Það er held ég þokkalegasta veðurspá fyrir næstu daga, að minnsta kosti hér sunnanlands, sæmilega hlýtt og meira og minna þurrt, held ég – semsagt þokkalegasta grillveður. Og þá er kannski kominn tími á nokkrar fleiri grilluppskriftir.
Líklega er það svo að þegar grillmatur er nefndur dettur flestum kjöt í hug og ég er svosem engin undantekning. En á seinni árum hef ég samt frekar grillað annað en kjöt – eða að minnsta kosti algengustu kjöttegundir – og forkryddað kjöt hef ég ekki grillað eða steikt í mörg ár. Ekki vegna þess að mér þyki það svo vont (sem það er nú samt stundum), heldur vegna þess að a) ég vil vita hvernig kjötið sem ég er að elda lítur út áður en það er falið undir kryddi og sósum, b) mér finnst kjöt sjaldan græða á því að liggja dögum saman í saltaðri maríneringu – hún dregur úr því safa og gerir það þurrt og oft of salt og c) mér finnst bara miklu skemmtilegra að krydda og marínera kjötið mitt sjálf, fyrir utan náttúrlega að það verður yfirleitt miklu betra.
Ég grilla hins vegar mjög oft fisk nú orðið, eins og dæmi var umí gær, og ekki síður alls konar grænmeti. Það er nefnilega hægt að grilla flest grænmeti ef maður notar réttu aðferðirnar – ekki bara tómata, paprikur, sveppi, kúrbít og annað slíkt. Og hér er uppskrift sem inniheldur meðal annars grillað butternutgrasker, sem kannski ratar ekkert oft á grillið hjá fólki. Það þarf sinn tíma, vissulega, og það er betra að skera það ekki of þykkt. En það getur orðið mjög góður á grillinu. Svo grillaði ég líka kúrbít og bar þetta fram með grísakótelettum, ásamt kryddjurtamauki.
Það er eitthvað lítið um myndir af matreiðslunni, man ekki hvers vegna ég tók þær ekki … En ég byrjaði á að kveikja á grillinu. Svo tók ég fjórar grísakótelettur með beini, snyrta þær aðeins og þerra. Blandaði saman 2 msk af ólífuolíu, 1 msk af vínediki (má líka nota sítrónusafa), 1 tsk af þurrkuðu óreganói, pipar og salti, penslaði kóteletturnar með blöndunni og lét þær liggja á meðan ég undirbjó og grillaði grænmetið.
Ég átti tvö óvenju lítil butternutgrasker en það má líka nota eitt af venjulegri stærð, þessi litlu eru bara skemmtilegri ef maður finnur þau. Ég flysjaði þau með flysjunarjárni, skar þau í tvennt eftir endilöngu og skóf úr þeim fræin með skeið. Svo skar ég þau í um (eða tæplega) 1 cm þykkar sneiðar eftir endilöngu. Ef notað er eitt stórt grasker er best að skera það í fjórðunga og þá síðan aftur í sneiðar. Svo tók ég einn meðalstóran kúrbít og skar hann einnig í um 1 cm sneiðar, en á ská, ekki eftir endilöngu. (Gulræturnar á myndinni áttu ekkert að vera með, þær voru notaðar í annað.)
Svo blandaði ég saman 4 msk af ólífuolíu, pipar og salti, penslaði graskerssneiðarnar með olíunni og velti kúrbítssneiðunum upp úr henni. Grillið var orðið heitt og ég raðaði graskerssneiðunum á það og grillaði við meðalhita þangað til þær voru meyrar og sneri þeim einu sinni. Ég held að þetta hafi tekið 20-25 mínútur en það fer eftir þykktinni á sneiðunum og fleiru. Kúrbíturinn þarf heldur styttri tíma og best að setja hann á grillið nokkrum mínútum á eftir butternutgraskerinu. – Ef það er frekar kalt í veðri eða gola getur verið betra að hafa grillið lokað og hitann þá kannski ívið lægri.
Á meðan þetta mallaði á grillinu gerði ég kryddjurtamaukið. Ég tók eitt knippi af flatblaða steinselju og hálft af kóríanderlaufi, setti það í matvinnsluvélina ásamt 2 söxuðum hvítlauksgeirum, 1 msk af sítrónusafa, 3 msk af graskersfræjum, 1/2 tsk af þurrkuðu óreganói og dálitlum pipar og salti, maukaði allt saman og þeytti svo 100 ml af ólífuolíu smátt og smátt saman við.
Þegar grænmetið var eiginlega alveg tilbúið setti ég það til hliðar á grillinu, hækkaði hitann og grillaði kóteletturnar við nokkuð góðan hita í um 4 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt.
Ég skipti svo grænmetinu á diska, setti kótelettu ofan á og dreifði dálitlu kryddjurtamauki yfir. Skreytti með kryddjurtum og bar afganginn af kryddjurtamaukinu fram með.
Grillaðar grísakótelettur með kryddjurtamauki og grilluðu grænmeti
fyrir 4
4 grísakótelettur
2 msk ólífuolía
1 msk vínedik eða sítrónusafi
1 tsk óreganó, þurrkað
pipar
salt
*
Grillað grænmeti
2 lítil butternutgrasker eða 1 stórt
1 kúrbítur
4 msk ólífuolía
pipar
salt
*
Kryddjurtamauk
1 knippi flatblaðssteinselja
1/2 knippi kóríanderlauf
2 hvítlauksgeirar
1 msk sítrónusafi
3 msk graskersfræ
1/2 tsk þurrkað óreganó
pipar
salt
100 ml ólífuolía