Sjómannadagsfiskur

Það er sjómannadagurinn í dag. Reyndar er það ekki dagur sem hefur mikið með mig að gera persónulega, þrátt fyrir sjókokkaprófið mitt hef  ég aldrei á sjó komið (nema hvað ég hef siglt á ferju yfir Gíbraltarsund, það er nú eiginlega allt og sumt) og það eru áratugir síðan ég var sjómannskona. En það þýðir ekki að ég geri mér ekki grein fyrir hvað sjómenn eru okkur mikilvægir og hvað starfið er erfitt og hættulegt – þótt það hafi til allrar lukku breyst mikið. Þegar ég var yngri finnst mér eins og alltaf hafi verið að berast fréttir af sjóslysum og ég þekkti þónokkra stráka sem fórust á sjó.

Þannig að ég held alltaf pínulítið upp á sjómannadaginn. Ég fer að vísu ekki niður að höfn lengur, mér finnst að ég þurfi að hafa barn til að fara með og nú er Úlfur, yngsti afkomandinn, vaxinn upp úr svoleiðis. Þannig að ég held mig heima við núna. En ég eldaði fisk í hádeginu, það finnst mér nú eiginlega tilheyra á sjómannadaginn. Það er samt ekkert óvenjulegt reyndar, ég elda fisk svona þrjá til fjóra daga í viku að jafnaði … en allavega, hér er sjómannadagsuppskriftin mín.

_MG_8060

Ég átti bita af hlýra, sem er mikill uppáhaldsfiskur hjá mér þessa dagana en það má nota ýmsar fisktegundir – steinbít, löngu, þorsk til dæmis. Jafnvel ýsu en ég er nú ekki mikið fyrir ýsu yfirleitt. Bitinn var svona 240 grömm, sem passar fínt fyrir mig með afgangi í nesti í vinnuna – en ef verið er að elda fyrir tvo mætti nota stærra stykki. Svo tók ég þrjár beikonsneiðar, einn lítinn blaðlauk (reyndar úr innkaupapokanum um daginn), væna lúkufylli af spínati, tvo bústna og vel þroskaða tómata, hálfa dós af cannellinibaunum (mættu vera aðrar baunir), eina rósmaríngrein (má nota aðrar kryddjurtir eða sleppa), einn vænan hvítlauksgeira, 2 msk af ólífuolíu, 2 tsk af smjöri, pipar, salt og smáklípu af chiliflögum.

_MG_8062

Ég snyrti blaðlaukinn og saxaði hann, saxaði hvítlaukinn smátt og skar beikonið í litla bita. Hitaði 1 1/2 msk af ólífuolíunni á þykkbotna pönnu og lét svo blaðlauk, hvítlauk og beikon krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var farinn að mýkjast. Hrærði öðru hverju.

_MG_8064

Ég skar svo tómatana í bita, saxaði rósmarínið smátt og setti hvorttveggja á pönnuna ásamt chiliflögum, pipar og salti. Hrærði og lét krauma í 1-2 mínútur.

_MG_8065

Og svo setti ég baunirnar á pönnuna, ásamt svona 100 ml af vatni, hrærði og lét malla áfram í nokkrar mínútur.

_MG_8072

Á meðan grænmetið mallaði steikti ég fiskinn. Ég hitaði 1/2 msk af ólífuolíu og smjörið á pönnu, kryddaði fiskinn með pipar og salti og steikti hann í 2 1/2 – 3 mínútur á hvorri hlið (eftir þykkt) við ríflega meðalhita.

_MG_8073

Um leið og ég sneri fiskinum setti ég spínatið á pönnuna með grænmetinu, hrærði og lét malla í 2 mínútur eða svo. Vökvinn ætti eiginlega allur að gufa upp en ef þetta verður of þurrt og ætlar að brenna má bæta við aðeins meira vatni.

_MG_8104

Það mætti setja þetta allt yfir á fat en ég færði nú bara fiskinn yfir á pönnuna og setti hann ofan á grænmetið.

_MG_8144

Svo fannst mér gamli Tjarnarbúðardiskurinn sem einhvernveginn komst í mína eigu eitthvað svo sjómannadagslegur …

_MG_8121

Þetta var bara alveg ansi góður fiskur. Gleðilegan sjómannadag!

*

Steikur fiskur með tómötum, beikoni og baunum

250-400 g fiskur, t.d. hlýri, steinbítur, langa eða þorskur

1 lítill blaðlaukur

1 hvítlauksgeiri

3-4 sneiðar magurt beikon

2 msk ólífuolía

2 vel þroskaðir tómatar

1 rósmaríngrein (má sleppa)

klípa af chiliflögum (eða chili- eða cayennepipar)

pipar

salt

1/2 dós cannellinibaunir eða aðrar baunir

100 ml vatn

lófafylli af spínati

2 tsk smjör

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s