Ég er komin í sumarfrí og verð það næstu viku – mér finnst alltaf betra að skipta sumarfríinu mínu í búta, það á ekki við mig að vera margar vikur samfleytt í fríi og ég er heldur ekkert háð öðrum um hvenær ég tek frí – enginn eiginmaður eða börn sem þarf að samræma fríið við. Svo að meirihluta frísins tek ég í fernu lagi og nota í utanlandsferðir – Róm í vor, Oxford núna á næstu dögum, Porto í haust, eitthvað annað um jólin. Og svo tek ég dag og dag inn á milli ef ég skrepp norður í Skagafjörð eða þarf eitthvað að erinda (eða jafnvel ef veðrið er sérlega gott, en það hefur nú lítið reynt á það í sumar, enn sem komið er að minnsta kosti).
Þetta frí núna fer samt mest í að hugsa um mat og borða mat, ég er jú að fara á matarráðstefnu og ætla svo að njóta lífsins í Oxford í nokkra daga á eftir og þar er hægt að finna ýmislegt gott að borða. Ekki svo mikið að elda mat. Nema á morgun reyndar, þá ætla ég að elda einhvern helling. En annars er ég bara að tæma ísskápinn sem mest áður en ég fer, þ.e. af því sem ekki geymist þar til ég kem aftur, þetta er nú ekki langur tími. Ég fékk til dæmis fjölskylduna í mat um helgina, grillaði lambalæri og hafði með því bakað grænmeti, samsafn sem var í annarri grænmetisskúffunni í ísskápnum:
Ef ég man rétt voru þetta þrjár mismunandi tegundir af kartöflum, venjulegar gulrætur (litlar og stórar), fjólubláar gulrætur, ein einmana nípa, einn butternut – og svo bættist við seinna blómkál en það þarf styttri tíma í ofninum og er þess vegna ekki á fjölskyldumyndinni, sem var tekin áður en grænmetið fór í ofninn. Svo að nú eru grænmetisskúffan með harða grænmetinu meira og minna tóm en það er eitt og annað enn í skúffunni með mýkra/viðkvæmara grænmetinu og ég þarf að nota það áður en ég fer út (og gefa syninum það sem ég kem ekki í lóg). Ég gæti þá til dæmis gert eitthvað á þessum nótum – þetta er uppskrift sem ég var með í maíblaði MAN.
Ég elda líklega ekkert mjög oft pasta – kannski samt ívið oftar en venjulega núna að undanförnu, það eru sennilega áhrif frá Rómarferðinni í vor – en þegar ég geri það er pastanu sjaldnast drekkt í rjóma- eða rjómaostssósum (nema kannski í bökuðum eða gratíneruðum pastaréttum) og yfirleitt er pastað sjálft aðalatriðið, sem er nú stundum ekki í íslenskum pastauppskriftum. Ég man að fyrir mörgum árum sá ég uppskrift að svokölluðum pastarétti í einhverju blaði en þegar ég las niður langan hráefnislistann var ég farin að halda að pastað hefði gleymst og þegar ég reiknaði saman hráefnið var pastað (100 grömm eða svo) vel innan við 1/10 af hráefninu. Og það er nú vafasamt að kalla slíkt pastarétt.
Satt að segja er ég mest fyrir mjög einfalda pastarétti eins og cacio e pepe eða aglio et olio. Þessi hér er aðeins flóknari – en samt ekki, það eru bara aðeins fleiri hráefni. Matreiðslan er mjöög einföld.
Ég byrjaði á að hita vatn (svona 3 lítra) í stórum potti og salta. Setti svo 350-400 g af tagliatelle út í, lét suðuna koma upp aftur og lét svo pastað sjóða án loks í 10 mínútur (eða eftir leiðbeiningum á umbúðum. Suðan ætti að vera nokkuð rösk eða allavega stöðug, þetta á ekki að malla. Og nei, það á ekki að setja olíu út í.
Á meðan (eða það er líklega best að byrja á þessu um leið og byrjað er að hita pastavatnið) bræddi ég 25 g af smjöri á pönnu. Skar svo 250 g af kastaníusveppum (mega vera venjulegir) í sneiðar og lét þá svo krauma í smjörinu í nokkrar mínútur, ásamt 2 smátt söxuðum hvítlauksgeirum og hvíta hlutanum af 3-4 vorlaukum (líka söxuðum).
Ég skar 4-5 vel þroskaða tómata í bita og setti þá á pönnuna, ásamt 2 msk af furuhnetum, og steikti þetta í 3-4 mínútur í viðbót við meðalhita.
Ég tók svo 250 ml af heitu vatni (notaði reyndar bara pastasoðið, það er ekki verra, en þá er nú best að nota ekki hitaveituvatn til að sjóða pastað), hrærði 1 tsk af grænmetisteningi saman við, hellti þessu svo yfir grænmetið á pönnunni og hitaði að suðu. Kryddaði með salti og pipar.
Ég átti svona 150 g af sykurbaunum sem ég skar niður og setti út í en það má alveg sleppa þeim (þær eru frekar dýrar) eða nota eitthvert annað hentugt grænmeti – reyndar er tilvalið að nota ýmiss konar ísskápsafganga í þennan rétt en þá þarf kannski að setja grænmetið út í fyrr, eftir því hvað það þarf langa suðu. Sykurbaunirnar þurfa mjög stutta suðu, ég lét þetta sjóða rösklega í 2-3 mínútur.
Þá bætti ég 150 g af spínati, grænu blöðunum af vorlauknum og 1/2 knippi (lófafylli) af basilíkublöðum á pönnuna og hrærði vel.
Svo skar ég 50 g sneið af köldu smjöri og setti á pönnuna …
… og hrærði þar til smjörið var bráðið og hafði myndað sósu með soðinu.
Pastað var einmitt hæfilega soðið og ég hvolfdi því í sigti og lét renna af því, hvolfdi því svo á pönnuna, blandaði vel og hellti svo öllu saman í skál (en það má líka setja pastað í skál, hella öllu af pönnunni yfir og blanda).
Svo er bara að rífa dálítinn parmesanost yfir, skreyta með basilíku og bera fram með meiri parmesanosti og e.t.v. hvítlauksbrauði eða ristuðum baguettesneiðum.
Pasta með sveppum og grænmeti
350 g tagliatelle
salt
75 g smjör, kalt
250 g kastaníusveppir (eða venjulegir), skornir í sneiðar
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
3-4 vorlaukar, saxaðir
4-5 tómatar, vel þroskaðir, skornir í bita
2 msk furuhnetur
250 ml soð (vatn og grænmetiskraftur)
pipar
150 g sykurbaunir, skornar í bita (má sleppa)
150 g spínat
1/2 knippi basilíka
parmesanostur