Ég hef ekki verið mjög virk að blogga að undanförnu en það er svosem ekki vegna þess að ég hafi ekki verið að elda neitt (nema auðvitað þessa sex daga sem ég var í Englandi) – ég hef einmitt verið að gera fullt af skemmtilegum hlutum í eldhúsinu en fæst af því fer hingað inn, allavega á næstunni.
Vandamálið hjá mér hefur stundum verið að koma matnum sem ég er að elda í lóg – ég hef að vísu fengið dálitla hjálp frá fjölskyldunni við það – en sjálf borða ég minna en ég gerði áður, ekki vegna þess að ég sé á neinum sveltikúr, heldur einfaldlega vegna þess að eftir að ég hætti sykuráti hefur matarlystin breyst, ég verð aldrei sársvöng eins og ég varð svo oft áður og borða því bæði oft minni skammta á matmálstímum og fæ mér sjaldnar eitthvað á milli mála (og þá aldrei nammi eða kökur, auðvitað). Ég reikna með að þetta sé vegna þess að nú sé mun betra jafnvægi á blóðsykrinum en áður og minni sveiflur. Allavega finnst mér þetta góð breyting.
Sykurleysi er líklega mun auðveldara fyrir mig en marga aðra af því að ég hef alltaf notað tiltölulega lítið af unnum og tilbúnum matvælum og hef eldað flest frá grunni og þá veit maður jú hvað er í matnum og sleppur meira og minna við allan falda sykurinn. Ég las nýverið að það væri sykur í 80% af öllum matvælum sem fengjust í breskum kjörbúðum, kannski svipað hér. Eins og ég hef margsagt, þá er sykur ekkert eitur, sé neyslan í hófi, og fyrir fæsta er bein ástæða til að hætta öllu sykuráti. Ég hef kosið að gera það vegna þess að ég held að fyrir mig sé það rétt – en það þarf ekkert að gilda um aðra. En hins vegar er sykurneysla margra meiri en þeir gera sér grein fyrir, einmitt út af öllum falda sykrinum.
Af mörgum þeim tilbúnu vörum sem ég þó nota er hægt að finna útgáfur sem innihalda hvorki sykur né sætuefni. Og í sumum tilvikum er einfalt að gera slíka útgáfu heima. Það var einmitt það sem ég gerði um daginn, þegar mig vantaði mangó-chutney. Hér er semsagt uppskrift að mangó-chutneyi án viðbætts sykurs (en með döðlum) sem hægt er að nota í og með allskonar mat; hér hafði ég það með grilluðum fiski, enda birtist uppskriftin fyrst í grillþætti í MAN í vor.
Ég semsagt byrjaði á að búa til chutneyið. Tók til það sem ég ætlaði að nota: eitt vel þroskað mangó, 100 g steinhreinsaðar döðlur, 1/2 stóran rauðlauk (eða 1 lítinn), 2 hvítlauksgeira, 1 límónu, 2 msk af olíu, 4 msk af eplaediki, 1/2 tsk af engiferdufti, 5-6 negulnagla, klípu af chiliflögum og salt.
Ég tók svo mangóið, skar aldinkjötið utan af steininum og skar það svo það í litla bita. Saxaði svo döðlurnar, rauðlaukinn og hvítlaukinn og reif börkinn af límónunni.
Ég hitaði olíuna í potti og lét lauk og hvítlauk krauma við vægan hita í nokkrar mínútur. Setti svo mangó, döðlur og límónubörk út í ásamt edikinu og kreistu safann úr límónunni yfir.
Síðan hrærði e´g engifer, negul, chili og salti saman við og lét malla við hægan hita í um hálftíma.
Ég hrærði í af og til og bætti við vatni eftir þörfum svo að chutneyið brynni ekki við. Tók það svo af hitanum og lét það kólna dálítið. Það má líka setja það beint í krukku, láta kólna alveg og geyma svo í kæli í allt að mánuð.
En ég átti hlýraflak sem ég ætlaði að grilla og hafa með chutneyinu. Það má líka nota steinbít, löngu eða annan fisk sem hentar vel á grillið.
Ég kveikti á grillinu og skar fiskinn í stykki. Blandaði svo saman 3 msk af ólífuolíu, blöðum af nokkrum timjangreinum, pipar og salti í skál, velti fiskinum upp úr blöndunni og lét hann liggja á meðan grillið hitnar.
Ég grillaði svo fiskinn við góðan hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt. Hlýri má alveg fara beint á ristina, hann er það þéttur í sér að hann þarf ekkert að vera í fiskigrind eða neinu slíku.
Svo bar ég fiskinn fram með chutneyinu, ásamt soðnum hrísgrjónum og salati.
Þetta var nú ekkert slæmur matur.
*
Grillaður fiskur með mangó-döðluchutneyi
fyrir 4
700-800 g hlýra- eða steinbítsflök (eða annar hvítur fiskur)
3 msk ólífuolía
nokkrar timjangreinar
pipar
salt
Mangó-döðluchutney
1 mangóaldin, vel þroskað
100 g döðlur, steinhreinsaðar
1 lítill rauðlaukur eða 1/2 stór
2 hvítlauksgeirar
1 límóna
2 msk olía
4 msk eplaedik, eða eftir smekk
1/2 tsk engiferduft
5-6 negulnaglar
klípa af chiliflögum
salt
vatn eftir þörfum
Sæl, með þessa uppskrift væri hægt að sjóða niður chutneyið í krukkuni svo það geymist lengur ? ( mann ekki íslenska orðið en það er preserve á ensku ) Svo að það væri t.d. hægt að gera stóran skammt af þessu og eiga þá bara til mango chutney upp i skáp hálfan veturinn eða svo
Ég hef ekki prófað en held að það hljóti að vera – þetta sem er á myndinni geymdist vel í kæli í nærri tvo mánuði (kannski lengur en þá var það búið). Svo að ég held að það ætti ekki að vera vandamál.
[…] grilla hins vegar mjög oft fisk nú orðið, eins og dæmi var umí gær, og ekki síður alls konar grænmeti. Það er nefnilega hægt að grilla flest grænmeti ef […]