Stundum rekst ég á matarmynd sem hðfðar til mín í blaði eða á netinu, án þess að nokkur uppskrift fylgi, legg hana á minnið og rifja hana upp seinna (eða stundum skoða hana ef ég get fundið hana aftur) og reyni svo annaðhvort að gera eitthvað svipað eða þá nota einhver atriði úr henni til að gera eitthvað annað. Svo hefur komið fyrir að ég hef rekist á uppskriftina og komist að því að það sem ég hélt að væri í réttinum er kannski eitthvað allt annað en mér sýndist á myndinni – eða rétturinn er eldaður einhvernveginn allt öðruvísi en ég hélt.
Rétturinn sem hér kemur er lauslega sniðinn eftir mynd sem ég sá einhverntíma á netinu og fannst flott. Hún rifjaðist svo upp fyrir mér seinna, þegar ég var með hörpudisk sem mig langaði að gera eitthvað fallegt við. Ég fann myndina ekki aftur og mundi frekar óljóst (held ég) hvað var í réttinum þannig að ég ákvað að nota bara það sem ég átti.
Þetta væri fínn forréttur í matarboði; ég notaði stærstu hörpuskelfiskana sem ég fann og reiknaði með fimm á mann en það má líka hafa forréttinn minni og nota þrjá á mann (en endilega oddatölu en ekki slétta).
Uppskriftin birtist fyrst í maiblaði MAN.
Ég byrjaði á að saxa einn lítinn rauðlauk smátt og einn hvítlauksgeira mjög smátt. Bræddi svo 1 msk af smjöri á lítilli pönnu og lét lauk og hvítlauk krauma í 2-3 mínútur.
Ég tók svo 150 g af spergilkáli, skar stöngna af því og setti til hliðar (það má nota þá í annað) og skipti því svo í litla kvisti. Bætti spergilkálinu á pönnuna og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót.
Ég kreisti svo safa úr 1/2 sítrónu yfir, bætti við 100 ml af vatni (eða ég notaði reyndar að hluta safa úr hörpudiskspokanum – það mætti auðvitað líka nota hvítvín en ég átti það bara ekki til), kryddaði með pipar, salti og fáeinum chiliflögum og lét sjóða þar til spergilkálið var rétt orðið meyrt og mestallur vökvinn gufaður upp.
Ég tók svo hörpuskelfiskinn (sem ég hafði látið þiðna í ísskápnum, þerraði hann á eldhúspappír og kryddaði með nýmöluðum pipar og flögusalti.
Svo hitaði ég pönnu vel, setti 1 msk af smjöri á hana og steikti hörpuskelfiskinn í um 1 1/2 mínútu á hvorri hlið við góðan hita. (Þarna er ég reyndar bara að steikja fimm skelfiska og notaði bara teskeið af smjöri eða svo.)
Hitinn ætti að vera hár svo að skelfiskurinn taki fallegan lit en það má alls ekki steikja hann of lengi. Ég tók hann strax af pönnunni svo að steikingin héldi ekki áfram.
Á meðan hörpudiskurinn var á pönnunni tók ég grænmetið og dreifði fjórðungi af því í hring á hvern disk. Eða ég notaði reyndar flísar, sem ekki mundi nú falla í kramið á þeirri ágætu síðu We Want Plates, en þarna á þetta nú alveg við (og kemur flott út í myndatöku). En auðvitað má nú bara nota diska líka. Og svo er líka hægt að setja bara stóran hring á eitt fat.
Og svo raðaði ég hörpuskelfiskinum ofan á kransinn, skar radísur í örþunnar sneiðar og dreifði yfir, ásamt rauðrófuspírum.
Og svo er bara að bera þetta fram með góðu brauði.
Mmmmm …
*
Hörpudiskskrans
1 lítill rauðlaukur
1 hvítlauksgeiri
150 g spergilkál
2 msk smjör
safi úr 1/2 sítrónu
100 ml vatn (eða hvítvín eða fisksoð)
pipar
salt
chiliflögur
12-20 risahörpuskelfiskar
nokkrar radísur
1 bakki radísuspírur