Ég hef oft séð og heyrt í áranna rás – ekkert bara nýlega, þetta hefur alltaf verið svona – að fólk segir: – Ég vildi gjarna borða meira grænmeti og ávexti en það er bara svo dýrt að það er ekki hægt að kaupa það, eða – Ég hef ekki efni á að kaupa grænmeti og ávexti, eða – Ég keypti í matinn og það kostaði x mikið en samt var ekkert grænmeti/ávextir í því – og fleira í þeim dúr.
Og jú, grænmeti og ávextir er dýrt, allavega sumt af því. Það er að segja, ef miðað er við það sem þetta kostar víða erlendis. Það er samt ekki alveg sanngjarn samanburður. Ég sá um daginn að það var verið að hneykslast á því hvað bláberin og kirsiberin sem Bónus var að selja væru dýr. Þetta voru að vísu frekar stórar pakkningar miðað við það sem venja er en þegar kílóverðið var reiknað voru þetta langódýrustu bláberin sem þá fengust í bænum (eða sömu ber fengust reyndar á sama verði í fleiri búðum) og kirsiberin voru mun ódýrari en kirsiber sem ég keypti einhversstaðar í fyrravor. En fólk búsett erlendis var að bera þau saman við ber sem það var að kaupa – sem voru ræktuð í sama landi og flutt skamma leið á markað með bíl, ekki með flugi yfir hafið. Og oft eru viðkvæmir ávextir og grænmeti flutt yfir hálfan hnöttinn með flugi, það skilar sér auðvitað í verði.
Ég fór einmitt að hugsa um þetta þegar ég var á Madeira um jólin. Ég fór í stærstu matvöruverslunina í Funchal á aðfangadag til að kaupa í matinn fyrir jóladag (borðaði úti á aðfangadagskvöld) og í ávaxtadeildinni greip ég með mér lítinn bakka – svona 200 grömm – af blönduðum berjum, bláberjum, hindberjum og brómberjum. Eiginlega alveg eins blanda og fékkst hér í fyrra í sumum búðum. Ég hafði þessi ber út á ís og þau voru ágæt. En þegar ég skoðaði strimilinn úr búðinni sá ég að þau voru bara á mjög svipuðu verði og þau hefðu kostað hér heima.
Madeira er náttúrlega eyja í Atlantshafi, rétt eins og Ísland, og þessi ber voru flutt þangað með flugi langa vegu, rétt eins og hingað, svo að þau voru bara ekkert ódýrari.
En ég hafði aftur á móti líka keypt nokkra banana. Þessir litlu, bústnu bananar eru alveg ótrúlega sætir og góðir. Þeir kostuðu afskaplega lítið. Og þeir voru eiginlega beint af trénu, það eru ræktaðir bananar út um allt á Madeira. Mér hefur alltaf þótt fyndið að sjá því haldið fram að Ísland sé mesta bananaræktarland Evrópu – sem furðu margir virðast þó trúa – en eftir að hafa verið á Madeira finnst mér það beinlínis sprenghlægileg staðhæfing.
Og þegar ég fór á útikaffihús á Þorláksmessu og pantaði mér vöfflu með ávöxtum, þá átti ég nú ekki alveg von á þessu. Þetta eru allt ávextir sem eru ræktaðir þarna, hrikalega ferskir og góðir, og það var sko ekkert verið að spara þá. Enda kannski fimm hundruð metrar í næsta ávaxtagarð.
Sem sagt, við getum aldrei ætlast til þess að fá ávexti og grænmeti sem flutt er inn – allavega ekki með flugi – á sama eða svipuðu verði og í löndum þar sem þetta er ræktað eða þar sem flutningar eru styttri og einfaldari. Hins vegar er það svo að sumt grænmeti sem hér er ræktað er dýrara en innflutt. Ræktunartíminn er stuttur og ræktunarskilyrði oft erfið og það kemur fram í verðinu. Og fyrir gróðurhúsagrænmeti hlýtur tilkostnaður alltaf að vera mun meiri hér, þar sem byggja þarf hús og lýsa þau upp og hita á veturna – þess vegna ættu auðvitað gróðurhúsabændur að fá raforku á mun hagstæðara verði en nú er.
En alveg burtséð frá því: Er grænmeti og ávextir hlutfallslega dýrara en annar matur? Matur er yfirhöfuð dýr hér en mér finnst satt að segja grænmeti og ávextir alls ekki dýrt miðað við margt annað. En auðvitað er ekki sama hvað maður kaupir og sumt er vissulega býsna dýrt. Annað er það ekki.
Ég var að koma heim úr búðinni áðan og þetta eru grænmetið og ávextirnir sem ég tíndi upp úr innkaupapokanum. Tvær heilar melónur og vatnsmelónufjórðungur, appelsínur, blóðappelsínur, klementínur, sítrónur, fersk minta, fersk steinselja, gulur kúrbítur, grænn kúrbítur, spaghettíkúrbítur, tvö eggaldin, strengjabaunir, rauðlaukur, bufftómatar, venjulegir tómatar, kokkteiltómatar, piccolotómatar og blanda af litlum chilialdinum. Sumt af þessu er frekar dýrt af grænmeti að vera, t.d. strengjabaunirnar, chilialdinin, litlu tómatarnir og mintan. Allt til samans kostaði þetta um 5400 krónur.
Dýrt? Ég veit nú ekki. Ég gæti líka labbað 50 metra út á Eldsmiðjuna og keypt tvær Pepperoni Special fyrir nákvæmlega sama verð. Bara tvær pítsur, ekki einu sinni gos með.
Og nei, ég ætla nú ekki að borða allt þetta grænmeti og ávexti ein um helgina. Sumt af því er keypt fyrir myndatökur sem ég þarf að fara í.
En ég er ekki byrjuð að elda úr þessu. Og af því að mér finnst að á eftir þessu þurfi nú að koma grænmetisréttur, þá er hér uppskrift að tabbouleh. En bara mynd af tilbúnu salatinu, ég tók engar myndir af undirbúningnum þegar ég var að gera þetta fyrir MAN í vetur.
Tabbouleh er alþekkt kryddjurtasalat, sérlega frísklegt og gott, sem getur ýmist verið hluti af meze eða meðlæti með aðalréttum. Það er hægt að nota matvinnsluvél til að saxa kryddjurtirnar en þá er hætt við að salatið verði of maukkennt svo að vissara er að nota púlshnappinn á vélinni.
Tabbouleh
3 msk bulgur
100 ml heitt vatn
2-3 lófafyllir fjallasteinselja
1 lófafylli söxuð minta
2-3 vorlaukar
350 g tómatar, vel þroskaðir
safi úr 1 sítrónu
75 ml ólífuolía
kanell á hnífsoddi
salt og pipar
Settu bulgurkornin í skál, helltu sjóðandi vatni yfir og láttu standa í um 10 mínútur. Saxaðu á meðan steinselju, mintu og vorlauk smátt og skerðu tómatana í litla bita (ég notaði kirsiberjatómata). Helltu svo umframvatni af bulgurinu, skolaðu það í sigti og helltu því svo í skál. Blandaðu kryddjurtunum og tómötunum saman við. Hrærðu saman sítrónusafa, ólífuolíu, kanel, pipar og salt, helltu yfir og blandaðu vel. Berðu fram strax.
Heil og sæl Nanna.
Takk fyrir síðuna þína sem mér fynnst alltaf jafn gaman að skoða. Langaði að þakka þér sérstaklega fyrir þennan pistil, frábærlega að orði komist hjá þér, eins og vanalega.
Kv. Sólbjörg Linda