Svolítið dökkur sauður … en ekki svartur

Það er langt síðan ég hef verið með grilluppskrift … eða nei, reyndar ekki. En það er nú sumar og gott veður (allavega hér á Grettisgötunni) og ég á nokkrar óbirtar grilluppskriftir. Og ég er af skagfirskum sauðfjárbændum komin í þrjátíuogeitthvað ættliði svo að ég ætla bara að plögga kindakjöt í þetta skipti. Skagfirskt meira að segja.

Eða allavega slátrað hjá KS, ég veit svosem ekkert hvaðan það var, þeir slátra víst af mun stærra svæði. Þannig var það nú ekki haustið sem ég vann á sláturhúsinu fyrir fjörutíu og þremur árum eða hvað það nú var, þá var bara slátrað skagfirsku fé og maður vissi úr hvaða hreppi og frá hvaða bæ það var og allt. Reyndar finnst mér að maður ætti líka að geta vitað það núna, það ætti að merkja allt kjöt með allavega sveit og helst bæjarnafni – en óþarfi að segja hvað rollan heitir sem lambið er undan. Það þarf maður ekkert að vita. Enda veit ég svosem ekkert hvort ær hafa nafn nú til dags, kannski eru þær allar bara númeraðar. Það var annað þegar ég var að alast upp, þá hafði hver einasta kind nafn. Þær sem ég man eftir af mínum ám hétu Móra, Mókolla og Grámóra … hmm, ekki mjög fjölbreytt eða hugmyndaríkt nafnaval. Ég held reyndar að ég hafi ekki gefið þeim nöfn. En ég hef greinilega haldið upp á mórautt fé.

Kjötið er hins vegar alltaf eins á litinn, hvernig sem ytra byrðið á skepnunni er. Nema það breytir náttúrlega lit við eldun (og þá rifjast upp að Helga Sigurðardóttir talar alltaf um að stekja kjöt þar til það er móbrúnt, hún hefur verið gefinn fyrir mórauða litinn líka). Og svo litast það auðvitað af maríneringum og sósum. Einu sinni gerði ég lambakjötsrétt sem var eldaður í mauki eða sósu úr svörtum ólífum svo að það varð eiginlega svart að utan. Ég kallaði þennan rétt Svarta sauðinn. Hann var góður en það voru ekki allir hrifnir af útlitinu.

Þetta kjöt er hins vegar ekki svart (kannski svolítið dökkt að utan samt) og þótt það séu bláber í maríneringunni er það nú ekki blátt heldur. Uppskriftin birtist fyrst í júníblaði MAN.

_MG_6424

Ég sagði lambakjöt áðan en reyndar notaði ég kindafillet, mér finnst það betra og það er mun ódýrara. En það má vissulega nota lambakjöt líka. Þetta var fillet, svona 700 grömm, sem ég skar í fjóra álíka stóra bita.

_MG_6423

Svo gerði ég maríneringuna: setti 100 g af bláberjum (ég var með ný en þau mega alveg vera frosin), blöð af nokkrum timjangreinum, 2 vorlauka, 1 hvítlauksgeira, 3 msk af ólífuolíu, 2 msk af balsamediki, pipar og salt  í matvinnsluvélina og maukaði saman.

_MG_6426

Ég smurði svo maukinu á kjötið og lét það standa í a.m.k. 1 klst. Bara á eldhúsbekknum en ef það stendur lengur en klukkutíma er best að hafa það í kæli.

_MG_6428

Svo hitaði ég grillið. Tók kjötið úr maríneringunni (en strauk hana ekki af) og grillaði það við góðan hita í 3-4 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt og smekk.

_MG_6434

Á meðan kjötið grillaðist á svölunum stóð ég við eldavélina rétt innan við eldhúsgluggann og steikti sveppi til að hafa með. Tók 400 g af kastaníusveppum (það má nota venjulega), skolaði þá og þerraði – hefði e.t.v. skorið þá í tvennt eða fernt ef þeir hefðu verið mjög stórir en það voru þeir ekki – hitaði 1 msk af olíu á pönnu og setti sveppina á hana ásamt 2-3 timjangreinum og svona 30 g af smjöri. (Þið sjáið ekkert smjörumbúðirnar sem óvart fóru með á pönnuna, er það nokkuð? Ég sá þær – en ekki fyrr en ég var búin að taka mýndina.)

_MG_6438

Ég kryddaði með pipar og salti og lét sveppina krauma við ríflega meðalhita þar til sveppirnir höfðu tekið góðan lit en safinn var ekki allur gufaður upp.

_MG_6456

Þegar kjötið var tilbúið tók ég það af grillinu, lét það standa í 2-3 mínútur en skar filletin svo í sneiðar og raðaði á diska (eða fat).

_MG_6468

Með þessu hafði ég svo sveppina, ásamt bláberja- og pekansalati: salatblöð, bláber, pekanhnetur, ólífuolía, sítrónusafi, nokkrar timjangreinar. Ekki slæmt. Bara hreint ekki.

*

Bláberjamarínerað fillet með sveppum

600-800 g kinda- eða lambafillet, fitulaust

100 ml bláber

blöðin af nokkrum timjangreinum

2 vorlaukar

1 hvítlauksgeiri

3 msk ólífuolía

2 msk balsamedik

pipar

salt

*

Steiktir sveppir

400 g kastaníusveppir (eða venjulegir).

2 msk smjör

1 msk olía

2-3 timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

*

Bláberja- og pekansalat

150 g salatblöð

3 msk ólíufuolía

1 msk sítrónusafi

60 g bláber

40 g pekanhnetur, grófmuldar

e.t.v. nokkrar timjangreinar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s