Þjóðhátíðarlummur

Þegar mann langar í eitthvað gott og fljótlegt og einfalt með kaffinu, þá koma pönnukökur og vöfflur oft upp í hugann. Og svo auðvitað lummur. Vöfflur kalla á vöfflujárn og til að baka pönnukökur þarf maður helst pönnukökupönnu – en ef á að gera lummur þarf ekkert nema einhverja þokkalega pönnu. Mér finnst reyndar best að hún sé þykkbotna og helst úr steypujárni (pottjárni) en ég er líka með steypujárns-fetish. Eða því hefur verið haldið fram við mig og ég á svolítið erfitt með að mótmæla því, ég er alltaf að sjá steypujárnspönnur og potta og annað slíkt sem ég þarf nauðsynlega að eignast af því að ég á sko ekki níu tommu pönnu (þótt ég eigi bæði átta tommu og tíu tommu en mig vantar níu tommu fyrir akkúrat þetta …). Alltaf hægt að finna einhver rök til að réttlæta slíkar fjárfestingar. Ekki síst vegna þess að það eru greinilega ekki allir haldnir sömu steypujárnsástinni og ég rekst stundum á dýrgripi (í mínum augum) í Góða hirðinum eða annars staðar á spottprís.

Allavega hér eru lummur sem gæti verið alveg upplagt að baka með kaffinu í dag. Eða einhvern annan dag. Eða í morgunkaffi eða brunch um helgina, til dæmis. Þær eru náttúrlega sykurlausar en svo má alveg moka hlynsírópi eða hunangi eða sultu eða einhverju yfir þær ef manni sýnist svo. Ég hef bara ber með þeim. Þessi uppskrift birtist fyrst í maíblaði MAN. Úr þessu ættu að verða um 12 lummur.

_MG_4663

Ég byrjaði á að taka einn vel þroskaðan banana (ég á svoleiðis gjarna á lager og oft líka í frysti en ef maður notar frosinn banana í þetta er best að láta hann þiðna fyrst, að minnsta kosti svo að hægt sé að skera hann í litla bita). Setti hann í matvinnsluvélina ásamt tveimur eggjum, þremur matskeiðum af matarolíu og hálfri teskeið af vanilluessens og lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk.

_MG_4664

Svo setti ég 75 g af hveiti, 60 g af kókosmjöli, 3/4 tsk af lyftidufti og svolítið salt út í og þeytti því saman við. Nú orðið nota ég yfirleitt heilhveiti í svona lummur eins og reyndar í flestan annan bakstur en það vildi svo til að ég átti það ekki til og notaði því hvítt hveiti. Það er örugglega hægt að gera glútenlausa útgáfu af lummunum líka en þar sem ég hef persónulega ekkert á móti glúteni var ég ekkert að pæla í því …

_MG_4666

Svo hrærði ég svona 50 ml af mjólk saman við og lét svo soppuna standa í svona 10-15 mínútur. Hún má reyndar alveg bíða lengur en ef hún á að standa í einhverja klukkutíma er best að setja skálina í kæli. Þegar ég var búin að hita pönnuna og tilbúni að fara að steikja athugaði ég þykktina. Hún á að vera þykkfljótandi; þessi soppa var hæfileg en ef hún er fullþykk má þynna hana aðeins með meiri mjólk eða bara með ögn af köldu vatni.

Ég bræddi svo dálítið smjör (það má líka nota olíu) á pönnu og bakaði fremur litlar lummur (2-3 msk hverja) í um 2 mínútur á hvorri hlið við meðalhita. Bætti við feiti eftir þörfum.

_MG_4734

Svo bar ég lummurnar fram volgar með ferskum og fallegum jarðarberjum (eða öðrum berjum) og stráði kókosflögum yfir, en það mæltti líka nota kókosmjöl, eða sleppa því bara alveg. Einnig mætti hafa jógúrt blandaða kókosmjöli með. Það væri náttúrlega rosalega þjóðegt að vera með bláber líka í tilefni dagsins og hafa þetta í fánalitunum – rautt, hvítt og blátt.

_MG_4679

Og fyrir þá sem ekki eru í sykurlausa gírnum er svo auðvitað, eins og ég sagði áður, hægt að hafa síróp, hunang, hrásykur, hvítan sykur, sultu eða eitthvað annað með og allir sáttir …

*

Kókoslummur með jarðarberjum

1 banani, vel þroskaður

2 egg

3 msk olía

½ tsk vanilluessens

75 g heilhveiti eða hveiti

60 g kókosmjöl

¾ tsk lyftiduft

svolítið salt

50 ml mjólk, eða eftir þörfum

smjör eða olía til steikingar

jarðarber

kókosflögur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s