Það er allt hægt

Uppskriftirnar sem ég sendi frá mér verða til á ýmsan hátt. Ótrúlega margar þeirra eru reyndar samdar í strætó – ég fer í búð, kaupi eitthvað sem mér líst vel á eða langar í eða dettur bara í hug að gæti verið gaman að hafa í matinn, og í strætó á leiðinni heim fer ég svo að hugleiða hvað ég ætli nú að gera við þetta, rifja upp hvað ég á til heima og fæ hugmyndir út frá því, skoða kannski einhverjar uppskriftir á Ipadinum, fæ fleiri hugmyndir þar og þegar ég er komin á Hlemm er ég yfirleitt komin með nokkuð mótaða hugmynd um hvað ég ætla að gera.

Ég væri örugglega ekki svona frjó í uppskriftagerð ef ég væri á bíl.

Stundum er ég líka heima hjá mér og er kannski að fletta einhverri bók og rekst á áhugaverðan rétt sem gefur mér hugmynd, fletti svo fleiri bókum þar sem ég veit af svipuðum réttum og fæ fleiri hugmyndir sem ég flétta svo saman. Stundum slæ ég einhver hráefni inn í myndaleitina á Google, skoða myndirnar sem upp koma og fæ hugmyndir út frá þeim án þess að skoða uppskriftirnar á bak við (ef ég geri það svo seinna eru þær kannski allt öðruvísi en ég hafði haldið út frá myndunum). Og stundum stend ég bara í eldhúsinu mínu, kíki í skápana og vel eitthvað sem ég held að passi saman. Það gengur yfirleitt upp.

En um daginn var ég í vinnunni seinnipartinn þegar vinnufélagi sem var heima í fríi hafði samband og spurði hvort ég gæti reddað sér um uppskrift að sykurlausri köku í snatri, gjarna á hjónabandssælunótum en með súkkulaði, ef slík kaka væri þá til á annað borð.

– Það er allt hægt, sagði ég, teygði mig í sykurlausu bókina mína, púslaði saman tveimur uppskriftum og prjónaði aðeins við og sendi svo uppskriftina; lét þess getið að hún væri óprófuð en ætti að ganga upp. Kakan var bökuð og mér skildist að hún hefði gert þónokkra lukku, sem var nú ágætt.

En ég þurfti náttúrlega helst að prófa mína eigin uppskrift. Svo að hér er hún, með smábreytingum en þó eingöngu á magni – ég fann ekki botninn úr bökuforminu sem ég hafði ætlað að nota svo að ég þurfti að nota aðeins stærra form og fannst þá vissara að stækka uppskriftina svolítið. Reyndar mundi ég líklega bæta aðeins meira við uppskriftina af botninum ef ég gerði hana aftur í þessu formi en það er samt, eins og ég sagði, heldur í stærra lagi.

Já, og hún er glútenlaus líka, ef þið eruð í þeim gírnum.

_MG_8155

Ég kveikti á ofninum og hitaði hann í 180°C. Svo tók ég til þrjá banana (fremur litla reyndar) – og það vildi svo heppilega til að ég átti einmitt mjööööög vel þroskaða banana, svona eru þeir bestir í bakstur  (sveimér ef ég finn ekki hreinlega ilminn af þeim bara með því að skrifa þetta – og tók líka til átta döðlur og 40 g af smjöri.

_MG_8159

Ég smurði lítið, eldfast mót með dálitlu af smjörinu. Flysjaði bananana og reif þá í bita og steinhreinsaði döðlurnar og reif þær niður líka. Setti þetta í formið og dreifði smjörklípum yfir. Svo setti ég formið í ofninn og bakaði þetta í svona hálftíma.

_MG_8163

Á meðan gerði ég botninn. Ég tók 225 g af hafragrjónum og setti í matvinnsluvélina ásamt 100 g af valhnetum (má nota aðrar hnetur eða möndlur), 1 tsk af kanel, og svolítið salt, lét vélina ganga þar til þetta hafði blandast vel saman og svo skar ég 150 g af köldu smjöri í bita, setti út í og lét vélina ganga þar til komin var gróf mylsna. Hún á að klessast saman án þess að vera blaut en ef hún er of þurr má bæta svolitlu köldu vatni út í, þar til hún er passleg.

Ég tók fjórðunginn af mylsnunni (eða rúmlega það) frá en setti hitt í lausbotna bökuform og þrýsti mylsnunni með fingrunum upp með hliðunum og niður á botninn. Það gerir ekkert til þótt einhvers staðar séu smágöt.

_MG_8166

Ég tók bananadöðlublönduna úr ofninum og lét kólna í nokkrar mínútur. Hellti svo öllu úr forminu í matvinnsluvélina og maukaði vel.

_MG_8168

Ég braut svo eitt egg út í, setti tvær kúfaðar matskeiðar af kakói og 1 tsk af vanillessens í skálina og hrærði vel saman.

_MG_8173

Svo hellti ég súkkulaðiblöndunni í formið og sléttaði yfirborðið gætilega með sleikju.

_MG_8177

Og að lokum muldi ég mylsnuna sem ég hafði tekið frá yfir súkkulaðiblönduna með fingurgómunum. Setti svo bökuna í ofninn og bakaði hana á næstneðstu rim í 20-25 mínútur, eða þar til jaðarinn á kökunni og mylsnan eru fallega gullinbrún og fyllingin farin að stífna.

_MG_8197

Ég lét kökuna kólna í forminu og losaði svo hringinn gætilega af, renndi pönnukökuspaða undir bökuna til að losa hana frá botninum og renndi henni gætilega yfir á kökudisk.

_MG_8221

Og nú er ég búin að prófa mína eigin uppskrift og get vottað að kakan er bara ansi góð.

*

Súkkulaði-hjónabandssæla

2 bananar, (mjög) vel þroskaðir

8 döðlur, steinhreinsaðar

40 g smjör

1 egg

2 kúfaðar matskeiðar kakóduft

1 tsk vanilla

Botn/ofan á:

225 g hafragrjón

100 g valhnetur

1 tsk kanell

150 g smjör, kalt

e.t.v. svolítið kalt vatn

180°C, 30 mín. + 20-25 mín.

2 comments

  1. flott kaka, ætla að prófa á morgun 🙂

    en af hverju baka þú banana-döðlu dæmið fyrst og mauka það ekki bara strax? af hverju er það?

    • Það er alveg hægt líka. En bragðið verður betra ef þetta er gert svona, það kemur dálítill karamellukeimur í fyllinguna og hún verður líka þéttari.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s