Kjúklingur fyrir vorið sem aldrei kom

Það var nú ekki mikið vor þetta árið, sjáum til hvað verður úr sumrinu. En jafnvel í venjulegu ári er hugtakið vorgrænmeti, sem maður grípur á lofti úr ótal útlendum matreiðslubókum og blöðum, dálítið erfitt viðfangs hérlendis. Það er ekki margt sem hér vex sem hægt er að uppskera á vorin, ekki nema gróðurhúsagrænmeti sem er líka fáanlegt mestallt eða allt árið, og þótt ýmislegt gott grænmeti sem gaman er að elda úr sé svosem til, bæði á vorin og á öðrum árstímum, þá er mest af því innflutt og sumt flutt með flugvélum yfir hálfan hnöttinn, sem er ekki alveg sama og að vera með nýja uppskeru úr garðinum sínum eða af markaðnum.

Á vorin og snemma sumars öfunda ég oft erlenda vini og kunningja sem eru að segja frá og sýna á Facebook og Twitter og bloggum og annars staðar eitthvað sem þeir eru að elda úr nýja vorgrænmetinu. Sumt af þessu get ég alveg gert líka og notað innflutt grænmeti en það er ekki það sama (og heldur ekki eins ferskt og gott, auðvitað).

Ég gerði vorþátt fyrir maíblað MAN og þar var ég nú að reyna að gera eitthvað vorlegt. Þar á meðal var þessi kjúklingaréttur, sem er með ,,vorgrænmeti“ eða kannski meira eftirlíkingu af því; ég notaði allavega eitthvað sem mundi flokkast sem vorgrænmeti í mörgum öðrum löndum. Þar á meðal var spergilkál (en reyndar kemur nú íslenskt spergilkál á markaðinn snemma sumars, bara ekki á vorin), sykurbaunir og svo dvergspergill, en spergill tengist alveg sérstaklega vorinu víða í Norður-Evrópu. Ég keypti dvergspergil sem var fluttur inn frá einhverju suðlægu landi, kannski á sunnanverðum hnettinum meira að segja, ég man það ekki. Hann var alveg í lagi en ekki eins og nýupptekinn spergill, því fór fjarri.

Spergill – hvort sem hann er fluttur um lengri eða skemmri veg – er náttúrlega dýr og fæst auk þess ekki mjög víða. Það má alveg sleppa honum í þessum rétti og nota e.t.v. aðeins meira af baunum. Eða bara eitthvert annað grænmeti, t.d. gulrætur skornar í ræmur og soðnar.

Ég byrjaði á að setja upp bygg til suðu í léttsöltuðu vatni. Ég var með perlubygg frá Móður jörð í Vallanesi; bragðgott og þarf ekki nema svona 15 mínútna suðu. En það má líka nota venjulegt bygg, það þarf bara lengri suðu (40-45 mínútur) eða þá hrísgrjón. Ég kveikti líka á ofninum og stillti hann á 180°C.

_MG_4327

Svo tók ég kjúklingabringur, 3-4 meðalstórar. Blandaði saman 2 msk af heilhveiti (eða hveiti eða öðru mjöli eftir behag), dálitlum pipar og salti á diski, sem þarf ekkert endilega að vera merktur Kaupfélagi Skagfirðinga eins og þessi hér. Velti svo bringunum upp úr heilhveitinu og þrýsti þeim vel niður í það til að það festist betur við – og það er best að bringurnar séu ekki þurrar að utan, þá tollir lítið við þær.

_MG_4330

Svo hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu og brúnaði bringurnar vel við nokkuð góðan hita. (Það skal tekið fram að þegar ég tók myndirnar var ég bara með tvær bringur en uppskriftin er samt fyrir fjórar.)

_MG_4331

Þegar bringurnar voru orðnar fallega brúnar setti ég þær  í eldfast mót (gott að hita það áður) og bakaði þær í ofninum í um 15 mínútur.

_MG_4333

Ég setti 3 msk af ólífuolíu, safa úr 1/2 sítrónu, 1 tsk af dijonsinnepii og smátt söxuðu grænu blöðin af 1 vorlauk í skál ásamt ögn af pipar og salti og hrærði vel saman.

_MG_4336

Svo hitaði ég dálítið saltvatn í potti, setti 200 g af dvergspergli og 200 g af spergilkáli, skornu í litla kvisti, út í og lét sjóða í 3 mínútur.

_MG_4337

Þá bætti ég 200 g af sykurbaunum í pottinn og sauð grænmeti í 2 mínútur í viðbót. Þá hellti ég því í sigti og setti það snöggvast undir kalda kranann til að stöðva suðuna. Hvolfdi því svo í skál, hellti sinnepssósunni yfir og blandaði vel. Það hefði reyndar verið gáfulegra að gera sósuna í aðeins stærri skál og hvolfa grænmetinu bara út í hana, það hefði sparað uppþvott á einni skál … en ég er nú ekki alltaf mjög gáfuð. Svo má reyndar líka sleppa þessu og hella sósunni bara yfir grænmetið þegar það er komið á diskinn.

_MG_4338

Allavega, þá setti ég byggið á fat (eða diska). Ég sýð það í hrísgrjónasuðupotti og það er aldrei neinn vökvi eftir en ef það er soðið í potti á venjulegan hátt getur verið betra að hella því í sigti og láta renna af því. Svo dreifði ég grænmetinu yfir og ef maður er í skapi til þess (og ætlar að taka mynd) er flott að raða því ofan á.

_MG_4346

Og svo er bara að taka kjúklingabringurnar þegar þær eru tilbúnar og leggja ofan á.

_MG_4369

Vorlegt? Ég veit það ekki. En grænt allavega. Og alveg ljómandi gott.

*

Kjúklingabringur með perlubyggi og vorgrænmeti

200 g perlubygg (eða venjulegt bygg)

3-4 kjúklingabringur

2-3 msk heilhveiti

pipar

salt

1 msk olía

1 msk smjör

200 g dvergspergill

200 g spergilkálskvistir

200 g sykurbaunir

3 msk ólífuolía

safi úr ½ sítrónu

1 tsk dijonsinnep

grænu blöðin af 1-2 vorlaukum, söxuð smátt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s