Grilluð lambalæri þurfa ekki öll að vera eins. Fyrir nokkrum árum datt fæstum í hug að grilla læri nema vafin í álpappír og það er auðvitað í góðu lagi en nú hafa líka margir lært að grilla þau á lokuðu grilli yfir óbeinum eldi og það finnst mér reyndar miklu betra.
Það er til dæmis hægt að krydda það með ýmsum kryddjurtum og kryddi, svo sem rósmaríni eins og ég gerði hér, og það er líka hægt að stinga raufar í það og setja til dæmis hráskinkusneið og hvítlauksflís í hverja rauf, eins og ég gerði hér:
Svo er hægt að smyrja ýmiss konar kryddmauki, grillsósu eða öðru slíku á lærið, eða þá sinnepi. Og svo má marínera það og grilla í þykkum hjúpi og þannig er uppskriftin sem kemur hér á eftir. Hér er önnur útgáfa sem ég hef áður verið með, en þessa nýju gerði ég fyrir grillþátt í MAN í vor.
Þetta er semsagt lambalæri í indverskum kryddhjúpi – eða indversk-íslenskum, því ég notaði skyr. Best er að marínera lærið í nokkra klukkutíma, jafnvel yfir nótt.
Ég byrjaði á að útbúa maríneringuna. Setti 250 g af hreinu KEA-skyri í matvinnsluvél (eða blandara) ásamt einum litlum rauðlauk, söxuðum, 2 hvítlauksgeirum, 5 cm bita af engifer, 40 g af möndluflögum og rifnum berki af einni límónu.
Svo kreisti ég safann úr límónunni út í – hann er mismikill og ef límónan er frekar þurr má alveg nota tvær. Bætti svo við 1 1/2 tsk af paprikudufti, 1 tsk af túrmeriki, 1 tsk af kummini, smáklípu af cayennepipar, 1/2 tsk af pipar og 3/4 tsk af salti og maukaði þetta allt saman.
Ég var með læri sem var svona 2,2 kg, þverskorið eins og ég vil helst hafa það. Snyrti það aðeins og tók svo þrjá hvítlauksgeira og skar þá í flísar. Ég stakk raufar í lærið með hnífsoddi og setti hvítlauksflísum í þær. Kryddaði lærið með pipar og salti.
Síðan smurði ég skyrmaukinu vel á allt lærið, setti það í kæli og lét það standa yfir nótt (eða allavega í nokkrar klukkustundir).
Daginn eftir, þegar að því kom að grilla lærið, tók ég það úr kæli og lét það standa í svona klukkutíma við stofuhita. Svo hitaði ég grillið og hafði það lokað. Þegar það var orðið vel heitt slökkti ég á miðjubrennaranum (eða öðrum ef þeir eru tveir – ef maður er með gasgrill má hafa álbakka í miðjunni til að búa til svæði þar sem enginn eldur er.
Ég setti svo lærið yfir miðjubrennarann (þar sem enginn eldur var) og gætti þess að strjúka ekki maríneringuna af því – það má setja svolítinn álpappírbút undir þar sem lærið snertir ristina. Svo lokaði ég grillinu og grillaðu lærið við meðalhita.Ef hitamælir er á grillinu er best að hann sýni sem næst 180°C. Grilltíminn fer töluvert mikið eftir aðstlðum, t.d. lofthita og vindi, en ég grilla læri gjarna í 1 1/4-1 1/2 klst. Ég vil raunar hafa kjötið frekar lítið steikt; það er ágætt að nota kjöthitamæli til að athuga hvað steikingunni líður.
Það þarf ekkert að snúa lærinu eða hreyfa neitt við því og reyndar er best að opnað grillið sem minnst því í hvert skipti sem það er gert rýkur hitinn burt og grilltíminn lengist, en þarna hafði ég þó opnað grillið þegar um það bil klukkutími var liðinn til að kíkja aðeins á lærið (og taka mynd af því).
Ég tók svo lærið af grillinu, setti það á bretti og lét það standa í um 15 mínútur á hlýjum stað, áður en ég bar það fram með soðnum hrísgrjónumog góðu salati.
Jú, það er túrmerik þarna …
*
Grillað lambalæri í indverskri kryddmaríneringu
fyrir 6
1 lambalæri, um 2,2 kg
250 g hreint KEA-skyr
1 lítill rauðlaukur
4-5 hvítlauksgeirar (2 í maríneringuna)
5 cm biti af engifer
40 g möndluflögur
1 límóna
1 1/2 tsk paprikuduft
1 tsk túrmerik
1 tsk kummin
klípa af cayennepipar
pipar
salt