Það gerist varla einfaldara

Ég er að fara til Oxford eftir nokkra daga, á árlega matarráðstefnu sem ég hef sótt í nokkur ár og finnst alltaf jafngaman. Fjölmörg skemmtileg og mjög áhugaverð erindi, fullt af frábæru fólki og miklar matarveislur – hvað vill maður hafa það betra? Og svo ætla ég að stoppa aðeins í Oxford eftir ráðstefnuna og slappa af. Ég kann vel við mig í Oxford og það er held ég ekki líkt því eins mikið af morðum þar og mætti ætla ef maður hefur horft mikið á Morse og Lewis.

Uppskriftin í dag er einmitt sniðin eftir forrétti sem ég fékk á veitingahúsi í Oxford þegar ég var þar eftir ráðstefnuna í fyrrasumar. Þetta er afskaplega einfaldur, fljótgerður og gómsætur réttur en auðvitað fer það eftir hráefninu sem notað er – það er um að gera að nota góða hráskinku og mátulega ofþroskaðar nektarínur  (mættu reyndar líka vera ferskjur). Þær þurfa að vera mjúkar og sætar og helst svo safaríkar að safinn leki úr þeim. Eða mér finnst það best. Og þá er reyndar varla hægt að skera þær, mér finnst líka best að rífa þær í sundur og þannig fékk ég þær líka í Oxford.

Aðalbreytingin sem ég gerði var að ég notaði makadamíuhnetur af því að á veitingastaðnum í Oxford voru mjög góðar möndlur í réttinum, ferskar (ekki þó grænar) og sumar enn í skelinni:

_MG_7894

Svoleiðis fær maður ekki hér, eða ég hef ekki rekist á þær allavega, og engar verulega góðar möndlur, svo að ég ákvað að nota makadamíuhnetur í staðinn. En það má auðvitað alveg nota heilar möndlur.

Ég gerði þennan rétt svo fyrir afmælisblað MAN í fyrrahaust. Tók reyndar engar myndir af undirbúningnum en hann er nú hvort eð er nánast enginn. Uppskriftin er miðuð við svona 8 manns og þá er þetta léttur forréttur en það má nota meira eða minna eða hafa þetta t.d. sem einn af nokkrum réttum á hlaðborði eða í sumarbröns._MG_8400 - Version 2

Serranosalat með nektarínum

300 g spænsk serrano-hráskinka (eða önnur góð hráskinka)

4-6 nektarínur (eftir stærð), vel þroskaðar og mjúkar

75 g makadamíuhnetur eða heilar, afhýddar möndlur

nýmalaður pipar

e.t.v. basilíka

_MG_8382

Ég reif skinkuna niður og dreifði henni á bakka eða fat. Svo reif ég (eða skar) nektarínurnar í sundur og fjarlægði steininn. Svo reif ég þær í bita og dreifði yfir skinkuna. Grófsaxaði hneturnar og dreifði þeim yfir og malaði svo dálítinn pipar yfir allt saman. Skreytti með basilíku (má sleppa) og bar salatið fram með góðu brauði.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s