Það er komið sumar, loksins. Fyrir utan annað fannst það sannarlega á grillilminum um kvöldmatarleytið og þó efast ég stórlega um að miðbærinn sé mesta grillhverfið – sagan segir að önnurhver íbúð á þessum slóðum sé leigð út til ferðamanna og ekki held ég að þeir séu mikið að grilla.
En sólin skein, það vantaði ekki. Og íslenskt sumarsólskin er sannarlega fallegt, hvort sem er að morgni dags, um hádaginn, þegar fer að kvölda eða bara um miðja nótt. Eins og á þessari mynd, sem ég tók hér niður við sjó rétt fyrir miðnætti að kvöldi Jónsmessudags.
Miðnætursól og grill, getur það verið íslenskara?
En ég grillaði á dögunum nautalund og hafði með henni sveppasósu, steiktar kartöflur og byggsalat og hér er uppskriftin.
Ég byrjaði á að tala nautalund – þýska minnir mig – sem ég hafði látið þiðna í ísskápnum. Hún var ekki heil, vantaði þykkasta hlutann (ég notaði hann í annað) en var líklega um 1 kg. Ég snyrti hana og skar burt allar himnur.
Svo hellti ég 2-3 msk af olíu í eldfast mót, setti lundina út í og velti henni upp úr olíunni til að þekja hana.
Blandaði svo saman í skál 1 msk af sinnepsdufti, 1 1/2 tsk af salti og 1 tsk af nýmöluðum svörtum pipar. Sinnepsduft frá Colemans fæst í sumum búðum en það má líka mala mustarðskorn (sinnepsfræ). Svo má auðvitað hræra dijonsinnepi, pipar og salti saman við olíuna og maka því á lundina en það verður ekki eins.
Stráði þessu jafnt yfir lundina og lét hana liggja í allavega hálftíma við stofuhita, ekki í kæli. Á meðan hitaði ég grillið nokkuð vel.
Svo braut ég mjóa endann inn undir lundina svo að þykktin yrði sem jöfnust og tyllti henni með kjönál – það má líka nota tannstöngul eða binda með garnspotta. Lækkaði svo hitann á miðjubrennaranum eins og mögulegt var en hafði góðan hita á hinum, setti lundina í miðjuna og lokaði grillinu.
Sneri henni svo á svona 5 mínútna fresti og grillaði á fjórum hliðum, semsagt í um 20 mínútur alls (ég og gestirnir viljum öll helst frekar rautt kjöt en það er smekksatriði, best að nota kjöthitamæli til að vera viss). Það er líka svo margt sem getur haft áhrif á grilltímann, eins og hitinn á grillinu, veðurskilyrði, þykktin á lundinn og fleira. Ég hafði grillið lokað á meðan; ef það er með hitamæli er best að hann sýni sem næst 200°C.
Á meðan sauð ég kartöflur og perlubygg (ég er mjög hrifin af því um þessar mundir). Og af því að aðalsveppahatarinn í fjölskyldunni var ekki í mat og það er kominn nýr sveppaelskandi í hópinn, þá hafði ég keypt eitthvað 700 g af sveppum – frekar litlum, ekki alveg nýjum, þeir verða bragmeiri og betri með aldrinum. Ég hreinsaði þá og skar þá í tvennt, nema þá allra minnstu. Ég skar líka tvo hvítlauksgeira og nálar af einni rósmaríngrein smátt.
Svo bræddi ég 50 g af smjöri á pönnu, setti sveppina á hana ásamt hvítlauk, rósmaríni, pipar og salti og lét krauma við meðalhita þar til sveppirnir höfðu tekið góðan lit. Þá hellti ég skvettu af calvadosi á pönnuna (eða koníaki eða öðru, en það má líka alveg sleppa þessu) og lét sjóða niður og bætti svo við 250 ml af vatni og 1 tsk af grænmetiskrafti, ásamt pipar og salti. Lét þetta sjóða aðeins niður og bætti að lokum 250 ml af rjóma á pönnuna og lét sjóða nokkrar mínútur, þar til hún hafði þykknað dálítið.. Svo smakkaði ég sósuna, bætti við ögn af pipar og salti og nokkrum dropum af sósulit.
Lundin leit ágætlega út að utan og hitamælirinn sem ég stakk í miðjuna sýndi 49°C, sem er nú líklega of lítið fyrir suma; 54°C eða svo ætti að duga fyrir medium rare. Ég tók hana af grillinu og fór með hana inn, setti hana á bretti, breiddi álpappír lauslega yfir og handklæði þar yfir til að halda á henni hita og lét hana standa í 10 mínútur. Alls ekki styttri tíma. Ég hafði hitamælinn kyrran í henni og hann fór upp í 54°C á biðtímanum.
Á meðan tók ég kartöflurnar, þegar þær voru mátulega soðnar, skar þær í tvennt því þær voru frekar litlar, annars í fernt, hitaði dálitla olíu á pönnu og steikti kartöflurnar, kryddaðar með pipar og salti, þar til þær voru fallega gullinbrúnar.
Svo blandaði ég hálfri dós af smjörbaunum – ekki þessum stóru hvítu, heldur minni grænum (Green lima beans, en svo má líka nota aðrar tegundir af baunum eða sleppa þeim alveg) – saman við byggið, ásamt 2 msk af ólífuolíu, svolitlum sítrónusafa, pipar og salti, og stráði svo vænni lófafylli af salatblöðum yfir og blandaði lauslega. Það er best að byggið sé ekki sjóðheitt því þá sölnar salatið.
Ég skar svo kjötið í sneiðar og bar fram með sveppunum og sósunni, steiktu kartöflunum og byggsalatinu.
Kjötið var steikt alveg eins og ég vildi það – jafnrautt í gegn en hvergi blátt eða hálfhrátt. Mmm.
*
Grilluð nautalund með sveppum, steiktum kartöflum og byggsalati
1 kg nautalund
2 m
1 msk sinnepsduft
1 1/2 tsk salt, eða eftir smekk
1 tsk pipar
*
Sveppasósa
700 g sveppir
1 rósmaríngrein
2 hvítlauksgeirar
50 g smjör
1-2 msk calvados eða koníak (má sleppa)
250 ml vatn
1 tsk grænmetiskraftur
pipar
salt
250 ml rjómi
svolítill sósulitur
*
Steiktar kartöflur
700 g kartöflur, helst litlar
olía til steikingar
pipar og salt
*
Byggsalat
150 ml perlubygg
350 ml vatn
salt
1/2 dós grænar smjörbaunir (eða aðrar baunir)
2 msk ólífuolía
svolítill sítrónusafi
pipar og salt
væn lúka af salatblöðum