Ég va uppi á Akranesi í gær að elda írskan mat fyrir hóp af fólki í tilefni af Írskum dögum. Ég ætla nú ekki að gefa mig út fyrir átorítet um írska matargerð en ég á slatta af bókum um það efni, meðal annars bækur eftir Darinu Allen, sem er helsta matargúrú þeirra Íra og rekur matreiðsluskóla í Ballycotton – ég hitti hana í Oxford í fyrra og hlustaði á hana flytja áhugavert erindi þar – og studdist við uppskriftir frá henni.
Ég bauð upp á kartöflusúpu með kryddjurtum, Bally- eitthvað fish pie (ég rugla öllum þessum írsku Bally- og Kil- nöfnum alltaf saman) með löngu, steinbít, þorski, laxi, reyktri ýsu, harðsoðnum eggjum og kartöflustöppu, og svo nautakjötspottrétt mallaðan í Guinness og kartöflustöppu bragðbætta með sölvum með. Hefði kannski frekar átt að vera colcannon en ég fékk ekkert heppilegt kál. Eftirrétturinn var impróvíseraður – eða reyndar samsettur úr nokkrum írskum uppskriftum, Irish Coffee-búðingur/trifli með (misheppnuðu) Yellow Man stráðu yfir.
Allt í lagi með bragðið samt en til að flikka upp á útlitið bætti ég við jarðarberjum. Og af því að það var náttúrlega góður slatti af írsku viskíi í þessu og sumir voru að keyra heim bætti ég við óáfengri útgáfu. Og sykur- og glútenlausum desert fyrir þannig þenkjandi. En áfengi eftirrétturinn, sem var í langstærstu skálinni, kláraðist náttúrlega fyrst.
En ég bakaði líka írskt sódabrauð, sem er nú eitt það einfaldasta sem hægt er að baka, og hér er uppskrift að því.
Ég gerði þrenns konar brauð en allar útgáfurnar voru eins í grunninn – byrjaði á kveikja á ofninum og stilla hann á 230°C og svo blandaði ég saman 500 g af heilhveiti, 500 g af hveiti, 2 kúfuðum teskeiðum af salti og 2 kúfuðum teskeiðum af matarsóda. Það er líka hægt að nota bara hvítt hveiti.
Þegar ég segi kúfuð meina ég ekki ,,eins kúfuð og mögulega er hægt að hafa hana“ heldur meira svona.
Svo hellti ég svona 750 ml af súrmjólk rólega saman við og lét vélina ganga á meðan. Deigið á að vera rakt en ekki klesst og það má bara bæta við meiri súrmjólk eða hveiti eftir þörfum. Best samt að hræra sem minnst.
Ég gerði þrjá skammta af deiginu, einn var bara svona eins og lýst er hér fyrir ofan, ég saxaði dálítið timjan og hrærði saman við annan skammt en fyrir þann þriðja tók ég væna lúku af sölvum (svona hálfan poka) og saxaði (eða klippti) smátt.
Svo hrærði ég þessu saman við.
Hnoðaði þetta svo saman og skar í tvennt.
Svo mótaði ég hvorn helming um sig í hringlaga brauð, um 5 cm þykkt, setti þau á pappírsklædda bökunarplötu og skar svo djúpan kross í þau. Þetta er alltaf gert við írskt sódabrauð; sumir segja að þetta sé til að blessa brauðið, aðrir að það sé til að hleypa álfunum eða djöflunum út og leggja mikla áherslu á að það eig að passa að hafa endana á skurðunum sérlega djúpa svo að djöflarnir (eða álfarnir eða hvað það nú er) renni örugglega út úr brauðinu. En sannleikurinn er náttúrlega sá að brauðið bakast betur með þessu móti og það er auðveldara að skera það (það er brotið í fjóra parta og hver hluti um sig skorinn í sneiðar).
Brauðin þurfa ekkert að lyfta sér, ég setti þau í ofninn um leið og hann var nógu heitur og bakaði þau í um 15 mínútur. Þá lækkaði ég hitann í 200°C og bakaði í 20 mínútur i viðbót, eða þar til holt hljóð heyrðist þegar bankað var í botninn á brauðinu (þau gætu þurft svona 5 mín. lengri tíma en þetta dugði allavega núna).
Og þarna er sölvabrauðið semsagt. Gróft, heimilislegt og frekar mikið írskt. Og svo bakaði ég semsagt tvö timjanbrauð og tvö einföld heilhveitibrauð í viðbót.
*
Írskt sódabrauð
500 g heilhveiti
500 g hveiti
2 kúfaðar tsk salt
2 kúfaðar tsk matarsódi
750 ml súrmjólk, eða eftir þörfum
*
230°C í um 15 mínútur, svo 200°C í 20-25 mínútur.
Hvernig geymast sódabrauð ? Ef ég baka nokkur og ætla að nota út vikuna ??
Þau geymast nú ekkert sérstaklega vel. Ætti þó að mega geyma þau (vafin í plast) í 1-2 daga en annars er best að frysta þau.