Til hamingju með daginn, konur og karlar.
Ég ætti kannski að vera einhvers staðar úti í bæ á samkomu eða einhverri uppákomu í tilefni dagsins en ég lét nægja að fara í kirkjugarðinn og hugsa um konur sem þar liggja; konur sem lögðu mikið til kvennabaráttunnar og konur sem fengu ekki tækifæri til þess því þær dóu ungar; konur sem fengu kosningarétt vegna eigin baráttu eða annarra og konur sem lifðu það ekki að fá hann, eins og hún amma mín sem dó 23 ára en þá var kosningaréttur miðaður við 25 ár. Og svo fór ég heim og horfði á dagskrána í sjónvarpinu og bakaði köku til að minnast þessara kvenna og annarra.
Einhverjum finnst kannski asnalegt að kona skuli standa í eldhúsinu og baka köku á þessum degi. En í fyrsta lagi var þetta nú mjög fljótbökuð kaka og í öðru lagi er bara ekkert endilega ókvenréttindalegt að baka ef maður hefur gaman af því. Og það rifjaðist upp saga sem ég setti á gamla bloggið mitt fyrir óralöngu:
,,Rétt eftir að Matarást kom út á sínum tíma var hringt í mig í vinnuna snemma dags. Á línunni var þekkt últrahægrikona sem hafði lesið fréttatilkynningu um bókina í Mogganum þá um morguninn og fyllst þvílíkri gleði að hún gat ekki beðið með að segja mér hvað þetta væri glæsilegt framtak hjá mér. Reyndar komst ég aldrei að því hvort konan hafði nokkurn áhuga á matargerð yfirhöfuð, enda var það ekki tilefni hrifningar hennar; brátt kom í ljós að hún var þeirrar skoðunar að þetta væri bók þar sem hefðbundið húsmóðurhlutverk – þar með talið auðvitað eldamennska – væri hafið til skýjanna, og innan tveggja mínútna hafði lofræða konunnar snúist upp í reiðilestur um rauðsokkur og annan slíkan lýð sem væri jafnvel fylgjandi fóstureyðingum; það var greinilegt að hún gekk út frá því vísu að þar sem ég hefði skrifað matreiðslubók hlyti ég að vera á sama máli.
Ég tók þann kost að þegja; ég er ekki mikið fyrir konfrontasjónir, allra síst þær sem ég veit fyrirfram að yrðu tilgangslausar með öllu, og á endanum kvöddumst við með virktum, ég og frúin.“
En æ, ég veit ekki. Kannski er ég bara svona reglulega kvenleg í eðli mínu. Og hér er allavega kvenréttindakakan mín. Kvenréttindarúllutertan, nánar tiltekið. Sykurlaus og reyndar glútenlaus líka. Ég verð að fara að hætta þessu glútenleysi, fjandinn hafi það (en það er reyndar oftastnær óvart).
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 210°C. Fyrir svona köku er mikilvægt að ofninn hafi náð réttum hita þegar kakan fer í ofninn og deigið er það fljótgert að ég byrja ekkert á því fyrr en ofninn hefur náð fullum hita. Stundum skiptir þetta engu máli, mörg kökudeig þola alveg einhverja bið (samt helst ekki ef lyftiefnið er matarsódi, því hann byrjar að vera við samspil vökva og sýru en ekki vökva og hita eins og lyftiduft), en svona þeytt deig á ekki að bíða.
Svo braut ég tvö egg í hrærivélarskálina og setti hana af stað á fullum hraða.
Svo tók ég krukku af St. Dalfour-sultu, sem er a) mjög góð sulta og b) inniheldur eingöngu ávexti og ávaxtaþykkni, engan hvítan sykur, mældi 100 ml (1 dl) og þeyttu saman við eggin. Ég notaði apríkósusultu en það má nota aðrar tegundir. Þeytti þetta áfram í nokkrar mínútur, þar til blandan var létt og ljós (eða það fer náttúrlega eftir sultutegundinni hve ljós hún verður).
Svo blandaði ég 85 g af möndlumjöli, 25 g af kartöflumjöli og 1 tsk af lyftidufti vel saman í skál, setti út í eggjahræruna og blandaði gætilega saman við með sleikju.
Ég var búin að setja bökunarpappír á bökunarplötu og brjóta upp á kantana til að fá bréfform sem var 33 x 28 cm (má vera aðeins minna, t.d. 30 x 25 cm) nú hellti ég deiginu strax í það og sléttaði úr því með sleikju – það þarf ekkert að vera rennislétt en þarf að ná út í kantinn alsstaðar.
Ég setti plötuna á næstefstu rim í ofninum. Byrjaði á að stilla klukkuna á sex mínútur en rúllutertubotninn var reyndar bakaður eftir fimm – það er um að gera að fylgjast bara með honum.
Ég hvolfdi rúllutertubotninum á aðra pappírsörk, losaði þá sem ég bakaði hann á gætilega af og rúllaði svo botninum upp inni í hinni örkinni og lét hann kólna; það tók ekkert langan tíma.
Á meðan gerði ég kremið. Ég setti 250 g af mascarponeosti (1 dós) í matvinnsluvélina, ásamt sjö steinhreinsuðum döðlum og einni teskeið af vanilluessens og lét vélina ganga þar til kremið var slétt og mjúkt.
Þá rúllaði ég sundur botninum og smurði kreminu jafnt á hann, nema ég skildi eftir svona 2 cm á annarri langhliðinni.
Svo dreifði ég svona 200 g af bláberjum yfir kremið og rúllaði botninum upp – byrjaði á langhliðinni þar sem kremið var alveg út á brún.
Að lokum setti ég rúllutertuna á fat, penslaði hana með dálítilli sultu og stráði ögn af möndlumjöli yfir.
Það mætti áreiðanlega líka nota önnur ber eða ávexti. En bláberin eiga bara svo fjári vel við. (Og svo má sleppa berjunum.)
Ég veit ekki hvað formæðrum mínum, sem fengu kosningarétt fyrir einni öld, hefði fundist um þessa tertu, það er nú eitt og annað í henni sem þær hefðu ekki kannast við. En mér fannst hún góð. Og hún var bökuð í minningu þeirra og annarra góðra kvenna.
*
Möndlurúlluterta með mascarponeosti og bláberjum
2 egg
100 ml sykurlaus sulta
85 g möndlumjöl
25 g kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft
210°C í 5-6 mínútur.
Fylling:
250 g mascarponeostur
7 döðlur, steinhreinsaðar
1 tsk vanilluessens
200 g bláber