Engin verkfallsbrot …

Upphaflega ætlaði ég eiginlega að setja inn aðra uppskrift hérna núna. En svo áttaði ég mig á því að í henni nota ég spænska hráskinku og hún er líklega ekki auðfundin núna. Svo að ég geymi þá uppskrift þangað til verkföll leysast. Ætli það verði ekki í ágúst með sama áframhaldi. Æi, þessi uppskrift var reyndar hvort eð er fullsumarleg fyrir þetta veður; vonandi kemur sumar um það bil sem verkfallið leysist … En allavega: engin verkfallsbrot hér.

Í staðinn er hér einfaldur en frekar góður grænmetisréttur sem getur verið smáréttur, pinnamatur, forréttur eða bara meðlæti. Að vísu er hér notað grænkál og þess tími er nú eiginlega liðinn en það má alveg nota t.d. klettasalat í staðinn. Uppskriftin birtist fyrst í maíblaði MAN.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C.

_MG_4814

Þetta er sætkartöfluréttur og kartaflan þarf að vera frekar mjó svo að sneiðarnar verði ekki of stórar. Ég var með langa og mjóa kartöflu sem var um 500 g en það mætti nota tvær minni; aðalatriðið er að þær séu ekki of sverar. Ég þvoði og þerraið kartöfluna en flysjaði hana ekki áður en ég bakaði hana. Þa má auðvitað alveg gera það en hýðið verður stökkt og gott, nema það sé þeim mun þykkara. En ég skar hana í sneiðar, svona 8 mm-1 cm þykkar; fékk svona 18 sneiðar úr kartöflunni (notaði ekki bláendana).

_MG_4816

Svo setti ég 3 msk af ólífu í skál ásamt pipar og salti og velti sætkartöflusneiðunum upp úr henni. Raðaði þeim síðan á pappírsklædda bökunarplötu.

_MG_4819

Svo tók ég svona 250 g af kirsiberjatómötum. Það vildi svo til að ég átti fáeina gula kirsiberjatómata sem ég notaði með þeim rauðu, það kemur skemmtilega út. Ég velti tómötunum upp úr olíunni sem eftir var í skálinni, hellti þeim svo í lítið, eldfast mót og bætti við nokkrum timjangreinum (eða dálitlu þurrkuðu timjani). Setti mótið bara á plötuna með kartöflunum, það rúmaðist alveg, en það mætti líka setja það á grind yfir plötunni.

_MG_4835

Ég setti sætu kartöflurnar og tómatana í ofninn  og bakaðií um 15 mínúturr, þá voru tómatarnir tilbúnir …

_MG_4845

… en sneri kartöflusneiðunum og bakaði þær í 5-10 mínútur í viðbót, eða þar til þær eru vel meyrar og farnar að taka lit. Líklegt er að þær dökkni meira á neðri hliðinni en þeirri efri.

_MG_4821

Á meðan grænmetið bakaðist bjó ég til grænkáls-steinseljumauk til að hafa með því. Ég tók 75 g af grænkáli og skar stönglana úr blöðunum, grófsaxaiu þau og setti þau í matvinnsluvél ásamt hellu knippi af flatblaðssteinselju, einum vorlauk, tveimur hvítlauksgeirum, 25 g af pekanhnetum (mega vera valhnetur), safa úr 1/2 sítrónu, pipar og salti.

_MG_4829

Ég lét vélina ganga þar til komið var grófgert mauk og hellti svo 3-4 msk af ólífuolíu smátt og smátt saman við.

_MG_4832

Maukið á að vera þykkt, ekki fljótandi.

_MG_4840

Ég tók svo fetaostskubb og skar hluta af honum (ekki allan, kannski svona 100 g) í teninga, jafnmarga kartöfusneiðunum.

_MG_4863

Þegar sætkartöflusneiðarnar voru tilbúnar lét ég þær kólna ögn. Raðaði þeim svo á fat og dreifði klettasalati og tómötum yfir og á milli. Settu teskeið af grænkálsmaukinu á hverja kartöflusneið og dálítinn fetaostsbita þar ofan á.

_MG_4908

Ég bar svo afganginn af maukinu fram með.

_MG_4938

Það má líka sleppa tómötunum og bera kartöflusneiðarnar bara fram með klettasalati, grænkálsmauki og fetaosti – og svo má sleppa fetaostinum, ekki síst ef kartöflurnar eru hafðar sem meðlæti.

*

Sætkartöflusneiðar með grænkálsmauki, fetaosti og tómötum

500 g sæt kartafla, löng og mjó

3 msk ólífuolía

pipar

salt

250 g kirsiberja- eða konfekttómatar

e.t.v. nokkrar timjangreinar

fetaostur

klettasalat

*

Grænkáls-steinseljumauk

75 g grænkál

1 knippi steinselja

1 vorlaukur

2 hvítlauksgeirar

25 g pekan- eða valhnetur

safi úr 1/2 sítrónu

pipar

salt

3-4 msk ólífuolía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s