Það þarf ekkert á Laugaveginn sko …

Ég hef verið svolítið upptekin við ákveðin verkefni að undanförnu og eiginlega ekki mátt vera að því að setja neitt hér einn. En ég ætla nú samt ekki að gleyma blogginu alveg og þarf auk þess á því að halda að slappa af smástund svo að hér kemur eitthvað.

Umræðan síðustu dagana hefur aðallega snúist um tvennt: kleinuhringjaát og nauðganir. Ég hef reynslu af hvorutveggja, skal ég segja ykkur, og mér þykja kleinuhringir mun skemmtilegra umræðuefni. Svo að ég ætla aðeins að minnast á þá. Ekki að ég viti sérlega mikið um kleinuhringi, þannig séð, en ég veit þó að í bók um kleinuhringi – eða doughnuts – nánar til tekið, því það er mun víðara hugtak – um víða veröld sem væntanleg er í haust verður eitthvað vitnað í mig og gott ef ekki uppskrift. Reyndar kleinuuppskrift, því eftir nokkrar samræður við höfundinn, sem hafði samband við mig til að spyrja um kleinur, komumst við að þeirri niðurstöðu að íslenskar kleinur féllu alveg undir þá skilgreiningu á doughnuts sem hún var að vinna út frá.

Líklega hafa kleinuhringir fyrst komið hingað með Bandaríkjamönnum í stríðinu og doughnuts eru oft nefndir í blöðum sem bandaríski herinn gaf út hér á þeim árum. Elsta uppskriftin sem ég hef fundið á íslensku er þó í Nýju kvennablaði frá 1952:

Screen Shot 2015-08-06 at 8.58.23 PM

Einhvernveginn svona voru kleinuhringir oftast gerðir lengi framan af. Ég hef reyndar aldrei gert kleinuhringi af þessu tagi, hef ævinlega notað gerdeig. Maður fékk stundum kleinuhringi hér áður fyrr, heimagerða eða keypta, en ég man ekki mikið eftir að þeir hafi verið með glassúr framan af, það kom seinna.

Fyrir fjöldamörgum árum eignaðist ég svo kleinuhringjajárn. Nei, ekki svona vöfflujárnstýpu (það apparat hef ég aldrei alveg skilið), heldur útstungujárn til að stinga út kleinuhringi. Og það var þá sem ég byrjaði að gera þá. Það er alveg hægt að komast af án slíks þarfaþings, ég gerði það áður fyrr, notaði málmhring til að stinga hringina sjálfa og líklega eplakjarnajárn til að stinga götin – en kleinuhringjajárnið (sjá hér neðar) er bara svo miklu þægilegra.

Og svo er búið að vera heilmikið röfl út af því að undanförnu að amerísk kleinuhringjakeðja er komin til landsins. Mér finnst satt að segja að Íslendinga vanti nú ýmislegt frekar en meiri sykur en fólk ræður því náttúrlega sjálft. Eitthvað var þetta nú nefnt í vinnunni í gær, minnst á biðröðina og svona, svo að ég ákvað að traktera vinnufélagana bara á nýsteiktum kleinuhringjum í morgun, þeir gætu þá sleppt því að fara í biðröð ef þá langaði í kleinuhringi …

Svo að ég vaknaði hálftíma fyrr en venjulega í morgun, útbjó gerdeig á náttsloppnum, fór svo og klæddi mig og sinnti mínum venjulegu morgunverkum, braut saman þvott og eitthvað svoleiðis, og svo flatti ég út deigið, hitaði feitina, steikti hringina og fór svo með þá heita í vinnuna. Þeir kólnuðu reyndar aðeins í strætó en ég stakk þeim í örbylgjuofninn þar í mínútu eða svo.

Ég minnkaði vinsældir mínar í vinnunni akkúrat ekki neitt með þessu.

Allavega, hér er uppskriftin. Af því að ég borða ekki lengur sykur sleppti ég honum í deiginu en tók með flórsykur svo að þeir sem vildu gátu sigtað svolítinn flórsykur yfir sinn kleinuhring. En í uppskriftinni sem ég notaði alltaf eru þrjár matskeiðar af sykri, í staðinn skipti ég út 100 ml af mjólkinni fyrir sama magn af ávaxta-smoothie, bæði til að fá örlítið sætt bragð og líka til að kleinuhringirnir brúnuðust betur. Þannig að ef þið notið sykur má bara gera öfugt.

