Þegar enginn sölumaður truflar …

Kannski er kominn tími til að hvíla grillið (og kjötið) aðeins í bili. Reyndar eru uppskriftirnar sem ég hef verið með hér að undanförnu ekki það sem ég er að elda þessa dagana, heldur uppskriftir sem ég átti til – ég hef frekar lítið grillað í sumar, aðallega eldað fisk, grænmeti, súpur og þess háttar, bæði út af verkefnum sem ég er að vinna í en ekki síður af því að þetta er það sem mig langar oftast nær mest í þessa dagana. Helst að ég eldi kjöt þegar börn og barnabörn komi í mat (en þau fá nú stundum fisk líka).

Og þegar tengdadóttirin er á landinu og kemur í mat er mjög líklegt að það sé fiskur á matseðlinum – í gær fengu þau, hún og sonurinn, bæði blálöngu með Miðjarðarhafsgrænmeti og steikta rauðsprettu með ólífum og kapers, sérlega góða þótt ég segi sjálf frá. En það koma nú ekki uppskriftir að því, allavega ekki núna, því ég tók engar myndir – eins og ég hef áður sagt sleppi ég oftast myndatökum þegar ég er að elda oní gesti og ég tala nú ekki um þegar ég er að elda eitthvað þar sem eldunartíminn þarf að vera nákvæmur, eins og fisk, sem gengur ekki að trufla með myndatökum og svoleiðis (annað mál þegar ég er að elda fisk fyrir mig eina).

Ég var til dæmis frekar fúl við sölumanninn sem hringdi í mig þremur mínútum fyrir sjö í gærkvöldi; langan komin á pönnuna, ég að hita aðra pönnu fyrir rauðsprettuna og gestirnir að koma inn úr dyrunum. Sagði manninum að þetta væri ekki heppilegur tími að hringja. Flestir hefðu nú náð meiningunni, beðist afsökunar og sagst hringja seinna, en þessi sagði bara: – Ja, ég ræð engu um það. Má ég ekki kynna fyrir þér …

– Nei, sagði ég.

– Ha? sagði maðurinn hissa.

– Nei, það máttu ekki, sagði ég.

– En … sagði maðurinn.

– Vertu blessaður, sagði ég og lagði á. Og hélt áfram að elda fiskinn. Langan varð aðeins ofelduð, þó ekki til stórskaða. Ég bölvaði sölumanninum í hljóði.

En hér er allavega annar fiskur. Tóm hollusta, eða þannig. Nema ef maður er á því að kartöflur séu óhollar en þá má hafa eitthvert annað grænmeti í staðinn.

Ég var með laxaflak, svona 700-800 grömm, roðflett og beinlaust. Byrjaði á að skera það í stykki, krydda þau með pipar og salti og lét þau liggja smástund. Á meðan setti ég upp kartöflur – svona 500 g af frekar litlum kartöflum – og sauð þær þar til þær voru rétt  meyrar.

_MG_4744

Ég tók á meðan 300 g af spínati og kleip stönglana af því allavega af stærri blöðunum), setti örlítið vatn í pott og hitaði að suðu, setti spínatið út í, lækkaði hitann og lét malla í 2 mínútur. Þá hellti ég spínatinu í sigti og kreisti vatnið úr því þegar það var farið að kólna.

_MG_4750

Svo setti ég spínatið í matvinnsluvél ásamt hálfu knippi af basilíku og svolitlum pipar og salti, maukaði vel saman og þeyttu svo 3 msk af ólífuolíu saman við.

_MG_4742

Ég hitaði 2 msk af olíu á pönnu. Setti laxinn á hana og lét hliðina sem roðið var á snúa upp. Síðan lagði ég lok yfir (má nota álpappír ef pannan er ekki með loki) og steikti við nokkuð góðan hita í 2 mínútur.

_MG_4747

Á meðan skar ég nokkra vorlauka í um 5 cm bita og kartöflurnar (sem voru akkúrat soðnar) í tvennt. Tók svo lokið af pönnunni, sneri laxinum, setti kartöflur og vorlauk á pönnuna á milli stykkjanna og steikti laxinn (án loks) í um 2 mínútur í viðbót. Þá var laxinn passlega steiktur (enda hringdi enginn sölumaður til að trufla mig), svo að ég tók hann af pönnunni og hélt honum heitum. Steikti svoi grænmetið áfram þar til kartöflurnar höfðu tekið lit og vorlaukurinn var orðinn meyr. (Ef maður á ekki nógu stóra pönnu er hægt að setja bara grænmetið á pönnuna þegar búið er að taka laxinn af henni en þá þarf hann auðvitað að bíða aðeins lengur.)

_MG_4751

Ég setti svo spínatmaukið á diska (en það má líka setja það á fat).

_MG_4753

Síðan lagði ég axinn ofan á spínatmaukið og dreifði kartöflum og vorlauk í kring. Skar svo nokkrar radísur í þunnar sneiðar og dreifði yfir og skreytti með dilli af því að ég átti það til.

_MG_4790

Þetta var nú bara alveg ágætt.

Lax með spínatmauki og steiktum kartöflum

700-800 g laxaflak, beinhreinsað og roðflett

pipar

salt

500 g litlar kartöflur

300 g spínat

½ knippi basilíka

2 msk olía

3 msk ólífuolía

6-8 vorlaukar

nokkrar radísur

e.t.v. nokkrir dillkvistir, ef maður á þá til

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s