Er ekki alveg kominn tími á eitthvert sætmeit? Jú, ég held það bara, hef nú ekki verið með mikið af slíkum uppskriftum að undanförnu (en ég gaf náttúrlega út bók …) . Ég var reyndar áðan að horfa á frekar undarlegan þátt um hollasta mataræði í heimi, þar sem íslenskur matur lenti í efsta sæti. Já, ókei, hmmm … ég held við borðum nú ekki alveg eins mikið af fiski og ferskmeti og haldið var fram þar … en allavega hefur nú ekki skort fiskuppskriftir hér að undanförnu og ég hef nú verið að reyna að sýna hvað er auðvelt að nota alls konar grænmeti. Svo að nú geri ég smáhlé og hér kemur ávaxtabaka.
Innkaupapokinn sem ég hef verið að elda upp úr að undanförnu kom hér ekki við sögu en hefði þó getað gert það því að í honum voru bæði perur og epli, sem eru einmitt ávextirnir í bökunni. En þetta er eldri uppskrift, birtist fyrst í bökuþættinum sem ég var með í aprílblaði MAN. Í uppskriftinni sem var þar hafði ég 2 msk af hrásykri en tók fram að það mætti sleppa honum – mér finnst engin ástæða til þess, þótt ég sneiði hjá sykri sjálf, að senda eingöngu frá mér sykurlausar uppskriftir. En ég notaði hins vegar engan sykur þegar ég gerði bökuna sem er á myndunum og hún var alveg hreint ágæt, því sætan í fyllingunni dugir alveg – það fannst vinnufélögunum líka, því þeir fengu að gæða sér á henni daginn eftir.
Þetta er svokölluð mylsnubaka eða crumble upp á útlensku. Mylsnubökur eru ekki bakaðar í deigskel, heldur er fyllingin – yfirleitt ávextir eða ber – sett í form og síðan er bökudeig mulið yfir og þetta svo bakað þar til mylsnan er stökk og ávextirnir meyrir. Ég notaði hér epli og perur en það má nota aðra ávexti. Fyllingin sjálf er án viðbætts sykurs og mylsnuþekjan er hveitilaus og er semsagt sykurlaus líka – en það má blanda saman við hana dálitlum hrásykri (2 msk eða svo). Eða bara hvítum sykri þess vegna.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 190°C. Svo tók ég tvö rauð epii (ég notaði Pink Lady) og tvær perur, þroskaðar (mjúkar en ekki linar), flysjaði ávextina, kjarnhreindaði þá, skar í bita og setti í skál.
Svo tók ég 150 ml af ferskju- og mangómauki (smoothie, ég var með Froosh) og hrærði 1 msk af maizenamjölii saman við, hellti blöndunni yfir og hrærði vel.
Ég smurði meðalstórt bökuform (eða eldfast mót) með dálitlu smjöri, hellti ávöxtunum í það og jafnaði yfirborðið.
Þá var það mylsnan ofan á fyllinguna: Ég setti 100 g af hafragrjónum, 80 g af valhnetum,1 tsk af kanel og 1/4 tsk af salti (og sykur ef hann er notaður) í matvinnsluvél og lét ganga þar til hneturnar voru gróf malaðar og allt hafði blandast saman.
Ég skar svo 125 g af köldu smjöri í litla bita, setti þá út í og lét vélina ganga þar til smjörið hafði blandast saman við og komin var rök og kekkjuð mylsna. Ef hún er mjög þurr má bæta við 1-2 msk af ísköldu vatni.
Ég dreifði svo mylsnunni yfir ávextina í forminu. Muldi hana bara yfir með fingrunum og reyndi að dreifa henni nokkuð jafnt en hún þarf alls ekki að þekja ávextina alveg og það á ekki að slétta neitt úr henni eða þjappa.
Ég setti bökuna svo á neðstu rim í ofninum og bakaðu hana í 25-30 mínútur, eða þar til mylsnan hafði tekið góðan lit og var stökk.
Ég lét bökuna kólna í nokkrar mínútur og bar hana svo fram. Með henni er gott að hafa t.d. mascarponeost, þeyttan rjóma eða vanilluís.
Epla- og perumylsnubaka
Fyllingin
2 rauð epli, t.d. Pink Lady eða Honey Crisp
2 perur, þroskaðar
150 ml ávaxtamauk (smoothie), t.d. ferskju- og mangómauk
1 msk maizenamjöl
smjör til að smyrja formið
*
Mylsnuþekjan
100 g hafragrjón
80 g valhnetur
1 tsk kanill
1/4 tsk salt
125 g smjör, kalt
190°C, 25-30 mínútur.