Þannig að til að saman fari bragð og hollusta reyni ég oftast að finna túnfisk í góðri ólífuolíu, sem er þá hægt að nota í réttinn sem ég er að fara að gera (því oft er einhver olia notuð, t.d. í salatsósu) eða jafnvel ,,no drain“- túnfisk, þar sem notuð er svo lítil olía að það þarf ekkert að hella henni af.

Ef ég væri hins vegar að gera majónestúnfiskídýfu eða eitthvað slíkt, þá er nú svo mikið af olíu í majónesinu að ekki er á hana bætandi og þá er ég alveg til í að nota túnfisk í vatni – bragðið af honum skiptir hvort eð er minna máli þegar hann er hrærður alveg í stöppu og kryddaður.

En hér er semsagt uppskrift að ítölsu túnfisksalati með baunum. Hún birtist fyrst í júníblaði MAN, þar sem ég var með ítalskt – eða reyndar rómverskt – þema, enda nýlega komin frá Róm. Uppskriftin er að stofni til komin frá Elizabeth Minchilli, bandarískri konu sem hefur búið lengi í Róm, er með matarröltferðir um borgina og hefur gefið út bækur um mat í Róm.

Þetta getur verið létt málíð fyrir fjóra eða forréttur fyrir eitthvað fleiri; er líka upplagt á hlaðborð.

_MG_8755

Ég notaði eina dós af þessum túnfiski, sem ég fékk í Hagkaupum. En það má auðvitað nota annan túnfisk, hvort sem hann er í ólífuolíu, annarri olíu, vatni eða hverju sem manni hugnast. Ólífuolían er samt best …

Ég notaði cannellini-baunir en það má nota ýmsar aðrar tegundir af baunum. Þær eru auðvitað bestar ef maður sýður þær sjálfur en það er bara svo þægilegt að nota niðursoðnar baunir. Og svona fljótgerð salöt eru yfirleitt ekki eitthvað sem ég ákveð að gera með það löngum fyrirvara að það sé raunhæft að sjóða baunir. Nema kannski í hraðsuðupottinum mínum en dósabeunirnar eru samt alltaf einfaldasta lausnin.

_MG_8756

Ég opnaði því eina dós af cannellinibaunum, hellti þeim í sigti og lét renna af þeim og skolaðu þær snöggvast undir köldu, rennandi vatni. Saxaði einn rauðlauk smátt og setti í skál ásamt baununum og innihaldi túnfiskdósarinnar.( Ef ég hefði verið með túnfisk í annarri olíu hefði ég sennilega hellt henni mestallri af en látið ólífuolíu fylgja þótt hún hefði verið meiri – það er notuð ólífuolía út á salatið og ég hefði þá bara notað minna af henni.)

_MG_8757

Ég tók svo tvo vorlauka og skar þá smátt. Saxaði eitt knippi af flatblaða steinselju og bætti þessu út í. Það gæti litið út fyrir á myndinni að það væri líka hvítur laukur í salatinu en þetta er neðsti hlutinn af vorlaukunum …

_MG_8754

… þeir voru bara svona sverir. Ef maður er ekki mikið fyrir lauk má alveg minnka rauðlaukinn og jafnvel sleppa vorlauknum alveg.

_MG_8759

Þar sem mjög lítil ólífuolía var í dósinni sem ég notaði dreypti ég 2 msk af góðri ólífuolíu yfir, kryddaði með pipar og salti og blandaðu vel en þó gætilega; túnfiskurinn á að losna dálítið í sundur en það mega alveg vera nokkuð stórir bitar í salatinu.

Að lokum skar ég 100 g af vel þroskuðum og fagurrauðum kirsiberjatómötum  í fjórðunga og blandaðu þeim gætilega saman við. Ég geymdi þá þar til seinast af því að ég vildi ekki að innmaturinn færi mikið úr þeim og blandaðist saman við hitt, þá hefði salatið kannski orðið svolítið muskulegt.

_MG_8799

Svo er bara að setja salatið á disk eða í grunna skál og bera það fram (við stofuhita, ekki ískalt) með nóg af góðu brauði. Þetta er auðvitað ídeal sumarsalat til að borða úti undir beru lofti, eins og ég gerði í Róm. En það er reyndar ágætt inni við líka, og á öðrum árstímum.

*

Túnfisksalat með baunum

Insalata di tonno en cannellini

1 dós cannellini-baunir (eða aðrar hvítar baunir)

1 rauðlaukur, saxaður

1-2 vorlaukar, saxaðir

1 knippi flatblaða steinselja

1 dós túnfiskur í olíu (helst ólífuolíu)

2-3 msk ólífuolía (eða minna, eftir því hvað er á túnfiskinum)

pipar

salt

100 g konfekt- eða kirsiberjatómatar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s