Ég er ekki enn búin að nota allt sem var í innkaupapokanum í síðustu viku en hann fer nú að verða langt kominn. Auðvitað hef ég ekki eingöngu notað það sem ég keypti í þeirri innkaupaferð eins og þið hafið séð ef þið hafið lesið uppskriftirnar, en það hefur nú samt verið aðaluppistaðan í matnum mínum flesta daga. Kannski prófa ég einhverntíma að kaupa eitthvað ámóta og elda eingöngu úr því í heila viku, nota ekkert annað nema kannski krydd; það gæti verið áhugavert.
En það mundi ég þó ekki gera ef ég væri að fá fjölskylduna eða aðra gesti í mat. Þetta eru svoddan átvögl … Þannig að þegar dótturfjölskyldan kom í mat um helgina lét ég vörurnar úr innkaupapokanum – nema hvað ég kláraði úr salatpokanum reyndar, hann hefði ekki enst fram yfir helgi – og fór í búðarferð og keypti nautalund og fleira því mig langaði að grilla og þá kannski eitthvað sem dóttursonur minn kallaði ,,stórt kjöt“ þegar hann var yngri. Honum fannst reyndar nautalundin ekki alveg nógu stór, hefði getað þegið meira, en þar sem hann er þeirrar skoðunar að með góðri steik þurfi nákvæmlega ekkert annað en eina litla kartöflu hefði hann sennilega getað borðað hálfa lundina einn, svo ég vorkenndi honum ekkert; hann hefði bara getað fengið sér af meðlætinu eins og hinir í staðinn fyrir að gleypa þetta rándýra kjöt í sig eintómt. Ég sá ekkert eftir því oní hann, þannig séð … Og ég var ekkert að segja honum að ég hefði skorið smábita af lundinni og stungið undan; meira um það hér neðar.
Ég hef heldur ekki skrifað niður uppskriftir að öllu sem ég hef notað úr pokanum. Ávextina borða ég nú aðallega eins og þeir koma fyrir, hrísgrjónin og heilhveitið fóru bara í búrskápinn og svona. Og sumt eldaði ég og fór ekki eftir neinni uppskrift og gæti ekki skrifað hana þótt ég ætti lífið að leysa. Hér eru tvö dæmi:
Kvöldmaturinn minn síðasta fimmtudag var ommeletta með chorizopylsu, sykurbaunum, tómötum, fetaosti, spergilkáli og basilíku. Pylsan, sykurbaunirnar, tómatarnir og fetaosturinn voru úr innkaupapokanum, eggin og spergilkálið átti ég til.
Og hér er hádegisbrönsinn minn á laugardaginn, hafra- og heilhveitilummur með annars vegar kotasælu, epli og basilíku, hins vegar með chorizo og parmesanosti. Heilhveitið, kotasælan, eplið og pylsan voru úr innkaupapokanum, parmesanosturinn keyptur í Róm á dögunum.
En það var afgangurinn af nautalundinni (eða ekki afgangur, heldur bitinn sem ég skaut undan svo að Úlfur gat ekki étið hann). Ég beið eftir grillveðri.
Þetta var semsagt stykki af ágætri þýskri nautalund, svona 250 g. Ég skar það í frekar litla bita, munnbitastærð eða svo.
Svo útbjó ég maríneringuna: 3 msk olía, 1 msk balsamedik, 1 tsk Frank’s Hot Chilisauce (eða einhver önnur chilisósa, meira eða minna eftir smekk), 2 hvítlauksgeirar, saxaðir, 2-3 cm biti af engifer, saxaður, pipar og salt. Hrærði þetta allt saman í skál og svo kreisti ég safa úr einni blóðappelsínu út í. Ég ætlaði bara að nota hálfa en það var svo lítill safi í þessu (ef notuð er venjuleg appelsína ætti fjórðungur að duga eða jafnvel minna.)
Svo setti ég kjötið út í, hrærði vel og lét standa á eldhúsbekknum í hálftíma til klukkutíma (má vera lengur en þá í ísskáp.
Ég hitaði svo grillið (hafði það lokað) og þræddi kjötbitana upp á tvö spjót. Ef notaðir eru tréteinar þarf að leggja þá í bletyi í hálftíma fyrir notkun svo þeir brenni síður. Ég þrætti kjötið þétt upp á spjótin og hafði ekkert með þeim.
Ég átti dálítið af rósakáli, Tók svona 16-20 hausa (þeir voru litlir), snyrti þá aðeins (skar þunna sneið af stilkendanum og hreinsaði burt eitthvað af visnuðum blöðum), velti þeim upp úr maríneringunni og þræddi þá svo upp á tvo teina. Ef rósakálshausarnir hefðu verið stærri hefði ég skorið þá í tvennt til að stytta grilltímann.
Þegar grillið var orðið vel heitt fór ég út með pinnana. Slökkti á miðjubrennaranum (þetta er lítið Webergrill) og setti rósakálið þar yfir en grillaði kjötið beint yfir nokkuð góðum eldi. Ég grillaði þetta í líklega svona 7 mínútur alls og sneri einu sinni, en tíminn fer náttúrlega eftir því hvað kjötinu er þétt raðað og hvað maður vill hafa það mikið steikt. Ég hafði grillið lokað allan tímann.
Á meðan þetta var á grillinu steikti ég sætar kartöflusneiðar inni í eldhúsi. Hefði getað grillað þær líka en ákvað að steikja þær í olíu – þetta var lítil og mjó sæt kartafla sem ég flysjaði, skar í tæplega 1 cm þykkar sneiðar og steikti við fremur vægan hita í – tja, kannski svona fjórar mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær voru meyrar. Kryddaði þær ekkert.
Kjðtið var tilbúið og ég tók það af grillinu og athugaði rósakálið – jú, það var rétt orðið meyrt, svo að ég tók það af líka, fór með kjöt og kál inn í eldhús, breiddi álpappír lauslega yfir og lét standa í 2-3 mínútur. Á meðan sauð ég lófafylli af sykurbaunum í 2 mínútur í saltvatni og maukaði saman 4 msk af ólífuolíu, 1 hvítlauksgeira, lófafylli af steinselju og pipar og salt, það var sósan.
Svo bar ég kjötið fram með rósakáli, sætkartöflusneiðum og sykurbaunum, dreypti dáltilu af steinseljusósunni yfir og bar afganginn fram með.
Úr innkaupapokanum: Sæt kartafla, sykurbaunir.
Grillað nautaspjót með rósakáli, sætukartöflum og sykurbaunum
250-350 g meyrt nautakjöt
3 msk olía
1 msk balsamedik
1 tsk chilisósa, eða eftir smekk
2 hvítlauksgeirar, saxaðir,
2-3 cm biti af engifer, saxaður,
pipar
salt
1-2 msk blóðappelsínu- eða appelsínusafi
*
rósakál, svona 200 g
1 sæt kartafla, 400–500 g
lófafylli af sykurbaunum