Kannski ekki í morgunmatinn …

Reykt ýsa er nokkuð sem ég kann mjög vel að meta nú orðið og þekktasti rétturinn þar sem hún er notuð er án nokkurs vafa kedgeree, sem er bresk-indverskur réttur sem á rætur í gömlum indverskum rétti sem kallast kichari eða khichri eða eitthvað svoleiðis og inniheldur hrísgrjón, baunir eða linsur og oftast grænmeti. Bretar sem dvöldust á Indlandi á 19. öld kynntust honum þar og fluttu hann með sér heim í breyttri mynd. Indverski rétturinn inniheldur yfirleitt ekki fisk þótt hann sé stundum borinn fram með fiski og ekki egg heldur.

Á Bretlandi varð kedgeree morgunverðarréttur og sennilega var þetta leið til að nýta afganga frá kvöldinu áður með því að blanda fiski og eggjum saman við krydduð hrísgrjón. Líklega er hann nú frekar hafður í brunch eða hádegis- eða kvöldverð nú á tímum og ég veit um Breta sem alltaf hafa kedgeree á aðfangadagskvöld. Ég veit nú ekki með það en þetta er góður hversdagsréttur sem hægt er að gera ýmis tilbrigði við, hafa hann meira eða minna kryddaðan, bæta grænmeti út í (grænar baunir eru t.d. stundum notaðar).

Uppskriftin er fyrir tvo.

_MG_7988

Fyrst eru það hrísgrjónin. Ég setti 2 msk af olíu á djúpa pönnu (eða í pott), saxaði laukinn smátt og lét hann krauma við fremur vægan hita í svona 5 mínútur, þar til hann var farinn að verða glær. Hækkaði þá hitann aðeins, setti lárviðarlauf, túrmerik, karríduft, kóríander, kornin úr tveimur kardimommum, pipar og salt á pönnuna, hrærði vel og lét krauma í 1-2 mínútur.

_MG_7989

Þá setti ég 200 g af hrísgrjónum á pönnuna og hrærði vel, þar til grjónin voru þakin olíu og kryddi. – Það mætti líka alveg nota afgang af soðnum hrísgrjónum og þá eru þau bara steikt smástund með lauknum og kryddinu og svo er dálitlu soði af fiskinum hrært saman við og látið malla í fáeinar mínútur.

_MG_7990

Svo hellti ég 400 ml af vatni á pönnuna, hitaði að suðu, setti lok yfir og lét malla við vægan hita í 10 mínútur. Slökkti þá undir pönnunni (hefði tekið hana af hellunni ef ég væri með rafmagnshellu) en lét lokið vera kyrrt á í 10 mínútur í viðbót, þá ættu hrísgrjónin að vera hárrétt soðin.

_MG_7993

Á meðan hitaði ég vatn að suðu í potti. Ýsan í kedgeree er oft soðin í mjólk en mér finnst það eiginlega ekkert betra og þar sem mjólkin er svo ekki notuð meira (eða yfirleitt ekki) og ég er nú að reyna að forðast alla matarsóun svo að ég notaði bara vatn. Þannig að ég setti fiskinn út í og lét malla við mjög vægan hita í 7-8 mínútur – aðeins lengur ef fiskbitarnir eru þykkir.

Um leið sauð ég líka 2 egg í litlum potti í 7 mínútur – vildi ekki hafa þau alveg harðsoðin þótt það sé algengar.

_MG_7995

Svo tók ég ýsuna upp úr með gataspaða (það getur verið gott að geyma dálítið af soðinu ef grjónin skyldu vera þurr), setti hana á disk og lét hana kólna í nokkrar mínútur, þar til ég gat tekið roðið af henni og losað hana í sundur í flögur. Ég kældi líka eggin, skurnfletti þau og skar í bita.

_MG_7996

Þá var komið að því að athuga grjónin. Þau voru alveg passleg, hæfilega soðin og hvorki of þurr né of blaut, en ef þau eru dálitið þurr má setja smáskvettu af fisksoðinu út í og hræra.

_MG_7998

Svo setti ég ýsuna og eggin út í hrísgrjónin (og fjarlægði lárviðarlaufið, er bara ekki búin að því þarna) og blandaði öllu gætilega saman.

_MG_8001

Ég smakkaði til að athuga hvort þyrfti að bæta við pipar og salti og saxaði svo steinselju og stráði yfir. Það mætti líka bæta við ögn af kóríanderlaufi ef maður á það til en ég átti það ekki.

_MG_8019

Mér finnst rétturinn fínn svona en margir hafa mangóchutney með og svo getur verið gott að hafa naanbrauð, spínat eða grænt salat.

*

Kedgeree

2 msk olía

1 laukur

1 lárviðarlauf

1 tsk túrmerik

1 tsk karríduft

3/4 tsk kórianderduft

2 kardimommubelgir, kramdir (má sleppa)

pipar

salt

200 g hrísgrjón

400 ml vatn

250 g reykt ýsa

2 egg

söxuð steinselja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s