Kaka á grillið

Ég hef ekkert skrifað hér að undanförnu því ég var í Oxford (seinasta færsla var reyndar skrifuð þar) þar sem ég sótti árlega matarráðstefnu og slæptist svo í nokkra daga á eftir – það var afskaplega skemmtilegt og notalegt og mikið af góðum mat.

Á ráðstefnunni var suðurfranskur kvöldverður á föstudag (salat með sniglum og andahjörtum, besta cassoulet sem ég hef fengið og eplakaka á eftir; í hádeginu á laugardag var útkomu bókarinnar The Oxford Companion to Sugar and Sweets fagnað (það kom mér töluvert á óvart að sjá að mín er getið í bókinni) og ég hélt nú reyndar fyrirfram að þar yrði kannski fátt sykurlaust svo ég þyrfti að taka með nesti – en forrétturinn var góðgæti eins og skötuselslifur, úrvalsgóðar sardínur, blekfiskur og fáfnisskel og með þessu var grænt salat og kex eða hrökkbrauð með súkkulaðinibbum. Aðalrétturinn var svo kornhæna með súkkulaðisósu (sem var ekkert sæti svo ég gat nú alveg borðað hana) og eftirrétturinn var svo hrikalega girnilegur súkkulaðihleifur með meðlæti – það er ekki oft sem ég óska þess að ég væri ekki alveg hætt í sykrinum en það gerðist þarna. Jú, ég smakkaði eina teskeið en meira var það ekki og ég var dálítið ánægð með sjálfa mig.

_MG_0128

Á laugardagskvöldið var svo sikileysk veisla þar sem fyrst voru litlar djúpsteiktar hrísgrjónabollur, svo afskaplega góð baunasúpa, þá lambakjötsbaka og seinast melónuhlaup. Og þessu lauk svo með grískum hádegisverði á sunnudeginum; hann var í umsjón Aglaiu Kremezi, sem ég leitaði til þegar ég var með grískt þema í MAN í fyrra og hef birt ýmsar uppskriftir frá hér. Þar var boðið upp á bakað grænmeti og ólífur, taramasalata, hummus, ansjósur, baunir með ristaðri ólifubrauðmylsnu og eitthvað fleira – og svo gríska osta, gríska jógúrt og sultaða ávexti á eftir  – og í þessu tilviki borðaði ég hluta af eftirréttinum með bestu lyst en lét eftirrétti annars eiga sig nema rétt til að smakka. Það var ekki erfitt þótt þeir væru girnilegir  – nema semsagt í súkkulaðimáltíðinni …

Þetta var allt afskaplega gott og ráðstefnan sjálf skemmtileg og fróðleg eins og venjulega. Og svo flutti ég mig yfir á gott hótel í miðbænum og eyddi nokkrum dögum í að rölta um, skoða slóðir þeirra Morse lögregluforingja og Lewis (og rakst meira að segja á Lewis og Hathaway, það var verið að taka upp nýjan þátt:

_MG_0791

En allavega, fyrst ég fékk næstum enga eftirrétti í Oxford (og saknaði þeirra ekkert að ráði, það er ekki eins og ég borði deserta dagsdaglega), þá er hér uppskrift. Sykurlaus semsagt. Þetta er kaka og bara hægt að baka hana og bera hana fram þannig en ég skar hana svo í sneiðar, penslaði með sultu án viðbætts sykurs og grillaði – þetta var jú fyrir grillblað MAN. En það má líka nota venjulega sultu.

_MG_6420

Ég byrjaði á að hita ofninn í 170°C. Svo flysjaði ég einn stóran, vel þroskaðan banana (eða tvo litla) og eina vel þroskaða peru, skar þetta í bita og maukaði í matvinnsluvél. Skar svo 75 g af (frekar linu) smjöri í bita og setti út í, ásamt þremur eggjum og einni teskeið af vanilluessens, og lét vélina ganga þar til blandan var slétt.

_MG_6421

Ég bætti svo við 225 g af heilhveiti (eða venjulegu hveiti) og einni teskeið af lyftidufti og blandaði þessu saman við. Hellti deiginu svo í pappírsklætt (eða smurt) meðalstórt jólakökumót og bakaði á neðstu rim  í ofninum um 35 mínútur, eða þar til prjónn sem ég stakk í hana kom hreinn út. Ég lét kökuna kólna í forminu. Hún seig dálítið saman en það er eðlilegt, hún á að vera frekar þétt.

_MG_6586

Svo hitað ég grillið (það má líka nota grillpönnu). Skar svo kökuna í um 1 cm þykkar sneiðar – mér finnst best að skera hana eftir endilöngu en það má líka skera hana þvert yfir – og smurði þær á báðum hliðum með apríkósusultu frá St. Dalfour, ég held ég hafi notað svona 150 ml alls. Ég raðaði svo sneiðunum á grillið og grillaði þær við meðalhita. Sneri þeim þegar þær voru farnar að taka lit og grillaði á hinni hliðinni.

_MG_6605

Á meðan hrærði ég saman 200 ml af sýrðum rjóma (36%) og rifinn börk af einni límónu og bar svo kökusneiðarnar fram heitar með ferskum berjum – ég átti bláber en það má líka nota önnur. Svo mætti hafa þeyttan rjóma eða ís í staðinn fyrir límónurjómann.

_MG_6644

Og svo er auðvitað hægt að bera fram hunang með fyrir þá sem vilja hafa þetta sætara …

*

Grilluð bananakaka með berjum og límónurjóma

1 stór banani, vel þroskaður eða 2 litlir

1 pera

75 g smjör

3 egg

1 tsk vanilluessens

225 g heilhveiti eða hveiti

1 tsk lyftiduft

*

150 ml apríkósusulta (ég notaði St. Dalfour)

200-400 g bláber (eða önnur ber eða ávextir)

200 ml sýrður rjómi, helst 36%

fínrifinn börkur af 1 límónu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s