Gullinbrúnt grænmeti

Enginn kvöldmatur í kvöld, því ég var í fjölskylduboði hjá honum bróður mínum, sem varð sextugur í dag og getur nú gengið í félag eldri borgara ef honum sýnist svo. Ég fer að nálgast það mark líka. Annars sagði ég einu sinni við son minn að þegar ég yrði gömul ætlaði ég bara að vera löt og sitja fyrir framan sjónvarpið öll kvöld og hanga á Netinu og fá mér kannski af og til púrtvínsstaup.

– Nú, semsagt engin breyting, sagði hann.

Nokkuð til í því líklega. Hér sit ég allavega núna í leisíbojstólnum mínum fyrir framan sjónvarpið og hangi á Netinu. Ekkert púrtvín reyndar, en ég fékk nú rauðvín í afmælinu áðan. En svona til að gera eitthvað (af því að ég er nú ekki alveg komin á fallanda fót ennþá), þá kemur hér næsta uppskrift þar sem ég nota vörur úr innkaupapokanum frá í síðustu viku. Ég er búin að birta kjötrétt og fiskrétt og nú er það grænmetisréttur. Mjög einfaldur og reyndar er þetta kannski fyrst og fremst meðlæti en ég borðaði þetta sem aðalrétt með salati.

Á meðal þess sem ég hafði keypt var semsagt blómkál og butternut. Magnið sem notað er getur verið lítið eða mikið, það skiptir engu máli, en ég notaði hálfan kálhaus (um 500 g) og lítinn butternutkúrbít – reyndar óvenju lítinn, bara 375 g, en það má alveg nota hálfan eða þriðjung af stærri. Ég borðaði auðvitað bara hluta af þessu en geymdi hitt og hafði sem meðlæti með fiski daginn eftir.

_MG_7092

En ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Svo setti ég 3 msk af ólífuolíu í skál og hrærði saman við 1/2 tsk af paprikudufti (venjulegu), 1/2 tsk af kummini, 1/2 tsk af möluðu kóríanderfræi, pipar og salti.

_MG_7093

Svo flysjaði ég butternutkúrbítinn, skar hann í tvennt, skóf fræin úr honum með skeið og skar helmingana svo í um 1 cm þykkar sneiðar þvert yfir. Setti þær út í krydduðu olíuna og hrærði vel.

_MG_7094

Svo tók ég blómkálið, skipti því í frekar litla kvisti og velti þeim líka upp úr olíunni.

_MG_7096

Svo setti ég bökunarpappír í ofnskúffu, dreifði grænmetinu jafnt í hana, hellti olíunni sem eftir var í skálinni yfir og dreifði nokkrum timjankvistum yfir allt saman. Það má sleppa timjaninu eða nota t.d. þurrkað timjan. Setti ofnskúffuna í miðjan ofn og bakaði í svona 25-30 mínútur, eða þar til grænmetið var rétt orðið meyrt. Það er gott (en ekki nauðsynlegt) að hræra einu sinni eða tvisvar á meðan.

_MG_7114

Hér er grænmetið komið á fat en það fórst fyrir að taka mynd af því á diski með grænu salati – svo mætti líka hafa einhverja kalda sósu, t.d. jógúrt með hvítlauk og kryddjurtum eða eitthvað slíkt. En ég tók reyndar bara hluta af afganginum af smjörbaunastöppunni (sjá hér), þynnti dálítið með köldu vatni og notaði með sósu. Og þetta er semsagt fínasta meðlæti líka, bæði með kjöti og fiski.

Það sem ég notaði úr innkaupakörfunni hér var bara butternutkúrbítur og blómkál. Já, og hluti af salatblöndunni. Og fetaost, ef ég tel smjörbaunastöppuna með …

*

Bakaður butternut og blómkál

500 g blómkál

375 g butternutkúrbítur

3 msk ólífuolía

1/2 tsk paprikuduft

1/2 tsk kummin

1/2 tsk kóríanderfræ, malað

pipar

salt

nokkrar timjangreinar

25-30 mínútur við 200°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s