_MG_4330

Ég byrjaði á að hita svona 100 ml af mjólk og blandaði henni svo saman við sama magn af smoothie (banana-og-eitthvað-smoothie frá Frosh, en það má nota aðrar tegundir, þó kannski betra að þær séu ekki mjög rauðar). Eða það má nota 200 ml af mjólk og setja svona 1 tsk af sykri saman við. Svo stráði ég geri yfir – 1 1/2 msk eða svo ef maður er með þurrger, en ég var með pressuger aldrei þessu vant og slumpaði nú bara á það. Lét þetta standa í nokkrar mínútur, þar til gerið var farið að leysast upp og freyða. Þá setti ég 500 g af hveiti, 3 egg, 50 g af linu smjöri (bráðnu ef maður á ekki lint) og 1 tsk af vanilluessens út í.

_MG_4333

hnoðarann í hrærivélina og lét hana ganga þar til deigið var orðið slétt og mjúkt og gældi við hendurnar. Rakt en ekki klesst. Það var aðeins of blautt svo að ég bætti við svolitlu hveiti, kannski upp undir 50 g.

_MG_4335

Ég mótaði svo deigið í kúlu í hrærivélarskálinni, breiddi viskastykki yfir og lét það lyfta sér í svona 45 mínútur.

_MG_4336

Þá tók ég það úr skálinni, hnoðaði það létt og lét það svo bíða í fáeinar mínútur til að slaka aðeins á, svo að auðveldara yrði að fletja það út.

_MG_4338

Svo flatti ég deigið út í svona 1 1/2-2 cm þykkt, náði svo í kleinuhringjajárnið (sem lítur semsagt svona út) og stakk hringi út úr deiginu.

_MG_4339

Þegar ég var búin að stinga út hringi úr því sem ég hafði flatt út hnoðaði ég afskurðinn saman, flatti hann út aftur og stakk út hringi úr honum.

_MG_4342

Ég fæ yfirleitt svona 16 hringi úr þessum deigskammti. – Í þetta skipti skildi ég reyndar ,,holurnar“ (miðjuhringina) eftir og steikti þá sér. Ég lét hringina ekkert lyfta sér lengi, bara á meðan ég hitaði feitina.

_MG_4347

Ég hefði notað steikingarfeiti (kleinufeiti) en hún var ekki til í búðinni sem ég fór í í gær og ég mátti ekki vera að því að fara víðar svo ég notaði palmín sem ég átti til. Hitaði það í 180-190°C og setti svo nokkrar hringi í einu út í.

_MG_4350

Ég steikti hringina í svona tvær mínútur og sneri þeim þá við og steikti þá í eina til eina og hálfa mínútu á hinni hliðinni. Tók þá svo upp með gataspaða og lét renna af þeim á eldhúspappír. Ég steikti svo afganginn – þetta voru þrjár umferði af kleinuhringjum …

_MG_4358

… og svo endaði ég á að steikja ,,holurnar“. Hrærði oft í með gataspaða á meðan þær voru að steikjast svo að steikingin yrði jöfn.

_MG_4360

Þeir eru nú bestir nýsteiktir og volgir. En það má auðvitað líka láta þá kólna og moka yfir þá glassúr og hvaðeina. Ég gerði það ekki.

Amerískir kleinuhringir

200 ml mjólk eða 100 ml mjólk, 100 ml ávaxtasmoothie
1 1/2 msk þurrger
e.t.v. 3 msk sykur
3 egg
50 g lint smjör
1 tsk vanilludropar, rifinn börkur af 1 sítrónu, eða önnur bragðefni
um 550 g hveiti
steikingarfeiti, þarf að vera 4-5 cm djúp í pottinum

One comment

  1. Hvar get ég sótt um til að geta unnið á sama stað og þú Nanna Rögnvalds? Mjög flott uppskrift og fallegir kleinuhringir. Man eftir að hafa fengið ástarpunga með rúsínum hjá gamalli vinkonu minni um 1980, hún var að norðan, úr Kelduhverfinu, og allt sem hún gerði hafði danskan keim. Innri bollan úr kleinuhringjunum minnti mig á ástarpungana.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s